13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf ekki að vera mjög langorður, því að þótt umræður hafi nú staðið í tvo daga um fjáraukalögin, þá hefir fremur lítið verið fundið að gerðum fjvn. Og þeir fáu, sem fundið hafa að, hafa gert það mjög loðið og tekið á brtt. fjvn. þeim vetlingatökum, að hvorki er það auðvelt, nje heldur þarflegt, að svara þeim miklu.

Annars hefi jeg haft gaman af því að heyra einstaka deildarmenn vera að tala um eyðslusemi fjvn. yfirleitt, en rjúka þó um leið upp til handa og fóta til þess að verja það, sem fjvn. hefir lagt til að veitt verði í þeirra eigin kjördæmi. En jeg verð að benda þessum háttv. þm. á það, að fjvn. er fyrir alt landið, og verður því að taka jafnt tillit til allra landsfjórðunga. Og jeg vil í þessu sambandi benda á orð háttv. þm. Ak. (M. K.), sem sjálfur hefir verið í fjárveitinganefnd, að það er „hægra um að tala en í að komast“. Háttv. þm. þekkja ekki þann vanda, seni fjvn. er oft stödd í, um það, hverjar fjárbeiðnir hún eigi að skera niður og hverjar að taka til greina.

Háttv. þm. Barð. (H. K.) var að tala um tóninn í framsöguræðu minni. Það getur vel verið, að sumum þyki jeg nokkuð hvatskeytlegur í orðum, og láti ekki lyppast út úr mjer það, sem jeg ætla að segja á annað borð. Annars er það misskilningur, að jeg hafi verið að koma með ákúrur til hans (H. K.). Hann vildi bera brigður á það, að fjvn. hefði verið öll á einu máli um fjárveitinguna til Sigurðar Jónssonar. Jeg hefi að vísu ekki heimild til þess að skýra hjer frá öllu því, sem gerist á fundum fjvn. En ef til vill getur þessi háttv. þm. (H. K.) fengið aðgang að gerðabók nefndarinnar, og sannfærst þar um, hvort sögumaður hans fer með rjett mál eða rangt.

Hv. 2. þm. árn. (Þorl. G.) og 2. þm. Húnv. (Þór. J.) þarf jeg raunar ekki að svara. Hæstv. fjrh. (M. G.) hefir svarað 2. þm. Árn. og form. fjvn. hefir svarað 2. þm. Húnv. En jeg vil þó undirstrika það í svari formannsins, að einmitt það, sem háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) vítti fjvn. fyrir að hafa ekki gert, það var einmitt það, sem nefndin gerði.

Um listamannastyrkinn sagði háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.), að úthlutunarnefndin muni hafa álitið þá mennina síst styrkhæfa, er hún synjaði um styrkinn. Jeg er hjer á gagnstæðri skoðun. Jeg hygg einmitt, að nefndin hafi skilið þá menn eftir, sem hún taldi hæfasta, í þeirri vissu von, að þingið gæti ekki, sóma síns vegna, gengið fram hjá þeim.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fetti ekki fingur út í neinar sjerstakar till. fjvn., en óskaði, að hann hefði aldrei þurft að sjá neina þeirra. Jeg get nú líka tekið undir þá ósk, og vildi, að jeg hefði aldrei þurft að sjá þau skjöl, sem fyrir fjvn. lágu. En úr því till. eru fram komnar, þá vona jeg, að hann greiði atkvæði með þeim, því að þær eru svo sanngjarnar og nauðsynlegar, að ekki er hægt að láta vera að greiða þeim atkvæði, úr því þær eru fram komnar.

Þá kem jeg næst að hæstv. fjrh. (M. G.), sem helst reyndi að færa rök fyrir, að fjvn. hefði verið nokkuð ör í till. sínum. Lái jeg honum þetta alls ekki, þótt jeg hins vegar sjái, að þetta er gert meira af vilja en mætti, til þess að sýna þó einhvern lit á því, að hann vilji halda í horfinu og spara fje landsins. Og hefi jeg það til marks, hve fáar brtt. það voru, sem hann gerði aths. við. Það var þá sjerstaklega um vitana. En mjer finst það satt að segja dálítið óviðkunnanlegt fyrir fjvn., þegar till. er fram komin frá stjórninni um einhverja fjárveitingu, að þá skuli ráðherrarnir snúast öndverðir hver gegn öðrum um till., er á þing kemur. Og jeg vil skjóta því til hæstv. stjórnar, að hún reyni að varna því framvegis, að einhver ráðherranna geri till. í nafni stjórnarinnar, nema öll stjórnin standi þar að baki, til þess að setja ekki fjvn. í gapastokkinn.

