12.04.1921
Neðri deild: 41. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Pjetur Þórðarson:

Jeg býst nú varla við, að brtt. á þskj. 293 verði samþ., úr því hv. frsm. tilheyrandi nefnda. þ. e. hv. frsm. fjvn. (M. P.) og hv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) hafa báðir lagst svo þunglega á móti henni. En þó vil jeg fara um hana nokkrum orðum og reyna að sýna fram á, að hún fer að eins fram á það, sem sanngjarnt er.

Það er ekki í fyrsta sinn, að þessi till. kemur fram hjer á þingi. Menn hafa löngum fundið það að samgöngur milli Reykjavíkur og Borgarness væru ekki eins góðar og skyldi. En allir geta sjeð, að mikið er undir því komið, að þær sjeu í lagi, því að þessi leið er aðalsamgönguæð milli Norður- og Vesturlands annars vegar og Suðurlands eða Reykjavíkur hins vegar, og er hún eflaust fjölfarnari en nokkur önnur skipaleið kringum landið. Mýrasýsla var ein af þein fyrstu sýslum, sem telja má, að fengið hafi sæmilega vegi, og verður ekki undan því kvartað, en það var líka fullkomlega í þágu alls Vesturlandsins og mikils hluta Norðurlandsins. Mýrasýsla hefir þó ekki fengið þessi hlunnindi fyrir ekki neitt, því viðhald þessara vega hefir lagst æði þungt á sýslusjóðinn, þó að tveir landshlutar noti vegina. Það er því enganveginn fyrir Mýrasýslu eina eða Borgarfjarðarhjeraðið, að farið er fram á auknar samgöngur á þessu sviði. Þessa leið fara margir, og ekki síst mikið af ferðafólki úr Reykjavík, og jafnvel útlendingar, og er oss Íslendingum vart sæmandi að hafa bátaferðirnar með þeim hætti, sem nú er. Þær voru miklu fremur viðunandi áður fyr, en 1918 bilaði sá bátur, er þær annaðist, og þurfti þá aðra fleytu, og hefir bátur sá, er þá var — út úr neyð — tekinn til ferðanna, á engan hátt reynst sæmilega nothæfur til þess, er mestu skiftir, fólksflutninganna.

Háttv. þingdm. hlýtur að vera það vitanlegt, að um þær mundir var ómögulegt að fá nokkurt skip til þess að fara þessa leið, skip, sem hæfilegt væri til fólksflutninga, og það varð að taka gufubátinn „Skjöld“. eign hlutafjelagsins „Eggert Ólafsson“, á leigu fyrir póstferðirnar. Landsstjórnin sá sjer hins vegar ekki fært að fá þetta skip til ferða, sem áður voru farnar. heldur aðeins til póstferðanna. Þessar ferðir fækkuðu því mjög, og þær ferðir, sem farnar voru, voru farnar með að mun minna og óhentugra skipi. Aftur á móti varð kostnaðurinn alveg eins mikill og þegar gert var út áður bæði stærra og þægilegra skip, og sem auk þess fór fleiri ferðir. Póstferðir 1918 og 1919 voru því alveg eins dýrar og allar ferðirnar áður; fyrir 28 ferðir með ljelegu skipi varð að borga meira en fyrir helmingi fleiri ferðir með stærra og betra skipi.

