18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Já — án þess þó, að jeg komi mikið við „ískrið í Vísisgreinunum“, þá hefir svo farið, að jeg hefi ekki getað orðið samferða meðnefndarmönnum mínum í fjhn. Þó er þetta ekkert nýtt fyrirbrigði, að þessu sje mótmælt hjer. Svipað frv. þessu var hjer áður á ferðinni, en náði ekki fram að ganga, svo háttv. frsm. meiri hl. (Þorl. G.) eða deildinni þarf ekki að koma það á óvart, þótt frv. þetta mæti nokkurri mótspyrnu.

Það hneykslaði háttv. frsm. meiri hl. (Þorl. G.), að jeg í nál. mínu minnist á lestagjaldið í sambandi við þennan skatt. En það er misskilningur hjá honum, að jeg hafi gert það með tilliti til viðhalds veganna á sjónum.

Til grundvallar fyrir minni afstöðu í þessu máli liggur það, að þessi farartæki, bifreiðarnar, eigi ekki fremur að borga vegaskatt heldur en önnur farartæki, sem um vegina fara. En vitanlega eiga þeir ekki að vera undanskildir öllum skatti, ef ofan á verður að skattleggja alla hluti á sjó og landi, en þá á bílaskatturinn vitanlega að vera í samræmi við aðra skatta, t. d. lestagjaldið af skipum. Á þessum grundvelli byggist afstaða mín, svo að óþarfi var af háttv. frsm. meiri hl. (Þorl. G.) að snúa út úr orðum mínum, enda býst jeg við, að hann hafi ekki gert það vísvitandi, heldur óviljandi eða af misskilningi.

Það þarf ýmislegt að gera til þess að tryggja ferð skipa á sjó, enda er það gert bæði með leiðarljósum og vitum, bættum lendingum o. fl.; og fyrir þetta verða skipin svo að greiða gjald, t. d. vitagjald. Eins gæti hugsast, að tekinn væri brúarskattur af bifreiðum upp til sveita, ef sveitirnar, eða sýslurnar, geta ekki risið undir þeim viðhaldskostnaði, sem á þeim hvílir.

Mjer finst, að ríkissjóður eigi ekki að gera upp á milli farartækjanna, því að allir vita, að vegum er slitið af öllum farartækjum, og hvar eiga þá takmörkin að vera? Nú er deilt um flutningavagna og bifreiðar, hvort slíti vegunum meira, og þó dettur engum í hug að leggja skatt á vagnana. Það ef vitanlegt, að Biskupstungnamenn geta ekki eins notað bifreiðar eins og t. d. Flóamenn eða Eyrbekkingar, en það geta ekki heldur allir landsmenn notað vagna, og hví þá ekki að leggja skatt á þá?

Nú er kunnugt, að verið er að leggja nýja vegi og akbrautir, í samræmi við kröfur tímans, og væri ekki nemasanngjarnt að leggja skatt á öll þau farartæki, sem nota slíka akvegi, en hverjum hefir dottið það í hug? Nei, mjer finst að ríkið eigi að vinna að því, að hægt sje að nota bifreiðar sem allra víðast, en það verður ekki gert með því að íþyngja þeim með sköttum og sýna þeim meiri ósanngirni en öðrum farartækjum.

Ekki get jeg skilið, hvernig háttv. frsm. (Þorl. G.) hefir reiknað út hvernig skatturinn komi niður á vegalengdir, að hann verði t. d. 21/2 eyrir á hvern km.; eða við hvað styðst það?

Mjer skilst, að þetta hljóti að byggjast á því, hvað aksturinn er mikill alt árið. Ein bifreið ekur svo og svo marga kílómetra, en aðrar færri eða fleiri. En hitt vita menn, að skatturinn gerir aksturinn til muna dýrari, og kemur í veg fyrir samkeppni á því sviði. Menn þurfa að hafa talsvert bein í hendi til þess að kaupa bifreið — eina eða fleiri — og reka þessa atvinnu, og menn ráðast síður í það þegar skatturinn er á kominn. Getur þá rekið að því, að atvinna þessi verði einskonar hringur, verði aðeins í fárra manna höndum, og þá er okrið komið,

Þar að auki er það óforsvaranlegt og okkur lítt sæmandi, er búum í þessu samgangnasnauða landi, að taka þann veg á móti nýjustu farartækjunum og þeim, sem flytja okkur þó nær menningu annara þjóða og kröfum tímans. Væri okkur að öllu leyti sæmra að bæta vegina svo, að þeir væru boðlegir þessum farartækjum, sem hljóta að eiga langa framtíð framundan, í staðinn fyrir að leggja skatt á þá fyrir að fara um þá vegi, sem telja má með öllu ófæra og eyðileggja bifreiðarnar svo, að þær endast ekki það hálfa hjer á móts við það, sem þær gera annarsstaðar.

