04.05.1921
Efri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

5. mál, lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Háttv. meðnefndarmenn mínir hafa komið með brtt. um að færa þetta frv. í líkt horf og það var í, er það fór hjeðan úr deildinni, því að það hefir tekið breytingum í hv. Nd. — Hin fyrsta er sú, að embættismönnum, sem skipaðir verða í embætti eftir 1. janúar 1922, er gert að skyldu að greiða í lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra 8% af launum sínum. Hinar eru um, að lífeyrir hlutaðeigandi embættismannaekkna sje hækkaður að sama skapi, en rjettur þeirra til líffjár úr ríkissjóði falli niður. Flutningsmenn líta svo á, að þetta sje skerðing á þeim launarjetti, sem embættismenn hafa þegar fengið, og vilja því kippa þessu til baka. Jeg hneigist heldur að því, að greiða atkv. með frv. eins og það kom frá háttv. Nd., og er það af ýmsum ástæðum. Og skal jeg þar fyrst til nefna, að allsherjarnefnd Nd. hefir tekið vel á móti þeim málum, sem komið hafa frá allsherjarnefnd þessarar deildar, og fyrir því tel jeg rjett að taka vel við því, sem hún leggur til málanna. Þetta er auðvitað ekki fullgild ástæða.

Í öðru lagi tel jeg þetta í samræmi við þá stefnu í launalögunum, að eftirlaun falli niður.

Í þriðja lagi lít jeg svo á, að enginn rjettur sje tekinn af þeim embættismönnum, sem skipaðir eru eftir 1922, með breytingum Nd., heldur má segja, að þeim sje skapaður nýr eða annar rjettur. En vitanlega er það lækkun á launum frá því, seni nú er ákveðið.

Í fjórða lagi vil jeg nefna, að sams konar ákvæði og um líffje embættismanna og ekkna þeirra var tekið út úr frv. um laun barnakennara og ekkna þeirra, og kemur fram í þessu misrjetti, sem mjer er ógeðfelt.

Af öllum þessum ástæðum vildi jeg helst, að frv. yrði samþykt eins og það liggur nú fyrir.

En eitt atriði er, sem jeg hefi ekki minst á ennþá, og það er það, að Nd. hefir lækkað tillög til barna embættismanna. Er jeg alls ekki ánægður með það, og hefði gjarnan viljað láta hækka það. En þó tók jeg þann kost að mæla með, að frv. yrði samþykt eins og það nú liggur fyrir, af því jafnframt, að jeg lít svo á, að mjög bráðlega þurfi að endurskoða launalögin, og þetta þá jafnframt.