06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Það þýðir víst ekki að bíða lengur eftir háttv. þm. þeim, sem fjarverandi eru. Þeir virðast ekki kæra sig um að hlýða á byrjun umræðu um þetta mál, enda er það ekki mikið, sem jeg þarf að segja.

Fjvn. hefir aðeins komið fram með eina nýja brtt. að þessu sinni. Allar hinar brtt. hafa áður verið þaulræddar hjer í hv. deild.

Frv. þetta hefir tekið talsverðum breytingum í háttv. Ed. Þó hafa þær breytingar ekki breytt heildarútliti frv. Útkoman fjárhagslega er alveg sú sama og þegar frv. fór hjeðan úr deildinni, eða því sem næst. Aðeins hefir þar verið skift nokkuð um liði.

Háttv. Ed. hefir felt niður nokkra liði, sem samþ. hafa verið hjer áður í deildinni. Nefndin gat nú ekki fallist á að það væri rjett, að því er alla þessa liði snerti, og hefir því tekið suma þeirra upp aftur. En sumar breytingar háttv. Ed. lætur nefndin sjer vel líka.

Jeg held það sje óþarfi að benda þm. á breytingar háttv. Ed. á frv.; þær eru svo ljósar. Hún hefir breytt fyrirsögnum sumra liðanna, t. d. hefir hún breytt „dýrtíðaruppbót“ til Páls Erlingssonar í veitingu til hans í ,viðurkenningarskyni‘. Sama máli er að gegna um styrkinn til Einars Jónssonar. En sú viðurkenning háttv. Ed. hefir kostað Einar 60 kr.

Þá vil jeg minnast á eina breytingu hv. Ed. Það er dýrtíðaruppbót til Jóhannesar L. L. Jóhannssonar. Er það dálítið undarlegt, og sýnist svo sem háttv. Ed. hafi ekki treyst stjórninni til þess að greiða honum þessa upphæð af því fje, sem dregið hefir verið af syni hans, Jakobi Smára. Jeg hlýddi á háttv. frsm. fjvn. Ed, og sagði hann, að þó hann ekki álasaði stjórninni fyrir að hafa ekki greitt Jakobi styrkinn, þá gerði hann þó ráð fyrir, að úr því yrði dómstólamál, og ekki að vita hvernig það færi; taldi því rjettara að samþykkja hjer sjerstaka fjárveitingu.

Þá sný jeg mjer að brtt. nefndarinnar. Tek jeg þá fyrst stærstu brtt, um að taka upp aftur endurbyggingu þeirra tveggja vita, sem samþ. voru hjer við 3. umr. Nefndin gat ekki annað en tekið upp aftur þessar fjárveitingar, sem hjer voru samþyktar með miklum meiri hluta atkv, en feldar í háttv. Ed. með aðeins eins atkv. mun. Þetta er því upp tekið í samræmi við meiri hluta þingsins.

Það hefir helst verið haft á móti þessum liðum, að ekki væri rjett að flytja þessa vita fram fyrir þá vita, sem nú standa í fjárlögum, en ekki verða bygðir á þessu ári. Þetta hefir að vísu nokkuð til síns máls. En úr því ekki er hægt að reisa nýja vita, þá væri æskilegt að nota það fje, sem sparast, til þess að dytta að hinum gömlu vitunum, úr því þeir eru á fallandi fæti og aðgerð bráðnauðsynleg. Og ef ekki verður gert við þessa vita á næsta ári, þá verður það ekki fyr en árið 1923, því á næsta ári er ætlast til þess, að vitabyggingar verði eingöngu á Austurlandi.

Þá hefir háttv. Ed. lækkað byggingarstyrkinn til prestsins í Grunnavík um 3 þús. kr. Fjvn. getur ekki fallist á, að þessi lækkun sje á rökum bygð.

Svo var ráð fyrir gert af húsagerðarmeistara ríkisins, að þessi bygging mundi kosta 40 þús. kr., en biskup hjelt því fram í brjefi, að byggingin mundi nú ekki kosta yfir 30 þúsund, vegna þess að verð á efni hefði lækkað. Og við þessa lægri upphæð miðaði fjvn. styrkinn. Enn hafa engar upplýsingar komið fram, sem geri það líklegra, að byggingin verði ódýrari.

Ennfremur hefir háttv. Ed. felt niður launabætur til Ólafs Rósenkranz. Fyrir þeirri veitingu hefir verið mælt hjer í deildinni, bæði við umræðu fjárlaganna og fjáraukalaganna. Nefndin tók því þessa fjárveitingu upp aftur, í þeirri von, að deildin hafi ekki breytt skoðun sinni í því efni.

Næsta brtt., sem fjvn. hefir einnig tekið upp aftur, er um launabætur kennaranna við Stýrimannaskólann. Er það gert í samræmi við vilja þessarar háttv. deildar.

Enn kemur liður, sem háttv. Ed. feldi niður, en það er utanfararstyrkur til blindrar stúlku. Mjer þótti það talsvert undarlegt af fjvn. Ed. að fella niður þennan lið.

