26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Karl Einarsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 382, og skal jeg strax taka það fram, að mjer finst, að háttv. deild þurfi ekkert að undra sig á, að hún er fram komin.

Er þessi hækkun umfram till. fjvn., sem hjer er farið fram á, hverfandi lítil, borin saman við upphæðir fjárlaga og fjáraukalaga, en hins vegar er fyrirtæki það, sem fjárveitingin á að ganga til, langt frá því að vera lítils virði.

Jeg hreyfði þessu máli fyrst á þinginu 1918. og fjekk sjútvn. það til meðferðar.

Vil jeg taka það fram, þm. til verðugs hróss, að málið fjekk hinar bestu undirtektir.

Á þinginu 1918 lá ekki annað fyrir en málaleitun um styrk til að kaupa skip, sem væri vel hæft til að hafa björgun og eftirlit með fiskveiðum. Sjútvn. leitaði sjer upplýsinga hjá fróðum mönnum um þessi efni, og urðu þær á þá leið, að hentugast mundi að kaupa lítið mótorskip, sterkt og vandað, með útbúnaði til að geta notað segl.

Með þetta fyrir augum var samþ. þál., sem veitti stjórninni heimild til að veita annaðhvort einstökum manni eða fjelagi styrk til þess að kaupa svona skip, og var áætlað verð þess 120 þús. kr. Fjárveiting þessi var bundin við Vestmannaeyjar, því að fjvn. Nd. leit svo á, að þar mundi þörfin brýnust fyrir svona skip, og svo eunfremur, að þeir væru líklegastir til þess að hrinda þessu í framkvæmd. Mun síðari ástæðan hafa valdið meiru, enda hefir það sýnt sig, að sú von hefir ekki brugðist, því að þegar eftir þinglok hjelt jeg almennan fund með Vestmannaeyingum, og var þá stofnað fjelag, sem næstum því hver maður, sem nokkuð gat látið af mörkum, gekk í ábyrgð fyrir fjelagið. Var þá strax tekið að undirbúa málið, og var maður sendur utan um haustið, til að leitast fyrir um tilboð um kaup á skipi. En þegar kom fram yfir nýár, var verðlag orðið svo breytt, að bestu tilboðin voru yfir 200 þús. kr., eða 225 þús. kr. fyrir mótorbát með 50–60 tonna stóra vjel og 8–9 mílna ferð á vöku. Þegar nú fjelagsstjórnin bar sig saman við sjerfróða menn um, hvort þessi bátur mundi koma að fullu gagni, kom það í ljós, að þessi bátur mundi ekki koma að tilætluðum notum, svo sem til að hjálpa þeim. er í sjávarháska væru staddir. Kom mönnum saman um, að slíkt skip gæti engu síður orðið hætt statt heldur en þeir bátar, sem ætlast var til, að það ætti að hjálpa. Vjelin gæti bilað o. s. frv. Var því auðrætt, að þetta mundi aðeins verða kák eitt. en það var engan veginn tilgangurinn. Árið 1919 barst okkur svo tilboð um ýms skip, þar á meðal um kaup á „Þór“.

Var svo afráðið að kaupa skip þetta, og fengum við 40 þús. kr. styrk úr landssjóði, samkvæmt heimildinni frá 1918.

Í þál. 1918 var kveðið svo að orði, að stjórnin ætti að samþykkja kaupin, og einnig að samþykkja áætlun og reglur skipsins.

Vestmannaeyingar litu svo á, að í útborgun styrksins feldist samþykki stjórnarinnar á kaupunum, enda var líka hæstv. forsætisráðherra (J. M.) staddur í Kaupmannahöfn þegar kaupin gerðust. Á þinginu 1920, sem stóð mjög stutt, aðeins 18 daga, var þó afgreidd tillaga, sem heimilaði stjórninni að borga út 50,000 kr. til skipakaupanna, og búist var við því, að mundi verða kaupverðsins ásamt viðgerðarkostnaði, sem óhjákvæmilegur var á skipinu, því að það hafði enga viðgerð hlotið síðustu 4 árin á undan kaupunum. Á sama þingi var einnig borin fram till. um, að stjórnin ljeti starfrækja skipið. Var jeg flutningsmaður tillögunnar. En jeg fjelst á, að þessi till. kæmi aldrei fram frá nefndinni, sem hafði hana til meðferðar, en í stað þess var borin fram önnur till., um áskorun til stjórnarinnar um að hefjast handa um eftirlit með fiskveiðum við strendur landsins.

