26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Sigurður Eggerz:

Það eru aðeins örfáar athugasemdir og flestar almenns efnis, er jeg vildi gera.

Þegar maður lítur á þetta fjáraukalagafrumv., ofbýður manni hinn mikli halli, sem hjer er um að ræða, og þegar þar við bætist, að á sama tíma er á ferðinni fjárlagafrv. fyrir næsta ár með 2 milj. tekjuhalla, þá er útlitið ekki glæsilegt og torfærurnar æðimiklar á fjármálasviðinu fram undan. Að því er snertir fjárlögin, þá má vera að tekjurnar hækki eitthvað frá því sem nú er, með hinum nýju skattafrv., sem eru á ferðinni, en hitt er líka vitanlegt, að ýmsir liðir til útgjalda bætast við, sem ekki eru komnir í fjárlögin, og þeir nema miklu meiru heldur en tekjur skattafrv.

Í þessu sambandi vildi jeg leyfa mjer að skjóta því til hæstv. stj., hvaða leið hún sjái til þess að jafna þennan halla. Jeg geri ráð fyrir því, að hún muni einhver ráð sjá til þess, því slíkt verður að heimta af hverri stjórn. Jeg fyrir mitt leyti sje aðeins eina leið, og hún er sú að taka lán. En sú leið er mjög óheppileg og jafnframt afarhættuleg. Eins og það er sjálfsagt að taka lán til þess að bjarga viðskiftalífi þjóðarinnar og atvinnuvegum, eins er hitt óheppilegt, að Alþingi skuli afgreiða þau fjárlög, að halla þeirra þurfi að greiða með lánum. Sú braut er hættuleg, og sje út á hana gengið, verður ekki annað sagt en að horfurnar framundan sjeu æðiískyggilegar. Nú er það svo, að ef á að draga úr þessum geigvænlega halla, þá er það eitt ekki nóg að skera niður það, sem í eiginlegum skilningi má telja óþarfa.

Nei, leiðin verður að vera sú, eins og jeg benti á þegar jeg var fjármálaráðherra, að þingið verður að skera niður nokkuð af þeim fjárveitingum, sem annars áttu að ganga til ýmsra framkvæmda. Þetta gerir bóndinn, þegar hann sjer fram á örðugleikana. Hann frestar sínum framkvæmdum og dregur saman seglin. Á þessa leið benti jeg sem þá einu færu, þótt menn daufheyrðust fyrir því þá. En þó að svo færi þá, hlýtur að því að reka, að að þessu ráði verði hnígið; það er jeg sannfærður um.

Jeg benti líka á það, er jeg var fjármálaráðherra, að Alþingi þyrfti að taka upp nýja og haldbetri stefnu eða leið við samning fjárlaganna. í byrjun þings ættu fjárhags- og fjárveitinganefndir beinlínis að koma sjer saman um, hvað mikill halli mætti vera á fjárlögunum, og innan þeirra takmarka ætti svo fjárveitinganefnd að starfa. Að sjálfsögðu ætti að gera þetta í samráði við stjórnina, og hún ætti að halda að þinginu að fara ekki út fyrir rammann, og mundi það verða á þá leið, að fjármálaráðherra neitaði að taka á fjárlögunum, ef of mikill halli yrði á þeim.

Þetta voru nú hinar almennu athugasemdir, er jeg vildi gera; en úr því að jeg er staðinn upp, vildi jeg leyfa' mjer að beina fáeinum fyrirspurnum til hæstv. stjórnar, í sambandi við ýmsa liði þessara fjáraukalaga, sem liggja hjer til umr.

Og fyrsta spurningin er þá viðvíkjandi 9. gr. Jeg vildi leyfa mjer að spyrja um það, hvort upphæð sú, sem þar er nefnd, 200 þús. kr. til útgjalda við konungskomuna, sjeu þau útgjöld, sem þegar er búið að greiða í undirbúningskostnað, eða hvort þetta sje áætlunarkostnaður líka fyrir það, sem ógert er.

Eins vildi jeg þá í sambandi við þetta gefa stjórninni tækifæri til þess að upplýsa mál eitt, sem mikið er um rætt, og oft hefir borið á góma bak við tjöldin, en það er byggingin við Geysi. Um þetta hefir sem sagt mikið verið skrafað, og undarlega háar upphæðir nefndar í sambandi við byggingarkostnað þessa húss. Og væri gaman að fá upplýsingar um það.

Jeg verð nú að líta svo á, að það hafi verið hreinn og beinu óþarfi og hjegómatildur að reisa þetta hús, þar sem ríkið átti þarna hús fyrir, og ekkert auðveldara en að gera það svo úr garði, að konungshjónin gætu gist þar. Hins vegar verð jeg að álíta, að um hina aðra gesti hefði verið hægt að búa í tjöldum og láta fara sæmilega vel um þá.

Það er fjarri mjer með þessu að segja það, að jeg vilji ekki að tekið sje sæmilega á móti konungshjónunum, en jeg vil engan hjegóma og ekkert tildur í því sambandi, en það verð jeg þó að álíta, að hún sje þessi bygging.

En sem sagt, af því að svo mikið er um þennan konungskomuundirbúning rætt á bak við tjöldin, og háar upphæðir nefndar í því sambandi, þá er mjer ljúft að gefa hæstv. stjórn tækifæri til þess að svara því.

Þá vildi jeg minnast á eina brtt. Það er um fje til Holtavegarins. Þegar að því ráði var horfið hjer á þingi að skylda sýslurnar að sjá um viðhald flutningabrautanna, þá var það mjög misráðið og afaróheppilegt, enda hefir reynslan sýnt það, að þetta er sýslunum ofurefli og vegirnir spillast og ganga úr sjer með hverju ári. Með öðrum orðum, alt bendir í þá átt, að þetta verði að hverfa aftur til ríkisins: að ríkissjóður verði að taka viðhaldið að sjer, enda hefir nú Árnessýsla fengið talsverða upphæð til endurbyggingar aðalbraut sinni yfir þvera sýsluna, og verður óhjákvæmilegt að halda slíku áfram.

En það eru ekki aðeins þessar sýslur, sem stynja undir þessum mikla viðhaldskostnaði. Mjer er kunnugt bæði um Mýra- og Borgarfjarðarsýslu frá því að jeg var þar sýslumaður, að þeim er ókleift að viðhalda sínum vegum af eigin ramleik.