13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jón Þorláksson:

Jeg vil aðeins taka það fram, að það er engin spánný regla, sem hjer er um að ræða. Það var viðhöfð sama aðferð gagnvart fjárlögunum 1918 —19. Þá var manni einum veittur 3000 króna styrkur, en sökum þess, að hann fekk embætti á fjárhagstímabilinu var honum aldrei meira greitt en 500 krónur. (R. J.: Hvaða maður var það?). Hann er óstefndur hjer og skal vera ónefndur af mjer. (B. J.: Væntanlega er það þó ekki neitt leyndarmál?). Það var einn af prófessorunum við háskólann nú. — Jeg vona, að öllum sje það ljóst, að það er ekki hægt að bera því við, að dæmið sje ekki hliðstætt, þar sem hjer var líka að ræða um fjárveitingu til nafngreinds manns.