26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Björn Kristjánsson:

Jeg gleymdi svolitlu, sem jeg vildi minnast á áðan, er jeg talaði. Það er 6. liður 6. greinar, tillaga háttv. fjvn. um að fella burtu, að það væri dýrtíðaruppbót, sem Einari Jónssyni væri veitt, heldur að honum væri veitt fjárhæðin í viðurkenningarskyni. Háttv. nefnd hefir ekki viljað brenna sig á því að kalla þetta dýrtíðaruppbót. Jeg skal viðurkenna það, að þingið gerði sómastrik, er það ljet byggja húsið til þess að þessi listamaður hefði næði til þess að móta hugsjónir sínar í leirinn. Mjer þykir því undarlegt, úr því að þingið sagði A. ef það segir þá ekki B líka. Því að þessi maður hefir unnið landinu mikinn heiður, og því væri sorglegt, ef hann þyrfti að líða. Því að 2500 kr. nægja ekki til þess, að hann geti framfleytt lífinu sómasamlega.

Jeg hefði ekki staðið upp, ef þessi maður hugsaði um sig eins og aðrir menn. Hann hugsar aldrei um sjálfan sig og kvartar aldrei. Þess vegna verða aðrir að gera það fyrir hann.

Jeg vildi því óska, að háttv. nefnd vildi leggja til, að hann nyti dýrtíðaruppbótar af þessari litlu upphæð og framvegis. Jeg væri henni mjög þakklátur fyrir það.

Svo vildi jeg aðeins minnast á dýrtíðaruppbótina handa Jóh. L. L. Jóhannssyni, Jeg vissi ekki um fje það, er hæstv. fjrh. (M. G.) segist hafa ætlað honum. En jeg vildi samt óska, að þessi liður til hans fengi að standa í fjárlögunum, því að þingið hefir myndað þessa stöðu og því ber því skylda til að sjá um að þessi maður geti lifað neyðarlaust.