06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

25. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Jón Þorláksson:

Jeg á brtt. við frv. þetta, og fer hún fram á það að draga nokkuð úr umfangsmiklum framkvæmdum, sem annars væri stofnað til, en er á engan hátt þannig, að jeg viðurkenni ekki loflegan tilgang frv. En af því að hjer er um að ræða bæði nokkuð seinunnið og kostnaðarsamt verk, álít jeg, að ekki beri undir eins að skipa fyrir um uppdrætti og mælingar annara staða en þeirra, sem einhverjar líkur eru til, að talsverðum vexti taki í framtíðinni, enda er það auðvitað, að þörfin er mest þar, sem þorpin eru stærst eða vöxturinn örastur. Þess vegna fer jeg fram á það, að lágmarkíbúatölunnar verði hækkað úr 200 upp í 500. Það sjest líka fljótlega, þegar litið er yfir þessi smáþorp, að mörg af þeim eru í rauninni ekki annað en upp og útskipunarstaðir fyrir stærri eða minni uppsveitir, en hafa litla eða enga sjálfstæða atvinnu eða vaxtarmöguleika. En til þess að rígbinda þetta samt ekki of mikið, hefi jeg einnig lagt til, að taka megi til mælinga smærri þorp, eftir sömu reglu og hin, ef viðkomandi hreppsnefnd óskar þess eða skipulagsnefndin telur það æskilegt, þó að íbúarnir sjeu undir 500. Með þessu ætti það því að vera trygt, fyrst og fremst, að allir stærstu staðirnir, sem mest þörf er á að mæla og laga, verði látnir ganga fyrir, og að enginn staður verði útilokaður, þótt minni sje, ef horfur eru á því, að vöxtur hlaupi í hann. Get jeg svo látið þetta nægja að sinni, og vona, að háttv. deild geti fallist á þessar brtt.