26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Björn Kristjánsson:

Jeg vildi leyfa mjer að segja fáein orð um brtt. nefndarinnar á þskj. 368, 5. lið c. (Flensborgarskólann). Jeg sje, að háttv. fjvn. hefir lagt til, að Hafnarfjarðarkaupstaður taki nokkurn þátt í greiðslu á rekstrarhalla þeim, sem á skólanum varð síðastliðið ár. Af því að jeg hefi ekki verið hjer í þessari háttv. deild fyr en nú og í fyrra, þá man jeg ekki, hvort sama skoðun hefir verið mjög ríkjandi hjer áður, en í öll þau um 20 ár, sem jeg hefi átt sæti í Nd., hefir slík tillaga aldrei komið fram þar. Að vísu átti jeg oft örðugt með að fá styrk til skólans, en mótmælin gegn honum voru aldrei bygð á því, að Hafnarfjarðarkaupstaður legði fram fje til hans, Jeg man að vísu eftir því, að till. kom fram um það í Ed. 1917 að setja slíkt skilyrði fyrir styrkveitingu til skólans, en sú tillaga var feld.

Út af tillögu þeirri, er hjer liggur fyrir, símaði jeg til bæjarfógetans í Hafnarfirði og spurði hann, hvernig hann tæki í það, að bærinn legði fram um þriðjung þessa halla. Hann kvað þetta hafa komið til tals áður, en bæjarstjórn hefði þverneitað því, vegna þess að bæjarstjórnin liti svo á, sem um almennan landsskóla væri að ræða, sem kaupstaðnum bæri ekki að styrkja. Og bærinn væri auk þess fjárhagslega illa staddur, svo hann gæti ekki lagt skólanum fje, þótt hann vildi. Bærinn er nefnilega ungur og hefir orðið að ráðast í miklar framkvæmdir nú á fáum árum.

Flensborgarskólinn hefir nú staðið í 40 ár, og hann hefir aldrei fengið rekstrarstyrk annarsstaðar frá en úr landssjóði, og svo ofurlítið — varla teljandi — af eignum sínum. Nemendur í skólanum eru nú 83, víðsvegar af landinu.

Hafnfirðingar hafa að vísu mikið notað þennan skóla, en þó ekki meira að tiltölu en Reykvíkingar hafa notað lærðaskólann hjer. Einhversstaðar verður hver skóli að vera, og þá er segin saga, að þeir, sem næst honum búa, eiga hægast með að sækja hann. Það má þess vegna ekki líta á þennan styrk sem bitling til Hafnarfjarðar, því að hann er aðeins styrkur til kenslu fyrir alþýðu í landinu yfirleitt.

Þess ber að gæta, að tilkostnaður við þennan skóla hefir altaf verið mjög lítill. Hann hefir aldrei orðið helmingur af kostnaði Akureyrarskólans. Þessu valda íheldni af hálfu hins opinbera og sjerstakur sparnaður skólastjóra og stjórnar skólans. Kennaralaun hafa verið svo hörmuleg, að margir hafa orðið að leita þaðan í aðra skóla. Svo mjög hefir stofnunin verið kvalin. Jeg hefi áður bent á, að Hafnarfjörður getur ekki lagt skólanum fje, og Alþingi getur ekki skyldað hann til þess. Það er þess vegna um tvent að velja fyrir hið háa Alþingi, að láta skólann leggjast niður eða hafa veitinguna svo ríflega, að skólinn geti haldið áfram að starfa. Og það vona jeg, að þingið geri. Ef Hafnarfjörður ætti að leggja þessum skóla fje, þá ætti Reykjavík að leggja fje til Mentaskólans og Akureyri til Gagnfræðaskólans. Og ef á það er bent, að þessir skólar sjeu landsskólar, og því standi öðruvísi á með þá, má geta þess, að t. d. kvennaskólinn er ekki landsskóli, og þess vegna ætti Reykjavík þá að kosta hann að nokkru leyti.

Það er kunnugt, að Flensborgarskólinn nýtur almenns trausts og þykir ágætisskóli. Námskostnaður þar er yfirleitt minni en á öðrum stöðum, og nemendur standa engan veginn að baki nemendum annara samskonar skóla. Þegar þess er gætt, veit jeg ekki, hvers Flensborgarskólinn á að gjalda, nema ef vera mætti þess, að hann er gefinn af einstökum manni. Landið hefir ekki þurft að kaupa lóð þá, sem hann stendur á eða húsin; það er hvorttveggja gjöf. En ekki mælir sanngirni með því að láta skólann gjalda þess.

Þá vil jeg henda á eitt atriði, sem jeg held, að háttv. nefnd hafi ekki tekið eftir. Skólinn hefir beðið um 5450 kr. styrk, sem er reikningshallinn 1920, og er það vegna þess, að hann hefir orðið að taka lán til þess að rekstur hans stöðvaðist ekki. Skólinn hefir orðið að grípa til sjóðs, sem nefndur er „Guðm. Grímssonar sjóður“, og fá þar að láni 2700 kr. Þennan sjóð má ekki skerða, en þó hefir orðið að grípa þetta ráð. Eigi er hjer farið fram á, að sú skuld sje borguð. Skólinn vonar að geta endurgreitt þetta smátt og smátt, ef þingið sýnir sanngirni í fjárveitingum sínum framvegis.

Jeg vona, að margir háttv. nefndarmenn sjeu mjer sammála um, að skólann verði að styrkja, og jeg þykist vita, að skilyrðið, sem sett hefir verið, er tilkomið af misskilningi. Það er sama sem að segja skólanum að hætta. Jeg vil því vonast til, að þetta skilyrði verði felt burtu, og mjer þykir vænt um, að hæstv. forsrh. (J. M.) hefir tekið í sama streng.