26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Einar Árnason:

Jeg á eina brtt. á þskj. 383, um að hækka styrkinn til Gudmanns Minde frá 17 þús. kr. upp í 27 þús. kr.. og til vara 20 þús.

Á þingi 1919 var veittur styrkur til sjúkrahússins til endurbóla og stækkunar, og var verkið framkvæmt á síðastliðnu sumri. Það hafði verið gert ráð fyrir 60–70 þús. kr. kostnaði, en varð um 120 þús. kr. Jeg ætla ekki að þreyta háttv. deild á því að fara að lýsa byggingu þessari, slíkt mun ekki þýða. Aðeins vil jeg geta þess, að þetta sjúkrahús var áður fyrir 15–20 sjúklinga. en rúmar nú 35–40. Ljóslækningaáhöld hafa verið keypt og sömuleiðis Röntgentæki, en í Eyjafirði og á Akureyri hefir verið gefið til þess. um 14 þús. krónur. Meiri hluti fjvn. Nd. lagði til, að veittar yrði 20 þús. kr., en háttv. þm. Str. (M. P.) kom með brtt., er færði þetta niður í 17 þús. kr. Voru ástæður hans þær, að hann vildi binda sig við þá gömlu reglu að veita 1/3 af byggingarkostnaði sjúkrahúsa. Jeg ætla ekki að neita því, að grundvallarreglur eigi rjett á sjer, en þær geta verið ósanngjarnar á vissum sviðum, og víst er um það, að sjúkdómar manna fara ekki eftir neinum grundvallarreglum. Og mjer finst, að þegar verið er að ræða um besta og fullkomnasta sjúkrahúsið, sem við Íslendingar eigum, að þá beri að veita því meiri styrk en venjulegum sjúkraskýlum. Jeg vil og benda á það í þessu sambandi, að ekki er sjáanlegt, að Eyjafjarðarsýslu og Akureyrarbæ sjeu ætlaðar neinar fjárveitingar, hvorki í fjárlögum nje fjáraukalögum, önnur en þessi. Og þótt mjer detti ekki í hug að telja að neinu leyti eftir, að Eyjafjarðarsýsla, ásamt Siglufirði og Akureyri, sje ein af bestu mjólkurkúm ríkissjóðs, þá get jeg ekki stilt mig um að benda á það. Við Norðlendingar eigum því láni að fagna að hafa hjá okkur einn af allra bestu læknum landsins, og okkur er áhugamál að geta notið hans sem lengst. En fyrsta skilyrðið til þess er það, að gera honum starfið sem ljettast, með því að koma sjúkrahúsinu í það lag, að hann megi við una. Ef til vill telur Alþingi sig það litlu skifta, hvernig að honum er búið. En hvað sem því líður, þá vona jeg, að deildin taki þessari brtt. minni vel og sjái sjer fært að hækka styrkinn eins og farið er fram á.