30.04.1921
Efri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Við breytingar þær, sem gerðar voru við síðustu umr., mun hafa skipast svo, að það munar eitthvað 15–16 þús. kr. á fjáraukalagafrv. við það, er það fór frá Nd. Það er fátt af brtt., og þess vegna von um, að hægt verði að ljúka þessari umr. sæmilega fljótt.

Fyrst eru tvær brtt. á þskj. 427 frá samgmn. Fjvn. leggur þeim meðmæli, en að öðru leyti mun hv. frsm. samgm. (II. St.) skýra þær frekar fyrir hv. deild.

Þá eru brtt. á sama þskj. frá fjvn. og lúta að 11. gr. Fyrri till. fer fram á, að ríkisstjórninni veitist heimild til þess að ábyrgjast nauðsynleg rekstrarlán fyrir Landsbankann, og býst jeg ekki við, að neinn hafi á móti jafnsjálfsagðri ráðstöfun. — Hin till. er um ábyrgð á láni, að upphæð 325 þús. kr., til rafveitunnar í Reykjavík. Um það mál er það að segja, að þar sem Reykjavík hefir nú ráðist í fyrirtækið, og framkvæmd verksins komin langt á veg, þá væri óhæfa að stöðva það nú.

Þá er önnur brtt. við 11. gr., sem lýtur að lánsheimildinni til Guðm. Björnssonar sýslumanns. Við síðustu umr. var felt burtu það ákvæði, að sýslunefndir Mýra- og Borgarfjarðarsýslu skyldu ábyrgjast lánið. Bæði jeg og aðrir litu svo á sem þetta væri bjarnargreiði við sýslumanninn, þar sem örðugt myndi fyrir hann að útvega tryggilegt veð til svo langs tíma, á annan hátt en með ábyrgð sýslufjelaganna, eins og bent var á af hv. 3. landsk. þm. (S. J.). En þar sem þetta varð ofan á í deildinni, þá álítur nefndin ekki hægt að skilja svo við málið, og því er orðalagið sett þannig: „gegn þeirri ábyrgð, er stjórnin tekur gilda“. Líklegt þykir okkur, að þar verði ekki um aðra ábyrgð að ræða en sýslufjelaganna.

Þá eru næst brtt. viðvíkjandi björgunarskipinu Þór. Fyrsta brtt. er frá háttv. þm. Vestm. (K. E.), sem fer fram á 45 þús. kr. fjárv. til að halda úti umræddu björgunarskipi. Svo eru komnar fram brtt. við sama lið, önnur frá hv. 2. landsk. þm. (S. E.), er fer fram á, að þessi fjárhæð sje lækkuð í 40 þús. kr., og ennfremur er komin fram brtt. við þá till. um orðalag liðsins, en fjárhæðin er sú sama. Nefndin hefir ekki treyst sjer til annars en halda sjer við till. sínar um þetta mál. En svo er önnur till. viðvíkjandi skipinu frá hv. þm. Vestm. (K. E.), og það er um lánveiting til bæjarsjóðs Vestmannaeyja til greiðslu rekstrarkostnaðar skipsins fyrir árið 1920. Þeirri till. treystir nefndin sjer ekki til að mæla með, því ekki er hægt að gefa ávísun á tóma ríkisfjárhirsluna. Við þessa till. er en brtt. frá hv. 2. landsk. (S. E.), um að breyta upphæð þessari í ábyrgð, og í stað þess að lána bæjarsjóði Vestmannaeyja þetta fje, er farið fram á ábyrgð ríkissjóðs. Þetta er aðgengilegra fyrir landið, að ábyrgjast lánið, og nefndin vill ekki mæla á móti því við deildina. Svo er brtt. fjvn., sem fer fram á að breyta orðalagi síðastnefndrar till. þannig, að orðið „eftirlitsskip“ falli burt. Nefndin vill láta halda sjer við orðalag það, sem samþykt var hjer í deildinni um fjárveitingu til björgunarskipsins Þórs. í samræmi við þetta er till. háttv. 2. þm. Eyf. (E. Á.), um að hafa orðalagið „björgunarskipið Þór“, en ekki „björgunar- og eftirlitsskipið Þór“. Þá er ekkert, sem getur skorið úr, annað en hve há fjárveitingin eigi að vera.

Þá eru eftir tvær brtt., önnur frá háttv. þm. Vestm. (K. E.), um 17 þús. kr. skaðabætur til fyrverandi stöðvarstjóra í Vestmannaeyjum, A. L. Petersen, og til vara 10 þús. kr. Um þetta var allmikið rætt í Nd., og þar felt, að maður þessi fengi nokkur fjárframlög úr ríkissjóði út á kærur sínar. Nefndin er fyllilega sammála Nd. í því, að manni þessum beri að sækja þetta mál með lögum, til þess að það sannist, hvort hann hafi verið órjetti beittur eða ekki.

Þá treystir nefndin sjer ekki til þess að mæla með brtt. háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.) á þskj. 427.III., um að hækka styrk til ekkju Matthíasar Jochumssonar úr 1200 kr. upp í 2000 kr., ásamt dýrtíðaruppbót. En það er mín persónulega skoðun, að rjettara væri að breyta þessu síðar, og láta standa í fjárlögunum 3000 kr. styrk handa henni árlega, án dýrtíðaruppbótar, því dýrtíðaruppbótin getur fallið, og þá álít jeg, að þessar 1200 kr. sjeu ekki nægilegar, til þess að hún geti lifað af þeim. Og þar sem þetta er líka háöldruð kona, þá getur tæplega verið um langan tíma að ræða, og fyrir því teldi jeg þetta rjettara. En eins og jeg sagði, er þetta frá sjálfum mjer, en ekki mælt fyrir nefndarinnar hönd. Er svo eigi fleira, sem jeg þarf að taka fram þessum brtt. viðvíkjandi.