06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Bjarni Jónsson:

Jeg átti erindi út í bæ og gat því miður ekki hlustað á allar umræður í þessu máli, en kom þó nógu snemma til að hlusta á háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Það er ekki í fyrsta skifti, sem þessari gullvægu ástæðu um fjárhag landsins er slegið fram, og eftir kollhríðina og atkvæðagreiðsluna í dag þykjast þeir hafa byr undir báða vængi og vera stöðugir í sessi, sem stjórnarflokkur, og ætla að fara að spara, en spara það, sem síst skyldi.

Jeg dvel ekki við ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), en hugrakkur þykir mjer hann vera, að greiða atkvæði móti vita, sem kjósendur hans hafa mest gagn af, en ef bátarnir lægju allir uppi í fjöru fyrir sparnað háttv. þm., þá færi nú sparnaðurinn að verða vafasamur.

Enginn veit, hvenær viti þessi kann að falla, en þeir ættu að geta næst því, sem vísa mönnum leiðina yfir gröfina. En ef ekkert er að gert, fellur vitinn fyr eða síðar, og þá verður kostnaðarmeira að koma upp nýjum en nú kostar aðgerðin.

Svo er til ætlast, að vitinn verði gasviti, og sparast við það mikið fje, jeg hygg um 1100 kr. á ári, en það er sparnaður, sem ekki kemur að gagni fyr en viðgerðin hefir farið fram. Annað, sem sparast, ef við er gert nú, er flutningur alls konar. Verkefni og starfsfólk er nú á staðnum, og yrði við það aukinn kostnaður að flytja það frá nú, en síðar að. Þessi sparnaður ætti að geta höggið skarð í þann gróða, sem fæst við frestun. Um hinn sparnaðinn er óþarfi að ræða, að ef gert væri við nú, mundu sparast líf manna og eignir, og þyrfti ekki nema eitt skip að sparast til þess að vinna hitt upp. Það þykir heldur ekki heppilegur sparnaður að láta hús landsins ganga sjer til húðar og verða verðlaus eða verra en það, skaðleg. En svo er um ónýta vita. Sparnaður við frestun framkvæmda er aðeins vaxtagróði, og nemur hann ekki miklu af ekki stærri upphæð. Annars hefði jeg haldið, að vandalítið væri að reikna út fjárhagslega, hvort gróði er að einhverju eða ekki, og fara síðan eftir því, sem tölurnar tala. En hitt bjargar aldrei fjárhag landsins að berja lóminn, án þess að bera skyn á, hvað um er áð ræða.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) talaði í líka átt og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.); varaði hann menn við eyðslusemi og öðru því líku. Ræða hans var að því leyti merkileg, að hún gaf tilefni til að snúa á hann þessari vísu:

Þú mikli myndasmiður,

sem myndar undraher,

og út um alla geima með

önd í gandreið fer.

Hann fór á hvalfjöru með háttv. þm. í galdraflugvjel sinni, og skýrði fyrir þeim það, sem fyrir augu bar. Jeg hefi aldrei á hvalfjörum verið, en um það hefi jeg lesið, sem aðrir, og veit jeg, að oft verða þar víg og illdeilur. Kom þar oft fram ósanngirni manna og undirferli, og mun hv. þm. það ekki ókunnugt. Hv. þm. (Sv. Ó.) dró upp þessa fögru mynd af landssjóðshvalnum og skurðarmönnum hans, og þóttist órjetti beittur fyrir hönd umbjóðenda sinna, en það hygg jeg, að ekki hafi ver verið gengið að hvalþjóstunum fyrir Austfirðinga en aðra. Mönnum hefir þráfaldlega gefist kostur á að hlýða á raunarollu háttv. þm. (Sv. Ó.) út af vitunum austfirsku, en ekki þarf hann að beina skeytum sínum að mjer, því að jeg hefi altaf fylgt nauðsynlegum fjárveitingum til Austfjarða sem annara. — Mig mætti frekar saka fyrir ljelega frammistöðu fyrir umbjóðendur mína, því að jeg hefi aldrei farið fram á annað fyrir þá en það, sem sanngjarnt var og nauðsynlegt. Jeg hefi síst sökt skurðarhnífnum dýpra fyrir Dalamenn en aðra, og hafa þeir ekki verið ofaldir. En aldrei hafa þeir látið fara frá sjer slíkt aumingjavæl og kom úr kverkum háttv. þm. (Sv. Ó.), og væri betur, að slíkt heyrðist ekki oft hjer á þingi.

Það var hvorki barlómsbumba háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) nje hvalagrátur hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem kom mjer til að standa upp. Jeg hefi borið fram till. þess efnis að hækka styrk þann, sem Vestmannaeyingum verður veittur til þess að halda úti björgunarskipinu „Þór“, og vil jeg fara um hana nokkrum orðum.

