06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Sveinn Ólafsson:

Ætíð kemur fram í huga mjer sama myndin, þegar fjárlög eða fjáraukalög eru hjer til meðferðar í deildinni. Það er mynd af hvalfjöru til forna á almenningsreka, þar sem hver sótti að með sinn gogg og sveðju, og hver þóttist bestur, er stærsta þjós gat dregið á burt. Munurinn er einkum sá, að nú draga milligöngumenn mest á burt og liðleskjur ýmsar njóta fengsins. Einstakir menn draga urmul þjósa, svo heimilt sem óheimilt. Vil jeg þó ekki segja, að eins mikil brögð sjeu að þessu nú eins og þegar frv. fór hjeðan úr deildinni síðast, en þó er sami svipurinn á þessu.

Hv. frsm. (M. P.) tók fram, að Ed. hefði ófyrirsynju felt úr frv. nokkrar upphæðir, og skapað með því misrjetti milli þeirra, sem fjárveitingu fá, og hinna. Þetta virðist aðalástæða hans fyrir till. nefndarinnar um nýja menn og nýja bitlinga.

Jeg vona, að allir kunni að meta þessar ástæður rjettilega. Með því að samþykkja nýja bitlinga, sem nefndin mælir með, er misrjettinu ekki eytt, en það flyst aðeins yfir á aðra, sem alt að einu verða út undan, og það jafnvel miklu verðugri en þeir, sem nú eru í náðinni.

Að vísu mælir sanngirni með sumum liðunum í till. nefndarinnar, og hefði jeg viljað styðja þá, ef fært hefði verið að fara lengra í fjárveitingum. En þar eð hver minsta breyting flytur málið í Ed., og ef til vill í sameinað þing, þá þykir mjer ekki borga sig að fitla við þær.

Hvað viðvíkur till. Ed. um styrk til byggingar á Stað í Grunnavík, þá hygg jeg hann nú sanngjarnlega metinn, þar eð byggingarefni hefir fallið í verði síðan áætlun var gerð, og mun því Ed. fara nærri því rjetta. Jeg gef mjer ekki tíma til að tala um einstakar till., en greiði atkvæði móti þeim öllum, til þess — ef verða mætti — að forða því, að málið fari að veltast á milli deilda. Jeg get strikað undir það, sem háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að komið væri feti lengra en forsvaranlegt er í fjárveitingum, og á fjvn. þar sök á framar öllum öðrum.

Háttv. frsm. (M. P.) vildi ekki kannast við, að rjett væri að fella burtu vitabyggingu á Vesturlandi, þótt leitt gæti til þess, að vitabyggingar á Austurlandi yrðu teknar upp á þessu sumri, sem reyndar er sjálfsagt, ef farið er að byggja vestra. Jeg skil vel þessi lausakaup, og átti von á þeim úr þessari átt.