13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Sigurður Stefánsson:

Það er einkum út af Arnarnesvitanum og samanburði hans við fyrirhugaða vita á Austfjörðum, að jeg tek til máls. Jeg lái háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) það alls ekki, þótt hann vilji ekki láta dragast eitt árið enn þessar vitabyggingar á Austfjörðum. Það er nú svo, að hver vill sínum tota fram ota.

En jeg held, að um þessa till. fjvn. verði ekki annað sagt en nefndin hafi fyrst og fremst litið á nauðsynina, nauðsynina hvar helst væri þörf á endurbygging og aðgerð gömlu vitanna; þar næst leggur nefndin til, að reistir verði tveir nýir vitar. Og jeg álít, að Alþingi beri fyrst og fremst skylda til þess að varna því, að gömul mannvirki ríkissjóðs grotni niður, áður en það bætir nýjum við, og þegar Arnarnesvitinn er að falli kominn, þá væri það hrapalleg skammsýni hjá þinginu, ef það ljeti aðgerð hans dragast. Ef litið er á gerðir Alþingis í þessum vitabyggingamálum, þá sjest ljóslega, hvar þingið hefir álitið brýnustu þörf fyrir vita.

Fyrst er Reykjanesvitinn bygður — og svo kemur Arnarnesvitinn. Það sýnist því sjálfsagt — nema Alþingi sje brugðið um skammsýni í þessum málum undanfarið — að láta nauðsynlegar endurbætur þessara fyrstu vita sitja í fyrirrúmi fyrir nýjum vitabyggingum. — Enginn vafi er og á því, að Arnarnes er sá staður, sem einna mesta þörf hefir fyrir vita. Á þessum stað er mest skipaumferð vestan lands, og einmitt á þetta atriði var lögð svo mikil áhersla, og þetta flýtti fyrir byggingu vitans, og þegar svo þessi viti er að falli kominn, þá bregst þingið skýlausri skyldu sinni, ef það frestar nauðsynlegri viðgerð hans enn þá.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) þótti þm. Ísaf. (J. A. J.) fara með tröllasögur, er hann lýsti ástandi vitans. En það er rjett, sem hv. þm. (J. A. J.) sagði; undirstöður vitans eru orðnar svo fúnar, að hann er að falli kominn. Og jeg verð að segja það, að mjer fanst öllu fremur tröllasögukeimur að því, er hann sagði, er hann var að lýsa skiptöpunum á því svæði, er hinir fyrirhuguðu vitar á Austfjörðum eiga að koma, því að jeg minnist ekki að hafa heyrt getið um þessa miklu skiptapa þar. Jeg býst ekki við, að þótt þessum vitabyggingum á Austurlandi verði frestað nú, að sá dráttur verði langur. Vona hins vegar, að fært verði að reisa þá á næstu árum. En það, sem veldur því, að jeg get ekki greitt atkv. með fjárveitingum til þeirra í þessum fjáraukalögum, er einungis hið geigvænlega fjárhagsástand, en þótt jeg óttist öll aukin útgjöld í fjáraukalögum, þá þykir mjer leitt að greiða atkv. á móti aðgerð á mannvirkjum ríkisins, því það álít jeg þó fyrstu skyldu vora að láta eigi þau mannvirki, sem áður hefir verið varið miklu fje til, ónýtast. Hitt get jeg vel skilið, og það er ekki að ófyrirsynju, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að stjórnin sæi sjer ekki fært að framkvæma þær vitabyggingar, sem samþyktar hafa verið, eða yfir höfuð að greiða allar lögmæltar fjárveitingar, vegna þess, að fjeð væri ekki fyrir hendi í ríkissjóðnum, og jeg skal bæta því við, að jeg vona, að þær fjárveitingar verði látnar sitja fyrir, sem þýðingu hafa, en það skyldi ekki hryggja mig, að ýmsar miður þarfar styrkbeiðnir yrðu feldar niður. Jeg mundi ekki áfellast stjórnina fyrir það. þótt hún gripi til þess úrræðis, ef hún sæi í botn ríkisfjárhirslunnar.

Viðvíkjandi Djúpbátnum skal jeg einungis geta þess, að hann gengur um svæði þar sem ekkert skip kemur, nema á endastöð bátsins, Ísafjörð. Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þessa liði, en vil benda á, að þeir þm., sem samþ. umgetnar fjárveitingar, þeir stuðla að því, að þau mannvirki falli ekki í kaldakol, sem búið er að verja miklu fje til að reisa.