30.04.1921
Efri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal eigi fara út í það, hvernig á því stendur, að þessi maður losnaði við starf sitt, heldur aðeins tala um formið á þessari till. Því hvernig sem á því stendur, að maður þessi fór frá starfinu, getur eigi verið um skaðabætur að ræða. Þótt þessum starfsmanni hefði beint verið vikið frá embætti, þá hefði hann samt engan rjett átt skaðabótum. Stjórnin hefir fullan rjett til að víkja mönnum úr embætti, að undanteknum dómurum, sem engum umboðsstörfum gegna, þegar hún telur það nauðsyn. Þetta er rjettur, sem henni er veittur í stjórnarskránni.

Um skaðabætur er því alls ekki að tala í þessu sambandi. Heldur væru það þá eftirlaun, sem frekar væri ástæða til að tala um, ef maður þessi hefði verið látinn fara frá starfi sínu.