Háttv. frsm. (Þorl. G.) varð skrafdrjúgt um hestana, og sagði að menn gætu notað þá. Það er vitanlega gott fyrir þá menn, sem það geta, en háttv. þm. ætti að vera kunnugt um það, að 1/6 landsmanna er útilokaður frá því að geta notað hesta. Hjer í Reykjavík má svo að orði kveða, að það sje frágangssök að eiga hest, þó ekki væri annars vegna en haganna eða hagleysisins. Og þó að hægt væri að leigja hest dag og dag, þá er það svo dýrt, að það er líka frágangssök; þessvegna komast menn ekkert út úr bænum, hvorki sjer til gagns nje skemtunar, ef bifreiðarnar væru ekki. Og það myndi mikla þýðingu hafa fyrir þær sýslur, sem nota nú þetta farartæki, ef bifreiðaakstur legðist niður, t. d. eins og í kjördæmi háttv. frsm. (Þorl. G.), þar sem flutningaleiðin á sjó er að jafnaði ófær, eða að minsta kosti miklum annmörkum bundið að nota hana.

Jeg held, að jeg hafi í nál. mínu fært ástæður fyrir því, að ekki sje hægt að bera saman bifreiðaakstur hjer og í öðrum löndum. Þar eru bifreiðarnar að mestu leyti skoðaðar sem „luxus“, enda sporvagnar um allar borgir, til mikilla þæginda fyrir menn, og járnbrautir um löndin þvert og endilangt og svo að segja heim að hvers manns dyrum, og allur akstur langtum ódýrari heldur en með bifreiðunum. Þar er ekkert gjald á almenningi fyrir að nota sjer slík farartæki, nema á bifreiðunum, af því svo er álitið, að þær sjeu að mestu leyti óþarfar, og að minsta kosti þegar orðnar altof margar.

Hjer á landi er alt öðru máli að gegna; hjer eru ekki önnur farartæki en hestar, hestvagnar og bifreiðar, og enginn hefir ennþá mótmælt, að af því tvennu sjeu bifreiðarnar bestu farartækin, á meðan því verður komið við að nota þær. Á veturna verða þær ekki notaðar, enda leggjast þá landferðir niður að mestu leyti, svo það hefir ekki svo mikið að segja. Það er satt, að enn sem komið er eru bifreiðar mest notaðar hjer í kring um höfuðstaðinn og austur yfir fjall, en það er aðeins tímaspursmál, hvenær þeim fjölgar annarsstaðar á landinu. Þær fylgja akbrautunum eftir út um allar sveitir. Það hefir reynslan sýnt, þótt ekki sje hún gömul, að bifreiðarnar finna nýja og nýja vegi með hverju árinu.

Það er yfirleitt kostað hjer svo litlu til allra samgangna, að furðu gegnir, ef taka á þá stefnu upp að leggja þunga skatta á þau einu farartæki, sem til frambúðar eru í landinu og bæta úr samgönguleysinu. Þetta er öfugstreymi, sem jeg get á engan hátt felt mig við.

Jeg vík aftur að því, sem háttv. frsm. (Þorl. G.) sagði, að jeg væri fulltrúi þeirra manna, sem mest nota bifreiðarnar. Þetta er alveg rjett, en jeg get ekki sjeð nokkurt rjettlæti í því að íþyngja fremur þessum mönnum heldur en öðrum á landi hjer, að leita út úr bænum, sjer til skemtunar og hressingar.

Aðalástæður mínar á móti frv. þessu eru þá þessar: Það á ekki að taka bifreiðarnar út úr og leggja sjerstakan skatt á þær, miðað við hestorku; það mætti þá með sama rjetti leggja skatt á hvern einasta hest í landinu, sem um vegina fer. Því sje þetta vegaslit athugað, sem bílarnir eiga að gera, og skatturinn lagður svo á hestaflið, þá mætti bera það slit saman við tilsvarandi hestafjölda og jafna skattinum niður eftir því. Og hjer er ekki því að heilsa, að lagður hafi verið sjerstakur vegarspotti eingöngu bifreiðanna vegna, en það hefir þó verið gert með tilliti til annara flutningatækja.

Að svo mæltu sje jeg ekki ástæðu að ræða frekar um þetta, enda allar ástæður mínar að finna í nál. mínu. Treysti jeg svo, að háttv. þm. athugi mál þetta með fullri sanngirni og án þess nokkur hreppapólitík komi til greina eða hvort þeir hafi bifreiðar hjá sjer eða ekki, því að önnur sveitarfjelög eiga sínar sanngirniskröfur líka.