Þar sem nú þessar fáu ferðir komu ekki nærri að haldi, urðu menn að reyna að notast við mótorbáta. Og á þessum umgetnu árum, 1918 og 1919, voru þessar ferðir svo tíðar og fjölsóttar, að það leit út fyrir, að hjer væri verið að spila mikið áhættuspil, að því er snertir líf þeirra manna, sem urðu að notast við þessar ferðir. Svo var það á þingi 1919, að þegar út í þetta óefni var komið, að tilboð kom frá fjelagi, sem hafði nýlega fengið stærra og betra fólksflutningaskip, að það skyldi annast þessar ferðir, ef það fengi sjerstakan styrk til þess. Vitanlega var fyrsta tilboðið hærra en styrkurinn til póstferðanna, enda fleiri ferðir, sem fara átti. En þá var það, að það fjelag, sem gerði út þennan bát, sem hjelt uppi póstferðunum, bauðst til að fara fleiri ferðir, einnig inn í Hvalfjörð og suður með sjó, og yfirleitt innan Faxaflóa. Var mikið kapp á báðar hliðar, en sá, sem hafði framboðið fyrir h.f. Eggert Ólafsson, varð hlutskarpari, með því að bjóða styrkinn niður í helming þeirrar upphæðar, sem sami bátur hafði fengið fyrir ferðirnar áður. Hins vegar sá hitt fjelagið sjer ekki fært að fara lengra niður, og þannig er það þá tilkomið, að þessar ferðir átti að fara með gufuskipinu Skildi árið 1920 og 1921. En svo er að líta á efndirnar. Þær urðu, eins og vonlegt var þegar í þetta óefni var komið, ekki miklar. Báturinn fór að eins póstferðirnar í Borgarnes og engar af hinum ferðunum, og virðist þetta alt hafa verið vítalaust. Styrkurinn var útborgaður að fullu, þótt efndirnar yrðu ekki nema hálfar. Og meðfram af því, að svo fjölmargir hafa þurft að fara þessar ferðir, hafa menn þrjú síðastliðin ár orðið að nota ýms önnur tæki til að fara þessa leið. Það er ekki svo að skilja, að menn hafi ekki átt kost á að fá einhverja ferð, jafnvel með leigða bátnum, ef nægar vörur hafa verið til, en engum hefir borið skylda til að fara neitt eftir þeim, sem áttu að nota ferðirnar, og þar auk þess ekki með öllu áhættulausar. Þó að eins væri litið á þörf hjeraðsins, þá hefir flutningsþörfinni alls ekki verið fullnægt, nema að litlu leyti, með þessum farkosti. Hjer hafa menn sjálfir orðið að sjá fyrir flutningi, og það styrklaust, því að sá styrkur, sem veittur var, var að eins fyrir póstferðirnar. Þetta hefir nú knúð hjeraðið til þess að sækja það mjög fast, að þing og stjórn sæi svo fyrir þessum samgöngum, að viðunanlegt væri, bæði vegna hjeraðsbúa og eins vegna Reykvíkinga og annara aðkomumanna, sem hafa engu minni hag af ferðum þessum en hjeraðsbúar sjálfir. Og til þess að bæta úr þessu og koma því í samræmi við aðrar strandferðir, eru 10 þús. kr. það allra minsta, sem sæmilegt er að veita og hægt er að komast af með. Fyrir það gætu fengist um 15 ferðir upp í Borgarnes, með viðkomu á Akranesi, og nokkrar ferðir inn í Hvalfjörð. Hjer er því til eins lítils mælst og mögulegt er. Við höfum mist af ferðunum vegna þess hve styrkurinn er lítill, og þess vegna er það það minsta, að bætt verði við svo sem 1/3 af ferðum þeim, sem farnar eru á þessu ári. Ef þessi óeðlilega samkepni hefði ekki átt sjer stað, mundi styrkurinn nú hafa verið 40 þús. kr. á þessu ári, og þess vegna er ekki farið fram á nema lítið eitt af því, sem eðlilegt hefði verið.

Háttv. frsm. samgmn. (Þorst. J.) gat þess um þessa brtt. okkar þm. Borgf. (P. O.) að það væri búið að veita þessu fjelagi svo mikinn styrk á þessu ári, að ekki væri nema sanngjarnt, að það fjölgaði ferðum, og beindi þeirri áskorun til okkar flm., að hafa áhrif á þetta og fá breytt samningnum, svo að það fengi styrk af því fje, sem það hefði fengið fyrir aðrar ferðir. Jeg hefi orðið var við það í samgmn., að þessu hefir verið blandað saman, að þótt þetta fjelag hefði tekið að sjer aðrar ferðir á öðrum sviðum, og þótt það væri búið að fá háan styrk fyrir það, þá er ekki hægt að láta það fara að bæta á sig Borgarnesferðum. og það sjer hver heilvita maður, að það er ekki hægt nje sanngjarnt að láta menn milli Borgarness og Reykjavíkur gjalda þess, þótt fjelagið hafi fengið ofháan styrk fyrir ferðir á öðrum sviðum. Frsm. samgmn. (Þorst. J.) sagði, að fjelag það, sem hefði gert út gufubátinn Skjöld, hefi sloppið við að fullnægja gerðum samningum. Þetta er rjett, að því leyti, að það hefir sloppið við að fara aðrar ferðir en póstferðirnar: en af hverju? Af því að styrkurinn var svo lítill, að ekki var nein ástæða til að heimta fleiri ferðir.

Við flm. sækjum þetta mál ekki svo fast af því, að við búumst við því, að við fáum ekki hjálp, en það er af því, að við þykjumst hafa borið skarðan hlut frá borði, í samanburði við önnur hjeruð, og við viljum njóta jafnrjettis við landsmenn, eins og samgöngumálunum á sjó hefir verið skipað. Það er sem sagt ekki til þess gert að fara mörgum orðum um þetta mál, að það mundi ráða nokkru um úrslitin, en jeg vildi einn sinni fá skjallega staðfest, hvernig hv. deild lítur á þetta mál.

Um varatill. ætla jeg ekkert að segja, því síður sem hv. frsm. fjvn. (M. P.) kvaðst geta fallist á hana. og mátti það nú ekki minna vera.

Jeg hafði ekki hugsað mjer að fara út í önnur atriði þessa máls, en get þó ekki látið vera að minnast á það, að þótt jeg hefði getað greitt atkv. með brtt. hv. þm. Barð. (H. K.) eftir efni málsins, þá er jeg ekki viss um að geta gert það, vegna þess að hann hefir lagt kapp á að skipa því í þennan flokk.

Það yrði of langt mál að ætla að fara að gera grein fyrir atkv. sínu um allar þessar brtt., svo jeg ætla að slá striki yfir það og sleppa því.