09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

25. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Magnús Jónsson:

Jeg hafði kvatt mjer hljóðs á laugardaginn, til þess að andmæla till. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), en jeg var farinn að vona, að jeg losnaði við það, því að jeg vænti þess, að nefndin legðist á móti þeim. Svo hefir ekki orðið.

Eins og öllum er ljóst, er farið fram á, að íbúatala þeirra kauptúna, sem lögin eiga að ná til. verði færð úr 200 upp í 500. Þetta tel jeg mjög varhugavert.

Þetta frv. er eitt af merkilegustu frv. þingsins, og mætti það vera orðið að lögum fyrir mörgum árum. Það er hörmulegt til þess að vita, hvernig tekist hefir með skipulag bæja hjer á landi, bæði hvað fegurð og hagkvæmi snertir. Dæmin mætti telja fram svo tugum skiftir, en jeg nefni aðeins eitt, af því að það verður fyrir mjer. Það er síminn. Honum hefir víðast verið hróflað upp á fegurstu götunum, öllum smekklegum mönnum til angurs og ama. Það hefir, ef til vill, þótt stáss að honum fyrst, þegar hann var nýr, en þegar nýjungarvíman var runnin af mönnum. munu þeir hafa litið hann öðrum augum. Mjer dettur í hug fegursta gata Ísafjarðar, Strandgata, sem eyðilögð er með því, að aðalsíminn er lagður eftir henni, og eins má minna á Bankastræti hjer í Reykjavík. Auk þess að telja upp syndir gegn fegurðinni, mætti telja upp margt, sem betur mætti fara frá hagsýninnar sjónarmiði. En það er meira almenns efnis, og skal jeg ekki fara frekar út í það.

Jeg sje ekki betur en að brtt. sjeu til þess eins að kippa úr gagnsemi frv. Það er engu minna um vert að hafa smáþorp haganlega og smekklega úr garði gerð en stærri kauptún. Það má meira að segja forðast margar þær syndir gegn þessu í smáþorpunum, sem varla verður girt fyrir þar, sem fólkið er fleira. Og jeg tel mikinn skaða unninn, ef smáþorpin eru skilin undan, og það aðallega á tvennan veg: Annars vegar sje jeg ekki, hvers vegna smáþorpum, sem hafa undir 500 íbúum, má ekki vera haganlega og smekklega fyrir komið, í stað þess að klessa húsunum eins og taðhlössum út um hvippinn og hvappinn, jafnvel þótt ekki sje fyrirsjáanlegt, að þau stækki. En svo er hitt, að það er ekki á nokkurs lifandi manns valdi að sjá fyrir, hvort bæir fara alt í einu að vaxa, og er þá ótrúlegur skaði, sem hægt er að vera búið að gera með illu skipulagi, áður en bærinn fær 500 íbúa.

Það er satt, að till. fer í sparnaðarátt, en það er þessi vanalega Alþingissparnaðarátt, sem álítur ekkert verðmæti nema peninga, sem leggja þarf út rjett það árið. Jeg er sannfærður um, að till. fer í raun og veru í eyðsluáttina; við hana tapast meira verðmæti en krónur þær, sem sparaðar verða í svip, því að þegar búið er að skipa húsum óhaganlega, verður það ekki lagfært, nema með ærnum kostnaði eða óþægindum, ef til vill svo mannsöldrum skiftir.

Jeg get, því miður, ekki haft neina tröllatrú á ákvæðum 17. gr. Jeg er viss um, að sú heimild verður sáralítið notuð; menn snúa sjer ekki að framkvæmdum í þessum efnum, fyr en þeir verða skyldaðir til þess.

Það er sjerstaklega aðkallandi að ákveða þetta skipulag nú, því að menn eru farnir að byggja alment úr steini, og þau hús standa lengi og geta orðið ill viðureignar áður en lýkur, ef illa er til stofnað. Timburhjallarnir falla og fúna eða brenna, þeir verða sjaldan langlífir, en steinhúsin geta staðið óratíma eins og þrándur í götu, og er enginn vegur að losna við þau, nema að rífa þau, og þá verður sparnaðurinn lítill.

Jeg vil benda á það að lokum, að ógerningur er að sjá fyrir vöxt bæja, hann getur orðið með ýmsu móti og getur skollið á fyr en varir. Það væri því óhyggilegt að geyma framkvæmd skipulagsákvæðanna þar til einhver spáði þessum vexti; spádómurinn kæmi oftast eftir á.

Það er og athugavert, að nálega er víst, að hver bær vex þannig að gamli bærinn lendir einmitt þar, sem mest er þörf á góðu skipulagi. Vöxtur og viðgangur nálega allra, eða jafnvel allra, bæja hjer er tengdur við höfnina, hvort sem bærinn heldur vex vegna fiskveiða eða óvenjumikils flutnings út eða inn. Og þar sem nú bæir eru upphaflega reistir við höfnina, sjá allir, hve heppilegt það er að lofa þar fyrst að byggjast, án allrar reglu, þorp upp að 500 íbúum. Það getur orðið nokkuð margfaldur mælingarkostnaður áður en því verður komið í lag.

Jeg verð af þessum ástæðum að leggjast á móti till., því að jeg tel hana höggva varhugavert skarð í frv.