Var það minn skilningur þá, þó að hann kæmi ekki opinberlega fram, að „Þór“ ætti að njóta styrks til eftirlitsins, svo framarlega sem hann reyndist maklegur þess.

Á þessu þingi var ekki afgreitt neitt rekstrarfje fyrir það ár nje næsta ár, en þó ákváðu Vestmannaeyingar að halda skipinu úti til vertíðarloka 1920.

Þetta gátu þeir auðvitað ekki nema því aðeins, að þeir nytu aðstoðar bæjarfjelags Vestmannaeyja, enda hljóp það undir bagga og ábyrgðist lán gegn 1. veðrjetti í skipinu.

Í haust var svo ákveðið af bæjarstjórninni að gera skipið út í 4 mánuði. Var áætlað, að sá rekstur mundi kosta 120,000 kr., og var fje þetta veitt í fjárhagsáætlun bæjarins og jafnað niður á venjulegan hátt.

Sýnir þetta, að Vestmannaeyingar álitu skipið mikils virði. Lagt var fyrst og fremst 125,000 kr. í kaup á því, og auk þess hljóp bæjarstjórnin undir bagga og ábyrgðist lán til rekstrar á skipinu þetta eina ár, sem það hefir starfað, og heldur því nú út í ár.

Það sem Vestmannaeyingar ætlast nú til af hv. Alþingi er, að það styrki okkur svo, að við fáum risið undir fyrirtækinu.

Jeg hefi nú farið fram á það, fyrir hönd bæjarstjórnarinnar, að Vestmannaeyingum yrði greiddur styrkur, sem svaraði 2/3 rekstrarkostnaðar skipsins þessa 4 mánuði. Kom þetta til meðferðar háttv. sjútvn. Ed., og lagði hún til, að veittur yrði 50,000 kr. styrkur fyrir árið 1921.

Var það meiningin, að það færi eigi fram úr helmingi kostnaðar, enda þótt það sjáist ekki á bókuninni.

Jeg ætla eigi að fara að rekja það nú, hvað sagt var hjer á þinginu 1918 um þetta mál, en margir góðir menn urðu þá til þess að veita mjer aðstoð sína.

En jeg veit, að allir skilja, að það er raunalegt að geta ekki hjálpað bágstöddum mönnum á sjó úti eða að reka til þess sárþreytta menn úr landi Hefi jeg bæði sjeð slys hljótast af því og mikinn hrakning. Árið 1920 bar það við, að mjer barst fregn um það, að skip væri statt í sjávarháska undan Vík. Lá það þar mastralaust og átti ekki annað fyrir hendi en að rekast á land upp. Jeg þorði eigi að senda mótorbát því til hjálpar, en náði í botnvörpung og fjekk hann til þess að reyna að bjarga. Kom hann með skipið, og báru bæði skipstjóri og allir skipverjar það fyrir rjetti, að skipið hefði ella áreiðanlega farist og öll skipshöfnin. Í vetur, snemma í þessum máunði, lenti bátur í því að verða ósjálfbjarga. Kaðall lenti í skrúfunni, vjelin var því ónothæf og eigi hægt að hafa segl uppi. Austanofviðri var og þreifandi bylur. Ef „Þór“ hefði þá ekki verið á sveimi á þessum stöðvum og komið skipinu til hjálpar, mundi hafa orðið tjón bæði á mönnum og skipi. Mennirnir voru 6 og skipið mun eigi hafa verið minna virði en 50,000 kr., eða jafnhátt styrknum, sem sjútvn. leggur til, að skipinu sje veittur.

Þó ekki væri nú annað en þetta, að skipið bjargaði þessum báti, þá ætti þingið samt að veita þetta fje, auk heldur þegar sýslubúar leggja tvisvar sinnum meira fje fram.

Jeg ætla, að það muni ekki veita af 100,000 kr. næstu vertíð, því að það er ekki nóg að ætla fyrir þessum 4 mánuðum einungis, því að það þarf að borga yfirmönnum skipsins kaup og fæði alt árið, því að ófært er að skifta um ágæta yfirmenn, þegar þeir eru fengnir, eins og við höfum orðið svo heppnir að fá.

En það er annað verkefni, sem liggur líka fyrir „Þór“ en björgunarstarfið, og einnig er afskaplega þýðingarmikið. Eyjabúar hafa orðið fyrir tjóni á veiðarfærum, sem numið hefir tugum þúsunda. Hefir þetta hlotist mikið af vangá þeirra skipa, sem eru á miðum, því að auðsætt er, að af illvilja er það ekki, því að botnvörpungarnir, sem lent hafa í netatrossunum, hafa sjálfir stórskemt vörpur sínar.

