26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Klukkan er að slá 11, og jeg býst við, að menn vilji heldur, að ekki sjeu haldnar langar ræður hjeðan af í kvöld.

Jeg skal því vera stuttorður, því jeg veit líka, að úr þeim deilumálum, sem hjer eru, verður ekki skorið með orðum, heldur með atkvæðum. Jeg skal því aðeins víkja að nokkrum atriðum, sem helst þarf að svara.

Jeg vil þá fyrst minnast á læknana; það var ekki rjett frá skýrt, að Gunnl. Claessen ætlaði ekki á læknafund, því að hann ætlar einmitt á læknafund, sem halda á í Stokkhólmi, en ætlar að nota tækifærið og kaupa ýms áhöld fyrir landsstofnanir þær, sem hann veitir forstöðu.

Þá get jeg ekki kannast við, að ekki sje rjett að veita Magnúsi dýralækni utanfararstyrk, þegar hinum er veittur hann, þar sem honum er boðið á fund dýralækna erlendis og ætlað að koma þar fram fyrir landsins hönd. — Annars þykir mjer leitt að þurfa að vera að metast um þessar styrkveitingar til kollega minna, en hjer tala jeg fyrir hönd nefndarinnar. Annars hefi jeg oft verið að hugsa um það, hvernig fjárlögin myndu líta út, ef allir landsmenn ættu jafnhægt með að sækja um styrk til þingsins og sitja yfir þeim málum hjer í þinginu eins og Reykjavíkurbúar, og öllum væru gerð jafngóð skil og þeim.

Út af því, að sagt hefir verið, að það væri smánarboð að bjóða læknum hjer í Reykjavík 1500 kr. utanfararstyrk, þá vil jeg benda á, að hjeraðslæknar úti um land, sem starfa ekki síður í þarfir ríkisins en hinir, og þurfa eins að menta sig í sinni fræðigrein, fá miklu minni styrk en hjer er um að ræða, og þó er ekki sagt, að þeim sjeu boðin smánarboð.

Þá er það endurbygging Holtavegarins. Mjer þótti mjög leitt, að því var haldið fram hjer í dag, að jeg hefði farið þar með rangt mál. Það var sagt, að hjer ætti að vera komin til þingsins viðurkenning þess, að Rangárvallasýsla væri fús til að leggja fram 1/3 kostnaðar. Jeg er hjer með umsóknina og vil leyfa mjer að lesa upp niðurlagsorð hennar, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir því leyfi jeg mjer hjer með sem oddviti sýslunefndarinnar í Rangárvallasýslu, með skírskotun til hins framanritaða og brjefs míns til Alþingis, dags. 27. jan. f. á., að snúa mjer til háttv. fjárveitinganefndar með endurnýjaðri beiðni um 7000 kr. fjárstyrk til viðhalds á oftnefndri braut á þessu ári, og tek það fram, að jeg kýs þennan kost fremur í bili en endurbyggingu fyrir 25000 kr. úr ríkissjóði, gegn endurgreiðslu 1/3 kostnaðar úr sýslusjóði“.

Með öðrum orðum, hjer er neitað um fjárframlag úr sýslusjóði til viðhalds vegarins, en þess krafist, að ríkissjóður leggi fjeð fram, án þess að neitt komi á móti. Þó ber sýslunni að lögum að halda þessum vegi við. Og símskeytið, sem háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.) var að tala um, gerir síst að ósanna þetta, eins og þessi orð sýna, sem jeg vil lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Bað jeg því um 7000 kr. úr ríkissjóði til viðhalds veginum á þessu ári, án skilyrða“.

An skilyrða vill sýslan fá styrkinn, og svo er klykt út með því að segja, að fjárhagsástæður sýslunnar sjeu ekki betri en þegar umsóknin var send. (G. Guðf.: Má ekki lesa skeytið til enda?) Jú, gjarna, með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar svo:

„En hafi mjer eigi tekist að sannfæra hið háa þing um rjettmæti og sanngirni þeirrar beiðni minnar, skal því lýst yfir, að sýslan sættir sig fremur við smáfelda byrjun til endurbyggingar í ár heldur en að fá engan styrk úr ríkissjóði, því að þörfin á að bæta veginn hefir ekki minkað, og fjárhagslegar ástæður sýslunnar heldur ekki batnað síðan jeg reit áðurnefnt brjef mitt“. Þá var því lýst þannig, að sýslan gæti ekki lagt einn eyri fram, og hjer er sagt, að ástæðurnar hafi ekki batnað. Jeg verð því að mótmæla því, að jeg hafi farið með rangt mál. En hv. deild sker nú úr þessu eftir framkomnum gögnum í málinu.

