13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki tefja hv. deild lengi, en af því að nokkrar umr. hafa spunnist út af brtt. minni á þskj. 242. verð jeg að segja nokkur orð.

Jeg vil taka það fram, til þess að leiðrjetta misskilning, sem mjer fanst kenna hjá hæstv. forsrh. (J. M.), að þessi till. mín stendur alls ekki í sambandi við afstöðu mína til núverandi stjórnar. Þá vil jeg og mótmæla því hjá hæstv. forsrh. (J. M.), að þm. hafi gert ráð fyrir slíkum eftirlaunum sem þessum, þá er eftirlaun ráð herra voru afnumin. Jeg var á þingi þá, og jeg minnist þess ekki. Hann benti á, að þessi heiðursmaður hefði verið tekinn úr stöðu sinni. Þetta hafði jeg og bent á, og fyrir mjer vakir einmitt að bæta honum þann halla, sem hann hefir beðið við það, með þessari ekki ósómasamlegu upphæð. Jeg get ekki fundið, að jeg hafi talað neitt öfgakent um þetta, og jeg tel enga ástæðu til þess að bregða mjer eða öðrum hv. þdm. um öfundsýki, eins og hæstv. fjrh. (M. G.) gerði. (M. G.: Jeg sagði það ekki). Mjer gengur engin öfund til, enda er jeg lítt haldinn af þeim kvilla. Og ekki hefi jeg ætlast til, að stjórnin endurborgaði það, sem þegar er greitt.

Annars vil jeg ekki fjölyrða meira um þetta. Með tillögu minni hefi jeg viljað leitast við að miðla sem best málum, um leið og jeg vil láta það sjást, hverjir það eru, sem álíta sig hafa heimild til að greiða ráðherrum eftirlaun, þvert ofan í skýlaus lagafyrirmæli.