18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

28. mál, bifreiðaskattur

Magnús Jónsson:

Hjáttv. frsm. meiri hl. fjvn. (Þorl. G.) kom mjer til þess að standa upp. Sýndist hann vera mjög vel ánægður með það, hvernig hann hefði gengið frá málinu. Háttv. frsm. minni hl. (Jak. M.) hefir nú sýnt fram á það, að frv. þessu er svo varið, að tæpast mun ástæða vera til fyrir háttv. deild að samþykkja það.

Enda þótt margt sje að athuga við þetta frv., sem full ástæða væri til að minnast á, þá mun jeg þó sleppa því, en minnast aðeins lítillega á nokkur atriði.

Það er tekið fram í ástæðum frv., að óþarfi sje að undanþiggja skatti þau farartæki, sem mest spilli vegunum. Sýnist orðalag þetta benda til þess, að reynslan hjer sje sú að skattleggja þau farartæki, sem spilli vegunum. En hjer er í raun rjettri um það að ræða, hvort rjett sje eða sanngjarnt að leggja aðeins skatt á eitt farartæki, sem þó er álitamál um, hvort meira spilli vegunum en önnur, en á hinn bóginn alveg víst, að er stórþarft og hentugt fjölda manna.

Það er raunar sagt, að þessum skatti eigi að verja til þess að bæta vegina, sem bifreiðarnar fara um, og bætti það nokkuð úr skák, en jeg og fleiri eru nú hræddir um, að svo kynni að fara, að þessi skattur lenti aldrei þar, heldur í hítina miklu, sem flest gleypir.

Það er talað hjer um bíla-„luxus“ og einnig er sagt, að meira sje hjer af bílum en í nokkrum öðrum bæ jafnstórum. Sannleikurinn er sá, að bifreiðar hafa alstaðar þótt nauðsynlegar og gefist vel, en mismunandi ástæður geta valdið því, að minni sje þörf bíla í einu landi en öðru.

Þar, sem járnbrautir liggja eins og net um alt landið, verður auðvitað bílaþörfin minni. Mundi svo vera hjer líka, að ef járnbraut lægi hjeðan austur í sýslurnar, þá væri nauðsyn þeirra minni og fjöldi þeirra eigi jafnafsakanlegur seni hann nú er.

Jeg skal ekki neita því, að bílar sjeu hjer stundum notaðir að óþörfu, og þá eru þeir „luxus“. En mjer er spurn. Hvað. er það, sem ekki má slíkt um segja? Jafnvel fæði og klæði, hinar mestu frumnauðsynjar hvers manns, má gera að luxus og er gert að luxus, og má enginn heimska sig á að fara af þeim sökum að leggja luxusskatt á slíkt.

Það hefir verið getið um, að ástæða væri til að skattleggja bifreiðar vegna kostnaðar þess, sem hið opinbera hefir af þeim, eftirlit o. fl. Hefði frsm. meiri hl. (Þorl. G.) átt að taka þetta vel fram, því að það er fyllilega rjettmætt að leggja dálítið á bifreiðar til að standa straum af þessum kostnaði, en það yrði aldrei nema eilítill partur af þessu gjaldi, sem hjer er ráð fyrir gert.

Það er eigi rjett hjá frsm. meiri hl. (Þorl. G.), að viðhald vega lendi ætíð á öðrum en bifreiðanotendum. Þetta veltur á ýmsu, og munu eins oft sömu mennirnir verða að kosta viðhald veganna sem greiða eiga þennan skatt, og er þá auðsæ sú ósanngirni, að mennirnir skuli bæði þurfa að kosta viðhald veganna og einnig borga skatt í ríkissjóð fyrir skemdirnar á þessum sömu vegum.

Það er erfitt að dæma um það, hvað sje óþarfur akstur og hvað ekki. Er það t. d. óþarfi, að fólk hjer í Reykjavík fer upp í sveit einu sinni eða tvisvar á sumri sjer til hressingar? Jeg býst við því, að margir af háttv. þm. hafi verið hjer að sumarlagi og viti, hve holt og skemtilegt það er að vera hjer innilokaður, og hver löngun er hjá mönnum til þess að njóta sveitarinnar dálitinn tíma. En til þess að komast þetta eru engin önnur ráð en fara það í bifreiðum. Raunar mætti segja, að menn gætu farið þetta fótgangandi, en við því er það að segja, að sumir eru nú illa fallnir til gangs, gamalt fólk eða heilsuveilt, og enn er svo langt til margra fegurstu staðanna, að of langan tíma tekur að fara það fótgangandi. Jeg held, að jeg megi því fullyrða, að í þessu tilliti hafi bílarnir orðið bænum hið mesta lán. En svo er þetta kallaður luxus, og á að straffast með fjegjaldi ærnu.

Jeg hefi skrifað það niður hjá mjer eftir háttv. frsm. (Þorl. G.), að sjórinn væri ódýr braut. Það er nú eftir því sem það er skilið. Þessi braut er stundum nokkuð ósljett, og krefst því traustra og dýrra farartækja. Auðvitað verðum við að nota sjóinn mikið til samgangna, en það er nú svo með hann sem annað hjer, að hann er erfiður viðfangs, og ekki að jafna við leiðum við Noregsströnd t. d. innan skers. Má óhætt segja, að siglingar með ströndum Íslands standi ekki að baki siglingum yfir úthöfin að hættu, og þarf því að hafa alt til þess mjög vandað og dýrt. ef vel á að vera.

En það er sjerstaklega eitt atriði, sem jeg vildi minnast á, og ekki hefir verið tekið fram í nál. minni hl., en sem mjer finst eitt nægilegt til þess, að skattur þessi yrði ekki samþyktur. Það hafa allir gengið út frá því, að það mundi eigi leggjast annað á flutninginn en skattsupphæðin. En þetta er rangt. Skattsupphæðin hlýtur að aukast allmjög og kannske margfaldast á notendunum, eins og jeg mun nú sýna. Bílstjórarnir reikna sjer nú rentur af kaupverði bílsins, slit, rekstrarkostnað. kaup sitt o. fl., og auk þess ætla þeir fyrir þessum skatti. Fari nú svo, sem ekki er óeðlilegt, að þessi skattur dragi út notunum, þá yrði bílstjórinn að áætla gjöldin hærri við það, að notkunin er minni. Það er með öðrum orðum, að óleikurinn, sem skatturinn gerir, er tvöfaldur. Hann eykur gjöld bifreiðaeigenda, eins og sagt hefir verið. En hitt er engu minna vert, að hann mun rýra tekjurnar, með því að kippa úr akstrinum. En það verður þá einnig að koma fram í takstanum, því að bifreiðaeigendur verða að fá sitt upp borið.

Hæstv. fjrh. (M. G.) segir, að bílar muni keyra inn 16–20 þús. kr. á ári, en næmi þetta svo eigi nema 10–12 þús. kr., skattsins vegna, þá yrði bílstjórinn að leggja meiri skatt á notendur, og þeir gætu jafnvel komið til að greiða hann margfaldan. Vildi jeg biðja háttv. þm. að athuga vel þetta atriði. Það er einnig vert að líta á það, að þessi svokallaði „luxusakstur“ lækkar gjöldin fyrir þá, sem nauðsynlega þurfa að nota bifreiðar.

Ef „luxusaksturinn“ hætti, þá yrði afleiðing þess sú, að menn þeir, sem nóta þurfa bílana, bæði austan fjalls og annarsstaðar, yrðu að greiða sem svaraði þeirri upphæð, er luxusakstrinum nemur, meira fyrir flutning sinn.