Annað, sem jeg vildi minnast á, eru mótorbátsferðirnar norður á bóginn frá Hornafirði. Það hefir verið gefið í skyn, að kröfur mundu koma fram um ferðir lengra norður, ef Austur-Skaftfellingar ættu að ráða þessum styrk. — Jeg býst nú ekki við, að menn sækist eftir að senda báta, ef ekki er fjárveiting til þeirra fyrir hendi. Það er fjárveitingin, sem alt veltur á, og annað ekki, Ef Hornfirðingar þykjast hafa þörf fyrir flutning svo langt, þá eru þeir sjálfráðir, þótt þeir sendi bátinn norður til Grímseyjar, eða jafnvel alla leið norður til Kolbeinseyjar, en þótt þeir gerðu það, hækkaði styrkveitingin ekki um einn eyri.

Jeg get verið fáorður um vitana. Hæstv. fjrh. (M. G.) hefir skýrt það mál. Það er satt, að vitamálastjóri leggur nú með vitunum vestra, en áður hafði hann lagt til, að bygðir yrðu vitarnir eystra, en það er enn eigi framkvæmt. Nú vill nefndin einmitt fara eftir tillögum vitamálastjóra, en þrátt fyrir það, vill hún ekki snúast í hring kringum hálft landið með honum.

Þá skal jeg minnast á Flensborgarskólann. Nefndinni hefir borist gott orð af skólanum, sem hann á og sjálfsagt skilið, og hefi jeg enga hvöt til þess að spilla fyrir honum. Þó verð jeg að halda því fram, að ekki sje ósanngjarnt, að Hafnarfjörður leggi fram þessar 1450 kr., því að Hafnarfjörður hefir skólans, tiltölulega langmest not. Jeg hefi hjer fyrir mjer skýrslu skólans frá 1918–19, og þar má sjá, að alls voru í skólanum 54 nemendur, þar af 24 úr Hafnarfirði, en úr Hafnarfirði og Gullbringu- og Kjósarsýslu til samans 35. Þetta sýnir, hve mikla þýðingu skólinn hefir fyrir Hafnarfjörð. (B. K.: Nú eru í skólanum 45 utanbæjarnemendur, en 38 Hafnfirðingar, og skólinn hefir 38 heimavistir fyrir utanbæjarnemendur). Það eru nú nokkuð lík hlutföll.

Jeg kannast við, að það skiftir litlu máli, hvort styrkur til Einars Jónssonar er nefndur dýrtíðaruppbót eða styrkur í viðurkenningarskyni. Landinu ber skylda til að sjá fyrir honum, og þetta munar aðeins 60 kr., svo að það er ekkert stórmál.

Þá var minst á einn listamann, sem hv. Nd. ætlar styrk, og talið, að hann væri sjerstaklega fátækur. Það var mjer ekki kunnugt fyr, og mun jeg ekki mæla móti honum. En jeg vil taka það fram, að nefndin vill hækka skáldastyrkinn á næsta ári. Taldi hún það rjettara en að vera að veita styrki eftir sjerstökum umsóknum, enda ekki gott að vita, hvar nema á staðar, ef út á þá braut er gengið.

Þá var minst á Jakob Smára, í sambandi við styrkinn til föður hans, Jóhannesar L. L. Jóhannssonar. Út af því vil jeg taka það fram, að nefndin er á öðru máli en nefndin í háttv. Nd. um það, að borga beri út styrkinn til Jakobs Smára. Nefndin lítur svo á, að stjórnin hafi þar farið rjett að. En þetta er annars dómstólamál, sem þingið getur ekki skorið úr.