Háttv. þm. mun vera það kunnugt, að í fjárlögunum er styrkur veittur til kenslu blindra barna. Nú hefir verið frá því skýrt, að ekki væri fje fyrir hendi til þess að hjálpa þessari stúlku. Samt hefir háttv. Ed. felt þetta niður, og færir það sem ástæðu, að hún viti ekki hvað stúlkan heiti. Þetta er hárrjett; það er ekki skýrt frá nafni stúlkunnar í umsókninni. En ekki hefðu það þó verið mikil útlát fyrir fjvn. Ed., að afla sjer upplýsinga um nafnið, og jafnvel að fá skírnarvottorð, ef hún teldi það nauðsynlegt. Stúlka þessi heitir Sigurbjörg Sveinsdóttir og er af Ísafirði. Annars held jeg, að ekki skifti það mestu máli, hverju nafni umsækjendur hefðu skírðir verið, heldur hitt, hvort þau skilyrði væru fyrir hendi, sem rjettlættu það að veita styrkinn.

Enn hefir háttv. Ed. felt niður listamannastyrkinn. En vegna þess að fjvn. Nd. er kunnugt um, að til vandræða horfir, að minsta kosti fyrir sumum þessara manna, ef þeir fá ekki styrkinn, þá hefir hún tekið tvo af þeim aftur upp í fjáraukalögin. En til samkomulags við háttv. Ed. tók hún þá ekki alla.

5. Brtt. er eina brtt. frá fjvn., sem ekki hefir komið fram áður. Það er uppbót á eftirlaunum prestsekkjunnar Ingibjargar Sigurðardóttur. Kona þessi er ekkja síra Árna á Kálfatjörn, bláfátæk og heilsulaus. Ætti ekki að þurfa að fjölyrða um þennan lið, því hv. þm. hafa samþ. slíka uppbót til hennar í fjárlögunum.

Þá kemur 8. brtt. b., sem líka er lagfæring á gerðum háttv. Ed., þar sem hún lækkar lánið til Guðmundar Björnssonar. Sjálfur leggur Guðmundur mikla áherslu á, að upphæðin fái að standa óskert, og nefndin hefir ekki sjeð, að hann komist af með minna en 60 þúsund.

Þá kem jeg að till. um slitlagið á gólfin, þar sem eingöngu er um að ræða heimild fyrir stjórnina. Háttv. Ed. fellir þessa heimild niður, en háttv. frsm. fjvn. þar getur þess þó, að honum sýnist rjett að stjórnin geri þetta, ef henni þyki það hagkvæmt.

En þegar nú þingið hefir neitað ,um þessa heimild, þá fæ jeg ekki sjeð, að stjórnin geti tekist þetta á hendur, jafnvel þótt henni sýnist það hagkvæmt. En úr því hjer er í raun og veru ekki um ágreining að ræða, þá sýnist rjett að láta þessa heimild standa í fjáraukalögunum, og því hefir nefndin tekið hana upp.

Þá hefi jeg lokið máli mínu um brtt. fjvn., og um till. einstakra þm. skal jeg vera mjög stuttorður.

Viðvíkjandi 1. brtt. á þskj. 487 skal jeg aðeins geta þess, að nefndin hefir um hana óbundin atkvæði.

Sama máli gegnir um brtt. háttv. þm. Dala (B. J.). Meiri hluti fjvn. er á móti þeim. Fjvn. er einnig á móti till. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Nefndin hefir ekki viljað raska þeim lið eins og hann er kominn frá háttv. Ed., og álítur ekki heppilegt að etja kappi um hann.

Þá skal jeg minnast á breytingar Ed. á styrk til þriggja starfsmanna ríkisins til utanferða. Hún hefir sett þá undir annan lið. Fjvn. þessarar háttv. deildar hafði lagt það til, að Ara sýslumanni Arnalds yrði veittur styrkur með því skilyrði, að hann fengi árslausn frá embætti sínu, en ríkisstjórnin setti aftur mann í hans stað á eigin ábyrgð, og var það eftir tillögum hæstv. forsætisráðh. (J. M.). Nú hefir þessi embættismaður látið það í ljós, að með þessum skilyrðum yrði sjer ómögulegt að nota fjárveitinguna. Fjvn. háttv. Ed. ljet því lýsa yfir því, að hún vildi ekki halda fast við þetta skilyrði, heldur gefa það á vald stjórnarinnar, á þann hátt, sem henni þætti best henta, með því að líta einnig á, hvað hagkvæmt væri fyrir styrkþega. Út af þessu vil jeg lýsa yfir því, fyrir hönd fjvn. þessarar háttv. deildar, að hún, fyrir sitt leyti, leggur ekkert kapp á sínar fyrri ályktanir í þessu efni, heldur vill þvert á móti taka í sama strenginn og háttv. Ed. og heimila stjórninni að koma þessum embættisrekstri fyrir á þann hátt, sem henni sýnist best henta, og vill því láta hana ráða, hvort þetta embætti verði rekið á ábyrgð Ara sýslumanns eða þess, sem embættinu gegnir. Vænti jeg þess, að hæstv. stjórn telji þetta nægilega heimild, ef enginn háttv. deildarmanna verður til að andmæla því.