26.04.1921
Efri deild: 52. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. samgmn. (Halldór Steinsson):

Jeg vil aðeins leiða háttv. 1. þm. Húnv. (G. Ó.) í betri sannleika viðvíkjandi ekkjunni, sem honum hefir orðið svo tíðrætt um.

Árið 1919 var veittur styrkur Jóhannesi Helgasyni til utanfarar, í því skyni að fullkomna sig í trjeskurði. En svo slysalega vildi til, að þessi maður varð úti, skömmu eftir að hann lagði af stað í ferðina. Nú var þessi maður fátækur fyrir, og auk þess hafði hann lagt fram talsvert fje til ferðakostnaðarins. Útkoman varð því sú, þegar búið var gert upp, að skuldir voru meiri en eignir. Nú hefir móðir hans fátæk sótt um að fá að halda þessum styrk, sem honum var ætlaður, svo að skuldir og eignir mættu standast á. Finst mjer það bæði sanngjarnt og mannúðlegt, að svo sje gert.