Þá var talað um það sem einfaldlegt af nefndinni að vilja binda styrkinn til viðgerðar bryggjunni á Blönduósi því skilyrði, að eigi væri jafnframt verið að leggja fje í nýja bryggju, sem áður var veitt til, en ekki notað enn. Er nokkuð einfaldlegt við það, þegar mörg störf liggja niðri vegna fjeleysis, að ætlast þá til, að Blönduóssbúar láti sjer nægja eina bryggju í bráð? Enda hygg jeg, að sýslunni. veitist nægilega þungt að leggja fram 2X19000 kr. til bryggjunnar norðan Blöndu, þótt ekki sje varið nálega jafnmiklu fje til bryggju sunnan Blöndu.

Háttv. þm. Vestm. (K. E.) talaði langt mál, og mun jeg ekki rekja ræðu hans lið fyrir lið. Vil þó svara örfáu. Hann virtist telja 30.000 kr. smánarboð. Ekki held jeg nú að hann hafi fengið jafngóð boð í háttv. Nd. Þau boð, sem þar fengust, gat hann ekki sætt sig við, og var því till. um þetta tekin aftur þar. Jeg held því, að við ættum að vera ámælislausir af þessu. Og ekki get jeg nú talað svo, að ekkert muni um 20.000 kr. Annars er og þess að gæta, að þegar fyrst voru veittar 40.000 kr. til þess að kaupa björgunarbát, þá hugðu menn, að það nægði til þess að fá skip á þeim tíma. En það reyndist á annan veg. Þá voru veittar 50.000 kr. til viðbótar, en ekkert til rekstrar. Og jeg man ekki betur — jeg var þá hjer í sjávarútvegsnefnd — en að háttv. þm. Vestm. (K. E.) tæki aftur beiðnir sínar um rekstrarstyrk, því að hann fann, að þær höfðu ekki byr í nefndinni nje þinginu.

Þá hafa nokkrir háttv. þdm. minst á styrkinn til veiku embættismannanna. — Það lítur auðvitað vel út fyrir „háttvirta kjósendur“ að lesa í þingtíðindunum, að þetta væri kallað mjög varasamt, eða jafnvel óhæfa hin mesta. Háttv. þm. Vestm. (K. E.) nefndi þá kunningja sína og sagðist unna þeim alls góðs. Já, en það vantar aðeins að unna þeim lífsins. Um tvo þeirra má alveg vafalaust segja, að það er spurningin um líf þeirra, sem kemur hjer undir atkvæði. Og það eru fleiri en sjómenn í Vestmannaeyjum, sem eiga heimtingu á því, að eitthvað sje gert fyrir líf þeirra. Og þetta á við, jafnvel þótt það sjeu ekki nema íslenskir embættismenn, sem í hlut eiga. Jeg hefi heyrt það sagt, að sjálfsagt væri að veita þeim alla hjálp hjer heima. en það má aðeins ekki veita þeim styrk til þess að fara utan til lækninga. Og þó eru mest líkindi til, að það eitt dugi. Jeg veit um einn þeirra, að læknirinn á Vífilsstaðahælinu hefir ráðlagt honum að leita sjer lækninga erlendis, og talið það eina ráðið. Um læknirinn í Nauteyrarhjeraði er það að segja, að hjeraðslæknirinn á Ísafirði mælir með umsókn hans og telur utanför hans nauðsynlega. Jeg verð nú að segja, að jeg trúi betur þessum vitnisburði en dómi ólæknisfróðra manna. Sá þriðji vill leita sjer lækninga á sjúkdómi, sem lengi hefir þjáð hann, en hann hefir ekki haft tíma, vegna embættisanna, nje efni til þess að leita sjer lækninga. Þótt hugsast gæti, að hann gæti fengið lækningu heima, þá eru þó miklu meiri líkindi erlendis. Nú er erlendis tekið að nota nýtt meðal við þessum sjúkdómi, og þykir reynast mjög vel, en það meðal fæst enn ekki hjer. Fyrir því er full ástæða til þess að ætla, að hann geti fengið lækningu erlendis.

Jeg held nú, að jeg hafi minst á flest, sem fram hefir komið gagnvart nefndinni. Vitanlega hefi jeg ekki svarað orði til orðs, enda hafa ræður fallið nokkuð á víð og dreif.