11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

5. mál, lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra

Frsm. (Björn Hallsson):

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að málið færi í Sþ., ef þessar brtt. yrðu samþyktar. Jeg sje ekkert á móti því, þó að hvor deildin fyrir sig haldi sinni skoðun fram, og því ástæðulaust fyrir þessa deild að fara að slá undan. Hitt er annað mál, hvað einstakir þm. kunna að gera; þar getur hver haft sína skoðun.

Nefndin hefir skýrt frá því, að þetta væri frambúðarskipulag og skerti ekkert hag þeirra embættismanna, sem nú væru í embættum. Og það vakir eingöngu fyrir nefndinni, að skipulagið komist á fyrir framtíðina. Þetta er vitanlega ekkert stórt spursmál nú í svipinn, en framtíðin getur orðið löng, og þá getur það haft þýðingu. En jeg verð að leiðrjetta þann misskilning, að hjer sje brotinn rjettur á embættismönnunum; nefndin hefir ekki getað fundið það, og því vil jeg fyrir hönd nefndarinnar endurtaka þá ósk, að háttv. deild samþ. þessa brtt., sem er á þskj. 539, svo að frv. verði eins og það var, þegar það fór hjeðan síðast.