18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

28. mál, bifreiðaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg finn ástæðu til að þakka háttv. fjhn. fyrir góðar undirtektir þessa máls, og sje ekki ástæðu til að fara út í einstakar breytingar hennar, enda eru þær flestar smávægar og breyta litlu tekjum ríkissjóðs frá því, sem stj. hafði gert ráð fyrir. Jeg hefi heldur ekki neinu við að bæta það, sem háttv. frsm. meiri hl. (Þorl. G.) sagði frv. til rjettlætingar.

Mun jeg því eingöngu snúa orðum mínum til hv. frsm. minni hl. (Jak. M.), því að við hans ræðu hefi jeg ýmislegt að athuga. Það virðist helst vaka fyrir honum, að bílaskatturinn sje svo hár, að bifreiðaakstur verði tilfinnanlega dýr, og helst ekki neinum fært að stunda þá atvinnu í framtíðinni, nema þá með okurverði. Það er nú víst, vægast sagt, að hjer gerir frsm. (Jak. M.) úlfalda úr mýflugu, en hvort það er gert af ásettu ráði og vísvitandi eða sprottið af misskilningi, það skal jeg láta ósagt.

En hitt hefir verið talað um, að skattur þessi muni aðeins nema. frá 2–300 kr. á ári fyrir hverja bifreið, og 1919 var það upplýst hjer á þingi, og því hefir enn ekki verið mótmælt, að að meðaltali muni hver bifreið aka inn á ári 16–20 þús. kr., svo þá ætti hv. frsm. minni hl.(Jak. M.) að skiljast, að þessi 2–300 kr. skattur geti ekki haft mikla þýðingu í rekstri þessarar atvinnu. Svo eru það heldur ekki bifreiðaeigendurnir, sem eiga að borga þennan skatt; það eru notendurnir, eða þeir, sem með bifreiðunum ferðast, og það munar þá engu, því að hjer getur aðeins verið um fáa aura að ræða í hvert skifti. Þessi hugarsýn háttv. frsm. (Jak. M.) er því loftsýn, og ekkert annað.

Háttv. frsm. minni hl. (Jak. M.) sagði, að deila mætti um, hvort bifreiðar eða hestar slitu meira vegunum. Jú, það má deila um alla hluti og bera brigður á svo margt, en í þessu máli held jeg að engum blandist hugur um, að minsta kosti þegar litið er á það með alvöru, hvort valdi meiri skemdum, enda er skatturinn einmitt lagður á bifreiðarnar með þetta fyrir augum, og það annarsstaðar en hjer.

Með þessu er ekki verið að leggja stein í götu þessara hentugu farartækja, sem allir játa, að hljóta að eiga framtíð hjer á landi. Skatturinn á einmitt að verða til þess, að bygðir verði nýir vegir og aðrir endurbættir, svo samboðnir verði bifreiðunum, því það má skoða þetta frv. og skattinn sem undirstöðu þess, er byggja á vegina í landinu á. Það má kannske segja, að rjettara væri að gera vegina svo, að þeir þyldu bifreiðarnar, en það er bara ekkert fje fyrir hendi til þess að gera það nú, og því er þetta ráð tekið, og virðist öll sanngirni mæla með því.

Báðum háttv. frsm. kom saman um það, að ódýrara væri að ferðast í bifreiðum, þar sem það er hægt, heldur en á hestum, og frsm. meiri hl. (Þorl.G.) nefndi það sjerstaklega, að flestir austan fjalls, þótt nógan hestakost hefðu, teldu það langtum ódýrara að skjótast hingað í bifreið heldur en á hestum, og þurfa svo að kosta þá hjer á meðan þeir stæðu við. Þetta mun líka vera rjett, og sýnir ekki annað en það, að óhætt er að leggja skattinn á bifreiðarnar vegna notenda. Þeim mun ekki finnast það ókleift að greiða þennan skatt.

Það er nú svo með hvert mál, eins og á það er litið. Og því má deila um það, hvort bílar sjeu fremur en hjer „luxus“ í þeim löndum, sem bæði eiga járnbrautir og sporvagna. En hitt er vitanlega fjarstæða ein, sem háttv. frsm. minni hl. (Jak. M.) hjelt fram, að járnbrautir lægju heim að hverjum bæ í öðrum löndum. Það er víða um langan veg að fara á járnbrautarstöðvarnar, og er þá ekki nema eðlilegt, þó að til þess sjeu notaðar bifreiðar.

En aðalatriðið virðist mjer þó það, að þessi skattur er fjórum sinnum lægri hjer heldur en í Danmörku, og skiftir engu fyrir bifreiðaeigendur, nema þá eina, sem eiga „prívatbíla“, en það eru þá þeir menn, sem ekki munar mikið um að greiða þennan skatt.