Hæstv. fjrh. (M. G.) taldi ekki mikinn sparnað í því að senda samtímis efni til Gjögurvitans og Arnarnessvitans. En það er fleira en efnið eitt, sem þar kemur til greina. Sama fólkið mundi og framkvæma þetta verk. Og þá liggur í augum uppi, að heppilegra er, að stutt sje milli þeirra staða, sem framkvæmdir fara fram á. Honum fanst og, að eldri mannvirki ættu ekki að sitja fyrir hinum yngri. En þó kemur okkur vel saman um það, að sjálfsagt sje að halda því við, sem bygt hefir verið, t. d. bryggjunni á Blönduósi. Finst mjer þetta því vera hvað á móti öðru hjá hæstv. ráðherra (M. G.), og hann þannig kominn í mótsögu við sjálfan sig, því að það er einmitt til að sporna við því, að gömul mannvirki eyðileggist, sem við viljum þetta.

Af því að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) kallaði það tröllasögur, sem háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) sagði um Arnarnessvitann, þá vil jeg geta þess, að slysið, sem varð við þann vita, hlaust af því, að húsið var á fallanda fæti. Vitavörðurinn var að festa þak á húsið, þegar hann hrapaði niður, í ofviðri. Sýnir þetta svo ljóst, hvílíkur gallagripur húsið er, að engin þörf er að benda á fleira. Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) hefir annars gert svo góða og glögga grein fyrir báðum þessum vitum, að jeg þarf ekki frekar um þá að tala. Þó vil jeg geta þess, út af orðum hæstv. fjrh. (M. G.), að vitamálastjóri telur það sparnað, að nýr vitavörður komi að vitanum, þegar búið er að endurbæta hann. Þá er hægt að gæta vitans fyrir lægri laun en áður, en ef gamli vitavörðurinn heldur áfram starfinu, þá verður hann að halda sínum gömlu launum. En þau eru talsvert miklu hærri en þörf er á, ef annarskonar fyrirkomulag yrði.

Hæstv. fjrh. (M. G.) mintist á dýrtíðaruppbótina til Einars Jónssonar. Það finst mjer óneitanlega bera vott um, að hann hafi ekki víða getað stungið fingri niður í till. fjvn. Þetta á alls ekki að vera fordæmi fyrir að veita dýrtíðaruppbót á listamannastyrknum. Hjer stendur svo sjerstaklega á um þennan listamann, að hann getur vitanlega ekki lifað af þeim litla styrk, sem hann hefir. Og hann hefir gert svo mikið fyrir þetta land, og á vonandi enn eftir að gera, að það væri ekki vansalaust af þinginu að láta hann svelta framvegis, eða líða nauð á annan hátt. (Sv. Ó.: Er hann þá öryrki?) Nei, alls ekki. En það, sem hann vinnur nú sem stendur, það vinnur hann fyrir þetta land. Hann starfar nefnilega að því að koma fyrir safni sínu, sem hann hefir gefið landinu. Og þó hann ef til vill smíði eitthvað af listaverkum fyrir sjálfan sig, þá er það engin atvinna, þegar þess er gætt, að listaverk eru nú yfirleitt óseljanleg. Og jeg þakka hv. þm. (Sv. Ó.) fyrir að hafa gefið mjer tækifæri til að koma fram með þessar upplýsingar.

Þá talaði hæstv. fjrh. (M. G.) um styrkinn til Jakobs J. Smára. Fanst mjer ekki laust við, að hann færi þar út í hártoganir. Hann spurði, hvort stjórnin ætti þá að borga út nafnbundinn styrk af fjárlögunum til dauðs manns. Já, jeg skal svara þessu í sama tón og segja þetta: Jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, að stjórnin geri það, ef sá dauði sannar, að hann vinni fyrir styrknum, og stjórnin sjer sjer fært að koma honum til hans. gegn fullnægjandi kvittun!

