06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Jakob Möller:

Jeg á hjer till. á þskj. 495, um launauppbót handa sendiherranum í Kaupmannahöfn, Sveini Björnssyni. Háttv. þm. mega ekki skoða þetta sem heimtufrekju af mjer, þó að þeir, ef til vill, minnist þess, að frá því var sagt í blaði einu, að slík launahækkun hefði verið samþykt hjer fyrir árið 1922. En þetta var nú, því miður, ekki svo, því að tillagan var feld þá, þó að ólíklegt megi virðast. Jeg verð aftur að minna háttv. þdm. á það, að þessi háttv. deild samþ. nokkru meiri launahækkun handa sendiherranum á síðasta þingi, eða upp í 17400 kr. Jeg verð því að skjóta því til þeirra háttv. þdm., sem þá greiddu atkvæði með hækkuninni, að gera sjer og öðrum grein fyrir því, hvers vegna þeir ekki geti gert það nú.

Mjer þykir það einkennilegt, ef þessi till. nær ekki fram að ganga nú. Jeg benti á það við 3. umr. fjárlaganna, að það væri viðurkent, að launin væru altof lág. En það er ekki virðingu okkar samboðið, að þessi starfsmaður ríkisins sje látinn borga með sjer. Annars skal jeg ekki fjölyrða frekar um þetta nú. Jeg vona að háttv. þm. geri sjer það ljóst, að hjer er um sóma þingsins að tefla.