En nú er svæði þetta verndað af „Þór“, svo að þetta getur ekki komið fyrir. Leiðir enn af þessu, að bátarnir geta betur notið sín á veiðunum en ella, og þora að leggja net sín þar, sem þeir annars ekki þyrðu að hafa þau.

Það brá svo við, að eftir að „Þór“ kom, þá voru engir botnvörpungar að veiðum í landhelgi við Eyjarnar. Þetta gerði það að verkum, að eyjamenn gátu verið í næði að veiðum, og hafði það ekki hvað minsta þýðingu, eftir að netafiskur var kominn. Öfluðu þeir því meira en nokkurntíma áður, og má eingöngu þakka þennan mikla afla eftirlitinu.

Vitanlega þarf bæjarsjóður Vestmannaeyja að leggja þungan skatt á gjaldendurna, til að geta haldið þessu skipi úti. En það virðist ekki óeðlilegt að ætlast til þess, að landið í heild leggi eitthvað af mörkum til þess að ljetta bæjarsjóði þessa útgerð, í raun og veru ætti ríkið sjálft að kosta slíkt björgunarskip að öllu leyti, en ekki einstök bæjarfjelög.

En hjer má nú ekki búast við því, þar sem hag ríkissjóðs er þannig varið, að hann er ekki fær um það. En á það mætti benda, að það er ekki einskisvert að tryggja betur líf þeirra manna, er stunda þennan atvinnuveg á hættulegasta tíma ársins og hættumesta svæðinu. Á vetrarvertíð eru það 1–2 þúsund manna, sem eru á sjónum hjer sunnanlands, er fara til fiskjar, og ætti þörfin að vera auðsæ á því að vernda líf þess fjölda, er leggur sig í hættu við þennan atvinnuveg. En því betur sem atvinnan er trygð, því betri verður afkoman.

Það hefir oft verið sagt um þetta skip, „Þór“, að það væri ekki betra en botnvörpungur. En mjer finst það næsta hart að ætlast til þess, að botnvörpungur, sem búið er að sekta og gera afla og veiðarfæri upptækt hjá, sje að eyða tíma og fje og brenna kolum dag eftir dag til að leita báta, er kynnu að hafa lent í hrakningum. Mjer finst það svo óheyrilegt, að við mættum skammast okkar fyrir að ætla á hjálp annara, en eiga ekkert skip sjálfir.

Jeg skal taka það fram, að það kom fyrir 12. febrúar 1920, að bátur fór til fiskjar, og hefir aldrei spurst til hans síðan. Fóru þá tveir enskir botuvörpungar að leita hans, án þess að heimta nokkra borgun fyrir.

Hinn 5. mars náðist annar skipstjórinn að veiðum í landhelgi, og var auðvitað dæmdur. En mjer er kunnugt um, að það er fleirum en Vestmannaeyingum, sem þykir þetta leitt. En ekkert er við því að gera; rjetturinn verður að hafa sinn gang. Og þessum skipstjóra þótti mjög mikið fyrir þessu og mundi ekki sýna slíka greiðvikni aftur, enda hart að þurfa að þiggja það.

Það hefir verið sagt, að „Þór“ hafi tekist meira verk á hendur en ætlað hafi verið í fyrstu. En það er margt á að líta. Jeg skal taka það eitt fram, sem fundið hefir verið að þessu skipi, að það væri óþarflega stórt; en að öllu athuguðu munu menn sjá, að það má ekki vera minna. Starfsvið þess er úti á opnu Atlantshafi, og meðfram ströndinni engar hafnir að flýja inn á undan veðrum og ósjó; það verður annaðhvort að halda sjó eða ná til Vestmannaeyja. Til þess að geta rækt starf sitt að gagni má skipið ekki vera minna, þótt það sje nokkuð dýrt að halda því úti. Það verður sem sagt að vera fært um að fara út í hvaða veður sem vera skal, ef á þarf að halda. En skipið hefir gert meira en vera á verði um líf manna eða bjarga bátum, sem lenda í voða; það var sjálfsagt að láta skipið líka hafa eftirlit með landhelgi landsins á þessu svæði, þegar það þurfti ekki að veita bátum aðstoð, eða veður var svo, að sýnilegt var, að þess var ekki þörf. En þetta eykur kostnaðinn, og ekki að búast við, að neinn færist það í fang að hafa eftirlit með fiskveiðunum fyrir ekki neitt.

