19.02.1921
Efri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

5. mál, lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra

Fjármálaráðherra (M. G.):

Breyting sú á gildandi lögum, sem hjer er um að ræða, er í því fólgin, að hækkað er árstillag það, sem embœttismaður skal leggja í lífeyrissjóð, í þeim tilgangi, að lífeyrissjóðurinn skuli framvegis vera bæði fyrir embættismenn og ekkjur þeirra, í stað þess, að nú er hann aðeins fyrir embættismenn. Kvaðir allar til þess að kaupa lífsábyrgðir þeim til handa falla hjer með niður.

Það er vitanlegt, að eftir því sem hin gildandi lög eru úr garði gerð, þá hlyti svo að fara, að ekkjutryggingar yrðu keyptar hjá ýmsum erlendum lífsábyrgðarfjelögum. Nú er bæði, að kostnaður við rekstur slíkra fjelaga er allmikill, og auk þess má ganga að því sem gefnu, að þau taki ekki minni ómakslaun en svo, að þau verði vel haldin af. Með þessum hætti tapast allmikið fje út úr landinu, og hygg jeg því ráðlegt að fara að ráðum embættismanna í þessu efni, og gera hjer á þær breytingar, sem í frv. þessu eru fólgnar. Það er hjer að ræða um spor í áttina til þess að koma upp innlendum líftryggingarsjóði, og álít jeg rjettmætt að styðja það.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að leggja til, að frv. þessu verði vísað til allshn.