13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg á hjer einn brtt. á þskj. 260. um eftirgjöf á 5000 kr. láni til skógræktar. Hv. frsm. (M. P.) hefir nú tekið þessari brtt. vel, og vona jeg, að ekki verði þörf að ræða mikið um hana. Lán þetta var veitt 1918. eftir till. fjvn.; var þá verið að leggja í skógarhögg í Vatnaskógi, og var ætlast til þess, að þetta fyrirtæki bæri sig. Á því ári varð það líka svo, að halli varð enginn, en árið 1919 var fjeð notað aftur til skógarhöggs í Ánabrekkuskógi, og gekk þá gersamlega í súginn, og jafnvel enn meira.

Undanfarið hefir sáralitlu fje, tiltölulega móts við dýrtíð, verið varið til skógræktar. Þingið hefir ekki haft trú á málinu, og þrátt fyrir dýrtíðina hefir fjeð til skógræktar eiginlega farið minkandi. Ef ekki á algerlega að hætta þessu starfi, þá er óhjákvæmilegt að gefa þetta lán eftir og nema það burtu sem lán í reikningum skógræktarinnar, en telja það fjárveitingu.

Þá vildi jeg fara nokkrum orðum um sumar brtt. Skal jeg fyrst snúa mjer að brtt. á þskj. 273 frá fjvn. Hún er um uppbót til Jóns Straumfjörðs. Mjer er þessi fjárveiting ókunn, því að jeg hefi ekki haft tal af póstmeistara eftir að hún kom fram. Hygg jeg þó, að póstmeistari álíti, að ekki sje beinlínis þörf á fjárveitingu þessari til uppbótar á starfi því, sem þessi maður nú hefir við pósthúsið, en álítur hins vegar, að verði fjeð veitt, þá megi auka við störf hans í pósthússins þágu, og það geti komið sjer vel.

Um fjárveitingu til Holtavegar skal jeg geta þess, að jeg bjóst við, að farið yrði fram á hærri fjárveitingu, enda er þetta auðsæilega aðeins til bráðabirgðaviðgerðar, og hverfur á árinu í súginn. Annars eru þessi vegamál, eins og sakir standa nú með fjárhaginn. mjög örðug viðfangs.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á vitamálin. Skal jeg þar ekki lá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), þótt hann sje dálítið ergilegur. ef vitarnir verða ekki bygðir á Austurlandi í sumar, sem ráðgert var, einkum ef ýtt er í fyrirrúm byggingum vita, sem eigi voru ráðgerðar í fyrra. Um þessar brtt. viðvíkjandi vitunum var mjer annars kunnugt um Arnarnesvitann einan. og munu hafa komið meðmæli til fjvn. frá skrifstofu minni honum áhrærandi. Sýndist sem breytingin á honum væri nauðsynleg, því að eins og hann nú er, verður rekstrarkostnaður hans mjög mikið meiri en eftir breytinguna. eða á að færast úr 1800 kr. niður í 700 kr. Ennfremur mun vitinn þurfa annarar aðgerðar við, til þess að koma að notum. Annars hefi jeg ekki talað við vitamálastjóra þessu viðvíkjandi, sökum þess. hve málið er seint fram komið og lítill tími hefir verið til þess að íhuga það. Jeg mun því ekki leggja neina áherslu á að brtt. þessi nái fram að ganga, þó að jeg muni greiða henni atkv. mitt. En viðvíkjandi vitabyggingunum á Austurlandi, þá þarf engan að furða það, þó að stjórnin hafi eigi látið framkvæma þær, því til þess þurftu 150 þús. kr. Sýnist tækilegra í fjárþröng að veita 20 þús. kr. til lagfæringar á Arnarnesvitanum, þó að jeg hins vegar vilji eigi gera slíkt að kappsmáli, ef það kynni að særa háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.).

Þá vildi jeg fara nokkrum orðum um fjárveitinguna til vitavarðar Arnarnessvitans. Stjórnin lagði það til við háttv. fjvn., að manni þessum yrði veitt eitthvað, í eitt skifti fyrir öll, sökum meiðsla, sem hann hafði orðið fyrir í starfi sínu. Virðist það sanngjarnt að bæta þeim mönnum einhverju, er verða fyrir slysum í þjónustu landsins. En stjórnin lagði áherslu á, að fjárhæðin yrði veitt í einu, og þá dálítið ríflegri, en eigi sem eftirlaun, eins og fjvn. leggur til, og mun jeg því eigi geta greitt brtt. atkv. mitt í því formi, sem hún nú er.

Þá vil jeg leyfa mjer að mæla með fjárveitingu til Búnaðarfjelagsins, til verkfærasýningar, að upphæð 20 þús. kr. Hafði jeg raunar hugsað, að rentur af ræktunarsjóðnum í 2–3 ár mundu nægja til þess að leggja hæfilegan skerf til sýningarinnar, og ekki mundi þá þurfa að taka fje af landsreikningnum, en það hefir nú komið í ljós, við nánari athugun, að rentur sjóðsins árið 1920 og 1921 nema einungis 20 þús. kr., þegar verðlaun eru dregin frá fyrir árið, en hinsvegar hefir verið áætlað, að sýningarkostnaður mundi verða alt að 50 þús. kr., og því mun nefndin hafa viljað bæta þessum 20 þús. kr. við, í þeirri von, að það mundi nægja. Einnig vil jeg mæla með uppbótinni til Einars Sæmundssonar skógarvarðar, því að hún hefir ekki verið færð, sökum vangár, en stjórnin telur, að hann eigi sömu laun eins og aðrir skógarverðir, meðan stöðunni er haldið, en um nauðsyn þess geta verið skiftar skoðanir.

Þá vildi jeg leggja 2000 kr. fjárveitingunni til heimilisiðnaðarsýningarinnar liðsyrði mitt. Sýnist mjer kvenþjóðin hafa farið hjer hóflega í sakirnar, og það einmitt af því, að hjer er um mjög gott fyrirtæki, eða öllu heldur málefni, að ræða, sem þegar hefir leitt mikið gott af og hefir mikið verkefni fyrir hendi.

Að síðustu vildi jeg styrkja það, að veitt yrði fje til gömlu bryggjunnar á Blönduósi, ef þess er nokkur kostur. Bryggjan eyðilegst, ef ekki er gert við hann, og það þegar í stað, enda er hjer aðeins farið fram á 1/3 kostnaðar. Væri áreiðanlega betra fyrir hjeraðsbúa að fresta bryggjubyggingu sunnan Blöndu og fá sem því svarar, sem nú er í fjárl. til hennar, til þess að koma þessari í lag, enda mun örðugt fyrir hjeraðið að koma upp báðum bryggjunum samtímis í þessari fjárþröng.

Þótt jeg hafi gefið sumum brtt. meðmæli mín, þá er mjer það fullljóst, að svo getur farið, að fjárveitingarvaldið geti alls ekki int af hendi alt það fje, sem þær fara fram á. Þar sem jeg samt hefi mælt með einstöku brtt., þá er það vegna þess, að jeg álít, að þær eigi að sitja í fyrirrúmi fyrir ýmsum öðrum. En jeg mun greiða atkvæði á móti ýmsum öðrum, sem jeg að vísu álít nytsamar og jafnvel nauðsynlegar, ef nokkur leið væri til að fullnægja þeim, en verð nú að banda hendi á móti þeim vegna fjárskortsins.