13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg er fyllilega samþ. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) í þessu máli. Þegar svo stendur á sem nú, að ástæður hafa breyst frá því, er fjárveitingin var ákveðin, þá tel jeg sjálfsagt að haga sjer samkvæmt því, og greiða ekki fjeð nema ástæða sje til. Og jeg álít, að sjálfsagt sje, að þessi fjárveiting verði ekki tekin upp í fjárlögin fyrir 1922.

Mig furðaði annars á því, hve lítið hv. þm. Dala. (B. J.) gerði úr íslenskunni í ræðu sinni áðan. Jeg man þó, að hann var á annari skoðun hjer á árunum, þegar hann var kennari minn. Þá hjelt þann því fram, að íslenskukenslan væri eitt vandamesta málið, og að móðurmálskenslan ætti að vera aðalatriðið — en jeg hefi, sem auðsveipur lærisveinn, ekki viljað víkja frá því, sem hann kendi mjer þá. (B. J.: Jeg sagði ekki, að íslenskan væri svo mjög tímafrek). Jú, háttv. þm. misminnir þar gersamlega, því að það var einmitt þetta, sem hann hjelt fram, og það er rjett, vegna stílanna.

Að því er snertir ensku orðabókina, sem Geir Zoega samdi. þá var honum ekki borgað fyrir starfið við samningu hennar, heldur upp í útgáfukostnað. Auk þess stendur nokkuð öðruvísi á um þá bók en þessa, sem nú er um að ræða. Hún var aðallega ætluð til notkunar alment, og því að mestu samin með tilliti til þess daglega máls, en ekki svo mjög vísindaleg orðabók.