13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jón Baldvinsson:

Jeg er svo hamingjusamur að eiga ekki eina einustu brtt. við frv. það, er hjer liggur fyrir. Jeg þarf því ekki að byrja með því að ávíta fjvn. fyrir sóun á ríkisfje. En þetta skilst mjer vera sá venjulegi inngangur, til þess að geta farið að mæla með sínum tillögum.

Þótt jeg sjái þannig ekki ástæðu til að ávíta fjvn., þá er ýmislegt í fjáraukalögunum, sem jeg get ekki fallist á. Skal jeg einkum benda á tvö atriði.

Hið fyrra er það, að mjer virðist styrkveiting til samgöngumála allhá fjárhæð. Til skipaferða eru nú áætlaðar ca. 200.000 kr.; þar af er 1/3 ákveðinn til Eimskipafjelagsins, fyrir að halda uppi ferðum milli Íslands og Kaupmannahafnar helming ársins. með viðkomustöðum á Norður- og Austurlandi. Það er rjett, að margir hafa ávalt búist við að þetta nýja skip Eimskipafjelagsins mundi taka upp þær ferðir og viðkomustaði, sem varhluta hafa farið af skipaferðum undanfarið, og hin almenna þátttaka í Eimskipafjelaginu var gerð með það fyrir augum, að fjelagið starfaði fyrir alt landið. Og er þá ekki farið of frekt í sakirnar hjer? Er ekki fullmikið lagt fram af ríkissjóðs hálfu, þegar fjelagið, að nokkru leyti, hefir bundið sjer þessa skyldu á herðar fyrir fram? Jeg vildi skjóta því til háttv. samgmn. að athuga. hvort ekki sje rjett, að ríkið noti sem allra mest og styrki sín eigin skip, því að nú er svo komið, að skipin, sem keypt eru dýru verði, þurfa að afskrifa allmikið af upphaflegu kaupverði sínu, til þess að geta talist fulltrygg eign. Þetta þarf að athuga í tíma, svo að þessi fyrirtæki fái risið undir væntanlegu verðfalli.

Þá er annað atriði viðvíkjandi 19. gr. fjárlaganna (9. gr. fjáraukalaganna), sem jeg vildi fá upplýsingar um hjá hæstv. fjrh. (M. G.). Þar er áætlaður kostnaður vegna konungskomunnar 200 þús. kr. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um, hvort sá kostnaður sje allur greiddur, eða hvort þetta muni nægja til væntanlegrar móttöku í sumar. Jeg veit, að hæstv. ráðherra (M. G.) muni geta svarað, hve miklu hefir verið varið til þessara miður þörfu ráðstafana síðastl. sumar, — og jeg vonast eftir svari hans.

Annars er 9. gr. fjáraukalaganna næsta einkennileg. Önnur upphæð hennar er örlítil fjárhæð til þess að halda lífi í einhverjum aumasta öreiga ríkisins, en hitt er stór fjárhæð, sem varið er í alt öðru skyni, til ónauðsynlegs tildurs vegna konungskomunnar í sumar.