08.04.1921
Efri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

25. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg er samdóma nefndinni um flestar brtt. þær, sem hún hefir gert. Jeg vil ekki fjölyrða um þær af þeim, sem jeg tel til bóta. En tvær brtt. er jeg dálítið smeykur við, og þætti ástæða til, að betur væri íhugaðar. Teldi jeg því æskilegt, að þær væru teknar aftur til 3. umr. Jeg vil skjóta því til nefndarinnar, hvort hún sæi sjer ekki fært að taka aftur þessar brtt.; það eru brtt. við 25. og 26. gr.

Sú breyting er gerð á 25. gr. af hálfu nefndarinnar, að íbúðarhús megi ekki taka eignarnámi. Mjer finst hjer of skamt farið. Þess verður að gæta, að hjer er eigi aðeins verið að ákveða skipulag á bæjum, eins og mjer virðist háttv. frsm. (K. E.) helst gera ráð fyrir, heldur einnig á sjávarþorpum.

Nefndin vill ekki láta leyfa að taka íbúðarhús eignarnámi, en aftur geymsluhús, peningshús, hjalla og önnur úthýsi, En við, sem þekkjum til í sjávarþorpunum, vitum, að sum húsin þar mætti fremur kalla hjalla en íbúðarhús, þótt í þeim sje búið, og hví skyldi ekki mega taka slík hús eignarnámi? — Væri það bannað, gæti það orðið til þess, að erfitt væri að fá þeim rutt úr vegi, þótt skipulagið krefðist þess, eða gerði það svo dýrt, að ókleift mætti kallast. — Aftur er ekkert hættulegt að halda orðalagi frv., því að menn fara ekki að ryðja burtu húsum, nema þess sje afarmikil þörf.

Jeg óska því, að brtt. nefndarinnar við 25. gr. verði tekin aftur. En verði það ekki gert, mun jeg greiða atkvæði gegn henni.

26. gr. frv. vill nefndin fella niður. En aðgætandi er, að bæði 27. og 28. gr. þrengja mjög, að hægt sje að taka nokkuð án fulls endurgjalds. Jeg er ekki viss um, að 26. gr. sje svo ljós, að ekki mætti orða hana betur, en mikið vafamál er, hvort það er rjett að fella hana alveg niður.