13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg þóttist stilla orðum mínum mjög í hóf síðast þegar jeg talaði, og mjer kom því dálítið á óvart þessi glymjandi í háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.). Það var alls ekki ætlun mín að meiða hann eða sneiða á nokkurn hátt. — En viðvíkjandi orðum háttv. þm. Barð. (H. K.) ætla jeg að taka það fram, að það var búið að ræða mikið um launamálið, áður en eftirlaunalögin voru afnumin, og það jafnvel áður en háttv. þm. (H. K.) steig fæti sínum í þennan sal, — svo að jeg þarf ekki á neinum leiðrjettingum að halda frá honum í þeim efnum. Mjer er best kunnugt um það. Ef milliþingalaunamálanefndin rannsakaði nokkurt mál gaumgæfilega, þá var það þetta.