26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

Leiðrétting þingræðna

forseti (G. B.):

Jeg vil leyfa mjer að vekja athygli háttv. þdm. á því, að nú þegar Alþingi er háð á hverju ári, þá virðist oss svo, forsetum og skrifstofustjóra Alþingis, að nauðsynlegt sje að byrja sem fyrst á prentun Alþingistíðindanna, til þess að þeim geti orðið lokið fyrir byrjun næsta þings. Þess vegna viljum vjer áminna háttv. þm. um að leiðrjetta ræður sínar jafnóðum og þær eru lagðar fram á lestrarsal þingsins.

Innanbæjarþingmönnum verður ekki leyft að taka ræður heim til sín eftir þinglausnir, eins og að undanförnu, en lestrarsalnum verður haldið opnum fáeina daga frá því, er síðustu ræðuköflum er þangað skilað af hendi innanþingsskrifara, til þess að þingmenn eigi kost á að fara þar yfir ræður þær, sem þeir áttu ekki kost á að sjá fyrir þinglok.