Menn munu sjá, hvaða gagn þetta hefir gert, er gáð er að því, að þetta er fiskisælasta plássið við strendur landsins, og þann fjórðung ársins, sem flestöll fiskiskip landsins eru þar að veiðum, mun meiri hluti alls þess fiskjar, sem aflast hjer við land, vera veiddur þar. Það er því mikilsvert atriði að hafa þar eftirlitsskip að staðaldri til að vernda landhelgina fyrir yfirgangi botnvörpunganna. Aðalmarkmið varðskipa á að vera að verja landhelgi fyrir þeim usla, er botnvörpungar gera, en það bætir lítið um hann, þó nokkrir náist og verði sektaðir við og við, og ekkert eftirlit sje þess á milli.

Þegar Vestmannaeyingar rjeðust í að kaupa þetta skip, þá höfðu þeir það fyrir augum að geta haft skipið einnig til eftirlits á þessu svæði, sem mest er þörfin, og auk þess gæti það verið á verði á Austfjörðum eða Vestfjörðum, er veiðitímanum hjer sleppir.

Eftirlitið, eins og það hefir verið, hefir ekki komið í veg fyrir, að botnvörpungar hafi verið að veiðum í landhelgi.

Jeg skal lýsa því yfir, að þetta er einmitt álit þeirra tveggja manna, sem jeg hefi átt kost á að heyra álit um þetta og þekkingu hafa á þessu.

Yfirmaðurinn á Islands Falk sagði, að svona lítið skip sparaði mikið og gerði geysimikið gagn.

Hann stakk upp á því, hvort ekki mundi tiltækilegt að byrja með því frá Íslands hálfu í þessu efni að hafa „Þór” fyrir suðurströnd landsins. mótorkútter á Vestfjörðum, en Beskytteren hefði Faxaflóa til yfirferðar. „Fálkinn“ færi svo milli þessara staða við og við, eftir þörfum, og yrði aðalvarðskipið, en hin eins og nokkurskonar floti, er hann stjórnaði. Ættu þau að gefa honum skýrslu um starf sitt, og hann þeim aftur leiðbeiningar.

Þetta sagði hann að væru sínar tillögur. Og skipstjórinn á „Þór“ sagði það sama, eða mjög líkt, eftir foringjanum á ,Fylla‘. Og það hefir sýnt sig, að botnvörpungar hafa alls ekki veitt í landhelgi við Vestmannaeyjar, síðan „Þór“ hefir verið þar á stöðugum verði.

Þessi skip, „Fylla“ og „Þór“, höfðu ekki óðara náð saman en þau gerðu það samband milli sín, að þau geta talað saman, án þess aðrir skilji.

Jeg mintist á það áðan, að þó tillaga mín um rekstrarkostnaðinn hafi ekki komið til umræðu í fyrra á þinginu, þá var það “ekki af því, að nefndin vilji ekki sinna tillögunni, heldur er það meining hennar að láta stjórnina hafa óbundnar hendur um landhelgisgæsluna, en alls ekki að andmæla þessu, heldur þvert á móti. Það er einnig ósköp skiljanlegt, þó menn vilji ekki binda sig við sjerstakt það, er ekki megi frá víkja, því ef betra byðist, þá væri sjálfsagt að taka það.

Það, sem jeg vildi taka fram um fjárhagshliðina, er í stuttu máli þetta: Vestmannaeyingar hafa keypt skipið fyrir ca. 310 þús. kr., og orðið að taka til þess 30–40 þús. kr. lán. Svo hafa þeir gert skipið út, og rekstrarkostnaðurinn 1920 varð 105 þús. kr., og þetta ár má gera ráð fyrir að hann verði 120 þús. kr. Þeim veitti því ekki af að fá þessar 50 þús. kr., ef þeir eiga að geta haldið áfram næsta ár.

Jeg mintist áðan á bát, sem „Þór“ hefir bjargað, og allir menn á honum myndu hafa farist, ef hans hefði ekki notið við. En það er ekki eini báturinn, sem hann hefir orðið að liði. Hann hefir oftsinnis veitt bátum aðstoð, og í öðru sinni bjargað bát frá voða, þó að það væri ekki eins bersýnilegt og í þetta skifti.

