19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

5. mál, lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. 4 þm. Reykv. (M. J.) tók það fram, að stjórnin hefir ekki með þessu frv. haft annað fyrir augum en steypa saman tvennum lögum frá 1919, án þess að breyta neitt afstöðu embættismanna til ríkissjóðs. Þetta skilst mjer að allir vilji, en sumir vilja nota tækifærið til að nema burtu síðustu drefjar eftirlaunanna, sem sje líffje ekkna og barna. Þetta get jeg játað, að sje í raun og veru rjettmætt, en vildi helst, að því væri ekki blandað hjer inn í, því að þessar brtt., sem hjer liggja fyrir, ganga áreiðanlega ekki í gegn í háttv. Ed. Jeg vildi helst losna við allar breytingar á stjórnarfrv., en sje ekki ástæðu til langra umræðna, þar sem allir vilja, að frv. gangi fram með þeim ákvæðum, sem mjer er áhugamál að í því sjeu.