15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

Rannsókn kjörbréfa

Jakob Möller:

Það er langt síðan að menn heyrðu, að þessi kæra, sem fram er komin, mundi vera á leiðinni, en það er skamt síðan menn gátu trúað því, að nokkur mundi verða til að bera hana fram. Menn hjeldu, að varla mundi talað um slíkt í alvöru. Það var mesta furða, að nokkur skyldi fást til að bera slíka kæru fram, og það hefir líka sýnt sig, að það varð ekki nema einn maður, sem gat fengið sig til þess að ljá nafn sitt undir hana.

Annars er það um kæruna að segja að hún staðfestir þá reglu, að hjer í Reykjavík kærir hver sá, sem undir verður í kosningu. Kæran er komin fram að undirlagi aðstandenda þess listans, sem ekki kom til greina, og nú er málið sótt af þeim.

Annað atriðið í kærunni er því furðulegra, þar sem efsti maðurinn á þessum umrædda lista átti drjúgan þátt í því í bæjarstjórninni, að aukakjörskráin var gerð svo úr garði sem segir í kærunni og að er fundið. Mjer dettur í hug, að þeir hafi hugsað sem svo, að allur væri varinn góður, að hafa kosninguna gallaða, í von um ógildingu, ef illa færi. Annars eru allir sammála um, að aukakjörskrárnar hafi verið ólöglegar, og ætti því ekki að þurfa að orðlengja um það, eða að telja gallana upp í mörgum liðum, svo sem of stutta fresti og önnur smáatriði. Hitt er meginatriði, að ekki er upplýst, að neinir hafi fengið að kjósa eða verið settir á þessar aukakjörskrár, sem ekki áttu kosningarrjett að lögum.

Það er rjett, að með samningu aukakjörskrárinnar er framið lagabrot. En um það lagabrot stendur svo sjerstaklega á, að lögin eru brotin til þess að bæta úr ranglæti, sem margir menn hefðu annars orðið fyrir. Nú er skiljanlegt, að kært hefði verið yfir þessu, ef ástæða væri til að halda, að það hefði breytt úrslitum kosningarinnar. En svo er alls ekki. Viðbótin við kjósendatöluna mun hafa komið hlutfallslega niður á flokkana. Kærurnar yfir því, að menn vantaði á kjörskrá, komu nokkurnveginn jafnt frá öllum kosningaskrifstofunum.

Enn fremur er á það að líta, að hjer er rætt um að ógilda kosningu fyrir þá hluti, sem yfirkjörstjórn á sök á. Vitanlega lætur bæjarstjórnin semja viðbótarkjörskrána, en það er kjörstjórnin, sem lætur menn kjósa. Og yfirkjörstjórn hefir samþykt þessa ólöglegu kjörskrá. Í fyrra stóðu hjer nokkrir menn og vörðu kosningu mína rjettilega, með þeim rökum, að gallarnir á kosningunni væru kjörstjórn að kenna. Jeg vænti þess nú, að þeir hinir sömu standi nú og með mjer, er svo líkt stendur á.

Um fyrsta atriði kærunnar tel jeg óþarft að tala. Það er eins og hitt, stjórnarvöldunum að kenna, ef þar væri um lögleysu að ræða. En jeg tel það rjett, sem gert hefir verið. Á síðasta þingi voru samþykt lög um hlutfallskosningu í Reykjavík, og tilgangur þeirra laga er að verja rjett minni hlutans. Það var sjálfsagt, að taka þau lög til greina strax. Hitt hefði verið óforsvaranlegt af stjórninni, ef hún hefði látið kjósa einn þm. fyrst fyrir nýár, og tvo síðar. Það hefði rjettilega mátt telja tilraun til að traðka rjetti minni hl. Og gildir einu, hver sá minni hluti hefði verið.

Þá er 3. atriði kærunnar, um að kosningu hafi verið slitið meðan óslitinn straumur kjósenda kom til að kjósa. Jeg tel víst, að frsm. minni hl. 1. kjörbrjefadeildar (B. Sv.) hljóti að vita, að það var að eins ein kjördeild, sem þetta kom fyrir í. Annars er kæran svo ógreinilega orðuð, að þm. eru þess vegna að ráða til að fresta úrskurði um gildi kosningarinnar, svo að hægt væri að fá betri upplýsingar. Þetta væri mjög hættuleg braut að leggja út á. Með því væri mönnum gefið undir fótinn að koma fram með ógreinilegar kærur, til þess að bægja mönnum frá þingsetu um stundarsakir. Slíkt væri algerlega óforsvaranlegt. Nú er það upplýst, að þessari einu kjördeild var lokað kl. 11. Vitanlega var það ólöglegt, að þeir, sem eftir áttu að kjósa þar, gátu ekki fengið að kjósa annarsstaðar. En það hefir engin áhrif á úrslitin. Til þess að svo hefði farið, hefðu 439 kjósendur þurft að kjósa í þessari einu kjördeild eftir kl. 11 — og allir að kjósa sama listann. En jeg býst ekki við, að neinn háttv. þm. geri ráð fyrir því, að það furðulega fyrirbrigði hefði komið fyrir, þó að kosningunni hefði verið haldið áfram.

4. atriði kærunnar er hlægilegt. Það er vanhirðu kjósenda að kenna, ef þá vantar á kjörskrá, og í hverju einasta kjördæmi landsins kemur það fyrir við hverja kosningu, að einstakir menn missa atkvæðisrjett, af því að þá vantar á kjörskrá, og hefir aldrei fyr verið krafist ógildingar á kosningu fyrir þá sök.

Jeg verð að halda því fram, að það væri hreint gerræði að ógilda kosninguna fyrir formgalla eina, þar sem úrslitin eru svo skýr. Vjer vitum, að þrír listarnir komu hver að einum manni, og munurinn á atkvæðatölum þeirra var ekki svo mikill, að gallar þeir, sem á kosningunni kunna að vera, geti nokkur áhrif haft þar á. En 4. listinn fjekk svo fá atkvæði, að úrslitin gátu ekki raskast svo, að hann kæmi manni að.

Jeg veit, að þessi kæra er komin fram vegna vonbrigða, sem menn urðu fyrir, ekki að eins í kosningunni, heldur einnig eftir að komið var hingað til þings. Ef nú á að láta stærsta kjördæmi landsins missa þingmenn sína af þingi um lengri eða skemri tíma, og gjalda þannig vonbrigða eins flokks, þá þykir mjer skörin vera farin að færast upp í bekkinn.

Jeg á rjett til að tala aftur, og þá mun jeg, ef þess verður óskað, gera frekari grein fyrir þeim ástæðum, sem jeg hygg, að valdið hafi kærunni.