30.04.1921
Efri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg vildi aðeins segja örfá orð út af ræðu háttv. þm. Vestm. (K. E.).

Hann sagði hiklaust, að Petersen stöðvarstjóri hefði verið rekinn úr stöðunni. En jeg verð að mótmæla þeirri fullyrðingu. Og svo framarlega, sem hann ekki hefir sótt formlega um lausn, þá hafi hann að minsta kosti farið frá með samkomulagi. Hvað snertir loforð landssímastjóra gagnvart þessum manni um atvinnu, þá þarf jeg engu þar um að svara, því að hann hefir enga atvinnu haft að bjóða og að öðru leyti efnt það, sem hann lofaði, og mælt með, að honum yrðu veittar 10 þúsund krónur.

Meiru gat hann ekki lofað en að mæla með, að honum yrði veitt þetta.

Svo er það nú á valdi deildarinnar, hvað henni sýnist að gera í þessu máli. En jeg get ekki mælt með því, að farið verði lengra en fjvn. Nd. hefir lagt til, sem sje, að honum verði veittar 5 þús. krónur. Því að það var eftir tillögum frá mjer, og við það stend jeg. Þó jeg viti, að mörgum hafi verið knappt launað, þá gat jeg mælt með þessu.

Jeg skal ekki fara langt út í það, sem snertir meðmæli þau, sem hann fjekk hjá landssímastjóra. En mjer er fullkunnugt um það, að Petersen fekk þessi meðmæli undir þeim kringumstæðum, að hann ætlaði að sækja um stöðu við símakerfið í Danmörku, og hefir landssímastjóri því eigi viljað skerða það, sem hann gat sagt vel um hann, enda leit hann svo á, að hann gæti dugað á stöð í Danmörku, þar sem betur er mannað á stöðvum heldur en hjer, þar sem þarf afkastamenn. Og jeg veit, að hann var ekki ánægður með hann, og að hann var af mörgum álitinn mjög lítill starfsmaður. Og jeg tek það upp aftur, jeg mótmæli því algerlega, að hann hafi verið rekinn.