Jeg hefi áður haft ástæðu til þess að lýsa máli þessu allgreinilega, og kann jeg ekki við að endurtaka það hjer. En þó vil jeg minna á það, að skip þetta er eyjaskeggjum til mikils hagræðis. Það ver fiskimið þeirra fyrir erlendum og innlendum togurum, og við það eykst fiskur eyjaskeggja. Margir segja, að rjett sje að eyjaskeggjar beri byrði þessa einir, úr því að þeir hafi hag af því. En á það má benda, að til eyjanna sækir fjöldi manna og stundar þar fiskveiðar í skjóli Þórs. Eyjaskeggjar greiða sennilega um hálfa miljón kr. í kaup til aðkomumanna, og er því ekki lítil stoð, þegar yfir vofir atvinnuleysi. Auk þess eru Vestmannaeyingar með hæstu gjaldendum í landssjóð, og eiga því ekki skilið að ver sje með þá farið en aðra. Þeir hafa flutt út fisk fyrir um 7 milj. kr. á ári, og skattur sá, er landið hlýtur af þeirri upphæð, er ekkert smáræði. Það væri því ekki nema sanngjarnt að þeir fengju ríflegan styrk, og fyrirtækið, sem styrkja á, er þess fullvert, að svo sje gert. Þór ver ekki aðeins landhelgina, heldur einnig stærra svæði, og því til sönnunar skal jeg, með leyfi forseta, lesa símskeyti, sem mjer hefir borist úr Vestmannaeyjum. Það hljóðar svo:

„Síðan 29. apríl hafa um 60 netabátar mokaflað á „bankanum“, langt utan landhelgi. Þar er fjöldi útlendra fiskiskipa. Þór er þar stöðugt og heldur opnu svæði fyrir netabátana. Þessi afli stórbætir hag útvegsins, sem leit illa út. Þegar tími vinst til, verður hægt að sanna með vitnisburðum sjómanna, að gæsla Þórs ræður mestu um aflabrögð á þessu svæði.

Björgunarfjelagið“.

Af þessu má sjá, að skipið kemur að miklum notum, og væri illa farið, ef dregið yrði úr framkvæmdum þess. Auk þessa er skipið björgunarskip, og hefir þegar bjargað nokkrum vjelbátum, og er sá hagur meiri en með tölum verði talinn. Þá er skipið og sjúkraskip, hefir lækni um borð og getur tekið veika menn af öðrum skipum úti í hafi, og sparað þeim þannig ómak.

Þó að landssjóður styrkti fyrirtæki þetta dálítið í upphafi, hefir skipið orðið eyjaskeggjum allþungt á fóðrum. Þá er von að þeir leiti landssjóðs, og það sjerstaklega meðan svo er ástatt, að þeir geta ekki leigt skipið, þegar þess er minst þörf við eyjarnar, en það er um síldveiðitímann. Skipið er einmitt vel fallið til landhelgisgæslu norðanlands um þann tíma, og væri það bæði landinu og Vestmannaeyjum styrkur, ef það ráð yrði upp tekið. Gæti þá svo farið, að Vestmannaeyingar þyrftu þá ekki á styrknum að halda, og sparaðist þá sú upphæð. En fyrir umliðna tímann kemur þetta ekki til greina, og vænti jeg því fastlega, að menn fallist á þá till. mína, að veita 50 þús. kr. til Þórs.

Þetta fyrirtæki eyjaskeggja lýsir svo mikilli framtakssemi, kjarki og karlmensku, að full ástæða væri til að verðlauna það. Og vera mætti, að enn væru á landi voru menn, sem ekki þætti minkun að íslenska fánanum til varnar landhelginni, og geta þeir ekki annað en glaðst yfir framtakssemi Vestmannaeyinga.

Jeg var svo óheppinn, að heyra ekki háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) tala fyrir lækkunartill. sinni, en svo er langt milli okkar, að eigi þýðir mjer að reyna að sannfæra hann á mitt mál. Jeg get ekki búist við því, að hann greiði till. minni atkv., en þess vænti jeg af háttv. deildarmönnum öðrum.

Ef mönnum þykir það of frekt í farið að hækka styrk þennan um 10 þús. kr., þá er varatill. mín fyrir hendi, og verður ekki sagt, að hún fari fram úr sanngirni. Deildin hefir sjálf viðurkent þessa upphæð, með því að setja hana í komandi fjárlög, og treysti jeg því, að hún verði sjálfri sjer samkvæm. Og af sömu ástæðum vænti jeg, að till. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) verði feld.