26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg hefi sitthvað að athuga við till. háttv. fjvn., en jeg býst ekki við að fara út í nema fáar þeirra. Nefndin hefir að vísu sýnt viðleitni í að spara útgjöldin á frv., eins og það kom frá háttv. Nd., en jeg fæ ekki sjeð, að hinn eiginlegi spámaður nemi meiru en 30 þús. kr., því að einstakar brtt. nefndarinnar sanna ekki, að sparnaður sje heppilegur, t. d. fjárveitingar til verklegra framkvæmda. Meðal stærstu liðanna þar, sem nefndin fellir niður, er 35000 kr. til endurbyggingar tveggja vita og 7000 kr. til Holtavegarins. Ástæða nefndarinnar fyrir niðurfellingu þessara fjárveitinga byggist á misskilningi; t. d. hefir nefndin ekki sjeð brjef vegamálastjórans þessu viðvíkjandi, en byggir álit sitt á brjefi sýslumannsins í Rangárvallasýslu, þar sem hann fer fram á, að sýslan verði leyst frá því að leggja fram 1/3 kostnaðar móts við ríkissjóð. En hans meining er, að sýslan verði leyst frá að leggja fram þriðja hluta af 25.000 kr., sem ráðgert er í næstu fjárlögum, en ekki 1/3 móti þeim 7000 kr., sem hjer eru ráðgerðar; þann hluta ætlar sýslan einmitt að leggja fram. Jeg hefi nýskeð átt símtal við sýslumanninn um þetta. Við höfum ekki farið fram á hærri fjárhæð vegna erfiðs fjárhags sýslunnar, og þarna fara hagsmunir sýslusjóðs og ríkissjóðs saman.

Viðvíkjandi lækkuninni á styrknum til vjelbátaferðanna til kauptúnanna í Arnessýslu vil jeg láta þess getið, að jeg álít hana óheppilega, því að sýslumar, sem hjer eiga hlut að máli (Árnes- og Rangárvallasýsla) njóta einmitt mikils góðs af þessari styrkveitingu, sje hún látin óhreyfð eins og Nd. gekk frá henni. — Einnig hefir nefndin breytt 13. lið sömu gr., um styrk til mótorbátsferða á Austfjörðum, í sambandi við ferðir Goðafoss. Jeg tel þetta óheppilegt, því að hjeruðin norðan Seyðisfjarðar geta þá komið með sams konar kröfur um bátaferðir á því svæði.

Þá skal jeg minnast ofurlítið á styrkveitinguna til læknanna. Jeg sje, að nefndin hefir lækkað styrkveitinguna til Gunnl. Claessens, úr 2500 kr. niður í 1800 kr., og þykir mjer það mikil lækkun, af því að læknirinn fer för þessa í þarfir landsins. Býst jeg við, að þessi ferðastyrkur nægi eigi, og mjer finst landinu skylt að greiða honum það, sem á kann að bresta. Sama er að segja um styrkv. til Jóns Kristjánssonar; því að þótt ríkið eigi ekki beinlínis tæki þau, er þessi læknir notar, og þarf nú að auka við og endurbæta, þá á það þau óbeinlínis, þar sem umræddur læknir heldur uppi hinni einu lækningastofu af þessu tægi fyrir alt landið. Og þegar þess er gætt, að þingið veitti fje til þess að koma þessari lækningastofu á fót, þá virðist ekki ósanngjarnt, þótt það veitti lítilfjörlega upphæð til þess að afla henni nýrri og fullkomnari tækja, í stað þeirra, sem þegar eru orðin óhæf vegna breytinga á rafmagninu, sem rafveita Reykjavíkur hefir í för með sjer. Verkfærin eru nú orðin óhæf fyrir rás viðburðanna, og það verður ekki hjá því komist að afla nýrra tækja. Jeg hefi komið með brtt., um að styrkveiting þessi sje færð upp í 3500 kr.; hún má ekki lægri vera, því kostnaður við þetta verður eflaust meiri. En þessar 1500 kr., sem háttv. fjvn. þessarar deildar vill veita, eru allsendis ófullnægjandi. Og þá tel jeg miklu sæmra að samþ. till. háttv. Nd., og gæti jeg felt mig við hana, en þessar 1500 kr. eru ekki einu sinni nógur ferðastyrkur, hvað þá nokkuð upp í verkfærakaup.