Um gagnið að eftirlitinu er það að segja, að hann hefir beinlínis verndað fiskveiðarnar við Eyjarnar og með söndunum. Það sýndi sig best, að þegar hann lá í Reykjavík að taka kol í vetur, þá var röðin af botnvörpungum í landhelgi, ekki einn eða tveir, heldur hrönnum saman, og rökuðu fiskinum fram með ströndinni. En bæði undan og eftir varð ekki vart við, að einn einasti botnvörpungur dirfðist að veiða innan landhelgislínunnar. Það er einkennileg saga, sem jeg hefi heyrt. Maður einn átti net í sjó fram undan Sandi. Hann er djarfur og duglegur sjómaður og sækir vel sjó. Þegar hann kom að vitja um net sín, var einn botnvörpungurinn í miðri netatrossu hans og dró hana með sjer. Svo grunt var sá að veiðum, að pokinn á botnvörpunni flaut upp. Tók hann þá það ráð að skera á pokann, sem hann gat til náð, og rifnaði hann þá frá en þeir á bátnum snarir til og drógu saman pokann og höfðu úr honum 1200 þorska. Þetta var í myrkri, og gátu þeir því ekki sjeð númer eða nafn skipsins, en enginn hefir vitjað pokans eða aflans.

Ef háttv. deild sjer sjer fært að samþ. tillöguna og eitthvað svipað næsta ár, þá býst jeg við, að Vestmannaeyingar reyni að halda skipinu út næstu vertíð. En ef styrkurinn verður lítill, eða þingið sker hann við neglur sjer, þá mun slá óhug á þá að halda því úti gegn andúð þings, og maður verður að segja þjóðar, því að þm. eru fulltrúar þjóðarinnar.

Þetta skip var notað sem herskip í Danmörku, og var þá vopnað. Það er því fyllilega sæmilegt eftirlitsskip fyrir okkur. Jeg vil aðeins taka þetta fram, til að sýna, að okkur er engin minkun að nota þetta skip til eftirlits.

Vestmannaeyingar sýna alla sanngirni í þessu máli, og vilja leggja á sig það, sem þeir mögulega geta, til að halda skipinu úti, því að þeim er fullljóst það gagn, sem það gerir.

Háttv. frsm. (S. H. K.) sagði áðan, að við hefðum ráðist í of stórt. Jeg hefi þegar svarað því, með því að benda á það, að starfssvið skipsins er úti áopnu Atlantshafi, við hafnlausa strönd, en ekki inni á fjörðum eða flóum, þar sem góðar hafnir eru nálægt. Og ef litið er á þetta frá rjettu sjónarmiði og með fullri sanngirni, þá munu allir kannast við, að skipið er alls ekki of stórt, heldur ef nokkuð er, þá er það of lítið. Það er og kostur skipsins, að það er afarsterkt bygt, og hefir reynst ágætlega í stórsjóum, enda veitir ekki af.

Það, sem jeg sagði að jeg vonaði að þetta yrði okkur ekki ofvaxið, þá meinti jeg, að við höfðum ekki búist við, að kostnaðurinn yrði svona mikill, og við höfðum heldur ekki búist við að mæta þessari andúð, og satt að segja veit jeg ekki hvaðan hún er komin, eða vil ekki vita að þessu sinni.

Úr því jeg stóð upp, vildi jeg minnast á brtt. um að styrkveiting til Holtavegarins falli burt.

Hann er sem sagt ófær á köflum, og þarf að gera við hann. En það liggur í hlutarins eðli, að það er enginn sparnaður í því að hafa þá vegi, sem fjöldi fólks þarf að fara um, ófæra eða láta þá halda áfram að eyðileggjast.

Jeg verð líka að segja það, að mjer finst hálfleiðinlegt, hvernig nefndin hefir komið fyrir styrk þeirra embættismanna, er þurfa að fara utan til lækninga. Þar er um góða kunningja að ræða, og jeg vildi unna þeim alls góðs. Þetta þyrfti heldur ekki að verða svo kostnaðarsamt fyrir landssjóð eins og ætlast er til, því að stjórnin mundi fá hinn væntanlega setta bæjarfógeta á Seyðisfirði til að þjóna embættinu fyrir hálf laun, eins og oft hefir tíðkast áður, og látið núv. bæjarfógeta halda fullum launum. Sama geri jeg ráð fyrir, að væri hægt með hina embættismennina.

Jeg hefði kunnað betur við, að hægt hefði verið að finna annað form en er í fjáraukalögunum eða tillögum nefndarinnar fyrir þessari fjárveitingu.