13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Þorleifur Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð, út af till. háttv. samgmn. á þskj. 264, um að færa styrkinn til Austfjarðabátsins niður í 8000 kr. Háttv. frsm. (Þorst. J.) byrjaði ræðu sína í gær á því, að háttv. fjvn. kæmi nú með margar hækkunartill., en öðru máli væri að gegna um samgmn., því að hún flytti eingöngu lækkunartill. En þegar til kom, var upptalningin ekki lengri en ein till., um að lækka styrkinn til Austfjarðabátsins um 7000 kr.; það var alt og sumt. Mjer finst nú, að háttv. samgmn. hefði getað sparað sjer sjálfslofið fyrir sparnað, þó að henni takist að fá háttv. deild til að neita um þessa upphæð til styrktar bátsferðunum. Um þennan styrk er það að segja, að ef báturinn á að halda uppi samgöngum milli Hornafjarðar og Austfjarða, þá er það svo löng leið, að styrkurinn mundi alls ekki nægja til þess, og er altof lítill, samanborið við þann styrk, sem veittur er til bátsferða á Breiðafirði og víðar.

Sje ætlast til þess, að báturinn gangi aðeins um Austur-Skaftafellssýslu, með endastöð á Djúpavogi, þá er þess að gæta, að stór skip geta ekki lagst við bryggju þar, svo að upp og útskipun er erfið og kostnaðarsöm. Það er því ekki heppileg höfn fyrir bát, sem á að taka vörur millilandaskipanna, enda veit jeg ekki til þess, að háttv. samgmn. hafi gert neinar ákveðnar tillögur um, að Goðafoss skyldi koma þar. Ef endastöðin á að vera á Fáskrúðsfirði eða Eskifirði, þá skal jeg játa, að meiri líkindi eru til að Goðafoss komi þangað, því að á þeim höfnum getur skip lagst við bryggju, og því betri endastöðvar en á Djúpavogi. En það er ekki hægt að neita því, að það er óheppilegt, að Austfjarðabáturinn geti ekki komist alla leið til Seyðisfjarðar, því að þar er eini staðurinn á Austfjörðum, þar sem landsverslunin hefir útibú. Til þess því, að Hornfirðingar, með þessu fyrirkomulagi, gætu fengið vörur frá henni, yrði fyrst að flytja þær frá Seyðisfirði til Eskifjarðar eða Fáskrúðsfjarðar, en með því yrði þreföld fragt á þeim.

Austfjarðabáturinn hefir komið við á öllum smærri höfnum í Suður-Múlasýslu, t. d. Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og víðar, þar sem annars hafa verið strjálar viðkomur hinna stærri skipa, og með því bætt mjög úr samgönguþörf slíkra staða. En ef till. samgmn. verður samþ., þá er styrkurinn svo lítill, að hann getur ekki haft þessar viðkomur. Eftir till. er okkur Skaftfellingum alveg í sjálfsvald sett, hvernig við högum ferðum bátsins. Það er því ekki hægt að búast við því, að við förum að senda hann á smáhafnir, sem við höfum lítil eða engin viðskifti við, heldur á Fáskrúðsfjörð og Eskifjörð og aðra staði, sem við höfum mikil viðskifti við.

Jeg þarf ekki að fjölyrða um þennan styrk meira, þar sem 15000 kr. styrkurinn var samþ. með miklum atkvæðamun við 2. umr. Og jeg vil taka það fram, að verði brtt. samgmn. samþ., þá verð jeg að líta svo á, að Austur-Skaftfellingar hafi alger umráð bátsins og þurfi ekki að láta hann fara annað en þeir hafa hag af. Enda tók háttv. frsm. (Þorst. J.) það fram, að styrkurinn væri aðeins fyrir Hornfirðinga. Jeg álít því, að nota megi þennan styrk til flutningaferða um sýsluna, á Papós, Hvalsneskrók og víðar. ásamt því að ná sambandi við Austfirði.

Jeg skal ekki fara í neinar orðadeilur fyrir fjvn., því að háttv. frsm. (M. P.) mun einfær um að verja gerðir hennar.

Háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) ásakaði fjvn. fyrir að hafa ekki tekið Blönduóssbryggjuna í sínar till. En eins og frsm. (M. P.) hefir tekið fram, þá eru atkv. nefndarmanna algerlega óbundin um það atriði.

Jeg skal lýsa því yfir, fyrir mína hönd, að jeg hefi álitið þetta vel mega heita nauðsynjamál. En það voru ýmsir þm. í nefndinni, sem álitu vera spursmál um, hvað gera ætti viðvíkjandi svona mannvirki. Jeg minnist þess, að í vetur, þegar jeg var á ferð fyrir norðan land á Sterling, og við lágum á Blönduósi, þá sagði einn velmetinn og háttstandandi farþegi við mig, um leið og hann benti á bryggjuna austan Blöndu, sem hrunið hafði: „Þarna er einn landssjóðskirkjugarðurinn“. (.V. P.: Þeir eru nú fleiri hjer á landi. Að vísu.. en jeg skal engan dóm leggja á það, hvort þetta er sagt að ófyrirsynju. En það má líta á það hjer, að hjeraðið sjálft vill leggja fram stórfje, alt að 40 þús. kr., og virðist það benda á það, að mikil nauðsyn sje á því að endurreisa bryggjuna, og því ekki óeðlilegt, þótt landssjóður leggi fram einn þriðja á móti. Þegar áhugi hjeraðanna er svona mikill, þá vil jeg, fyrir mitt leyti, ekki spyrna á móti því, að ríkissjóður leggi eitthvað fram, eða þann þriðjung, sem vant er að veita til slíkra fyrirtækja.

Háttv 2. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að fjvn. með till. sínum gengi inn á það svið, sem eingöngu væri ætlað úthlutunarnefnd listamannastyrksins, og hjelt, að þessir listamenn, sem fjvn. hefir tekið í till. sínar, væru þeir óverðugustu í augum úthlutunarnefndarinnar. En þetta hvorttveggja er misskilningur. Úthlutunarnefndin hefir veitt bæði Kristínu Jónsdóttur og Jóhannesi Kjarval styrk, en hún kvaðst hafa of litlu fje yfir að ráða, og fór því fram á við fjvn., að hún reyndi að fá þingið til að bæta við þá. Hjer er því alls ekki verið að taka fram fyrir hendur úthlutunarnefndarinnar, heldur farið eftir hennar óskum.

Jeg skal svo ekki lengja meira umræðurnar.