Hjer er ein spurningin sú: Hefir þessi umgetni maður, Jakob J. Smári, nægan tíma til þess að leysa starfið af hendi eða ekki? Jeg skal ekkert ákveðið um það segja, hvort maðurinn hefir nægan tíma. En jeg veit, að stjórnin hefir ekki rækilega grenslast eftir því, hversu mikla aukavinnu þessi maður hafði, áður en honum var veitt kennarastaðan, en það þyrfti að vera fyllilega upplýst, ef samanburð á að gera. Jeg fyrir mitt leyti get trúað því, að sú kensla, sem hann hafði áður á hendi, hafi ekki verið minni en sú, sem kennarastöðunnni fylgir, en ef til vill meiri. Það hefir og áður tíðkast, að menin, sem hafa verið störfum hlaðnir, hafa fengið styrk til orðabókar. Vil jeg þar benda á núverandi rektor Mentaskólans, G. T. Zoega, sem bæði hefir fengið slíkan styrk og samið orðabók í hjáverkum sínum.

En það, sem nefndin einkum vill leggja áherslu á, er það, að hún telur það algerlega óhæfilegt af stjórninni að neita að greiða þessum manni nafnbundna fjárveitingu, nema samningar hafi verið um það gerðir áður en maðurinn tók við kennarastöðunni, en því miður vanrækti stjórnin þetta, og hefir þannig orðið þess valdandi, að nefndin hefir neyðst til að skifta sjer af þessu.

Það, sem nefndin leggur aðaláherslu á, það er, að hún getur ekki gengið inn á, að stjórnin geti neitað að greiða nafnbundnar styrkveitingar. Nefndin álítur það hættulegt fordæmi, ef stjórninni er veitt víðtæk heimild til að skurka í fjárlögunum eftir vild, til breytinga.

Hæstv. fjrh. (M. G.) talaði um það, rit af því, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að hann hefði talið, að kennararnir ættu að eiga frí á sumrin, og er það rjett, að þannig hefði það helst átt að vera, en til mjög skamms tíma hefir þetta naumast getað látið sig gera, vegna þess, að þeir hafa flestir orðið að vinna, einnig á sumrin, vegna ónógra launa. Og sú vinna, sem margur þeirra afkastaði á þeim tíma, sýnir það, að þeir, sem sjerstaklega vilja þannig slíta sjer út, geta þó unnið aukreitis kennarastarfinu.

Hæstv. fjrh. (M. G.) mintist á þessar frestanir á framkvæmdum, sem jeg spurði um, vegagerðir og símalagningar, sem óafgert er enn um, hvort framkvæmdar verða. Það er vitanlegt, að þingið þarf ekki að leiðbeina stjórninni um þær framkvæmdir, sem ekki er veitt fje til í fjárlögum, að svo komnu máli, en hinu verð jeg að halda fram, að stjórnin hafi ekki heimild til að láta ógert það, sem þingið fyrirskipar, nema með þess leyfi. Að vísu er það rjett, að stjórnin er nokkurskonar ráðsmaður Alþingis, og getur því komið fyrir á milli þinga, að óviðráðanlegar orsakir geti orðið þess valdandi, að stjórnin verði að láta undan falla að framkvæma fyrirmæli þingsins, en þegar þingið situr, þá er alls óleyfilegt að leita ekki leyfis þess.

Hæstv. atvrh. (P. J.) var að tala um eftirlaun vitavarðarins við Arnarnesvitann, og lagði til, að veitt yrði ein upphæð í eitt skifti. En nefndin áleit, að sú upphæð yrði þá að vera nokkuð rífleg, og þótti því nefndinni betra að fara þessa leið, að greiða smáupphæð í svip, þar sem hjer er þröngt í búi sem stendur.

Þetta gæti skoðast sem óverulegur lífeyrir til gamals manns. og mjer þótti undarlegt, ef hæstv. ráðherrar gætu ekki eins fylgt þessari tillögu sem öðrum. Jeg sagði líka, að ekki ætti að orða það sem eftirlaun, heldur sem uppbót fyrir meiðsli, er maðurinn hlaut, er hann var að gegna starfinu.

Jeg skal einnig geta þess frá sjálfum mjer, út af því, sem hæstv. atvrh. (P. J.) sagði um styrkveitinguna til Blönduóssbryggjunnar, að nota mætti fjeð til annarar bryggju, að það er öfugt við mína skoðun, því að jeg tel óheimilt, að stjórnin flytji fje, sem veitt er í fjárlúgunum, milli staða. nema heimild Alþingis sje til þess sjerstaklega.

Jeg held, að jeg sje svo ekki að tefja tímann lengur, og vænti að háttv. deild, eftir þeim undirtektum, sem tillögur nefndarinnar fengu við síðustu umr., samþ. þessar brtt. nefndarinnar. Enda nema tillögur hennar ekki nema 5% hækkun á fjárveitingum í frv.