21.05.1921
Efri deild: 79. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

Starfslok deilda

Sigurður Jónsson:

Það verður líklega lengi í minnum haft, hvað þetta þing hefir orðið langt, enda gengur það víst, hvað þetta snertir, næst aukaþinginu 1918. Hæstv. forseti mintist áðan á störfin, sem hafa verið af hendi leyst hjer í háttv. deild, og hve vel þau hefðu gengið, og þakkaði þetta góðri samvinnu og samkomulagi okkar þingmanna. En jeg vil þá taka það fram, að hæstv. forseti hefir ekki átt hvað minstan þátt í því, heldur einna mestan. Það eru ýmsir eiginleikar, sem þarf til þess að vera foringi, á hvaða sviði sem er. Það þarf víðsýnt og glögt auga. Þar næst röggsemi, því það er ekki nóg að sjá hvað gera þarf, heldur verður líka að framkvæma það. Loks þarf lipra lund og ljúfa framkomu, svo að hinir kostirnir fái notið sín til fulls. — Allir þessir eiginleikar mætast hjá hæstv. forseta og hafa átt sinn drjúga þátt í því að ljetta undir og flýta störfum deildarinnar.

Eftir mínum skilningi mun það hafa vakað fyrir mönnum, þegar þessi deild var stofnuð, að hjer skyldi ráðdeildin og lögfestan eiga sæti. — Jeg skal ekki fara neitt út í það, hve vel deildin hefir staðið í stöðu sinni, en skal aðeins taka það fram, að hafi hún nokkurntíma náð þessu markmiði, þá er það undir stjórn þessa hæstv. forseta og ef hún mætti að fullu mótast af þeim eiginleikum, sem hann á til að bera, þá tel jeg vel farið.

Það er því ekki einasta fyrir störf hæstv. forseta á þessu þingi, sem jeg vil leyfa mjer að þakka honum, heldur og fyrir þau góðu áhrif og heilnæma andrúmsloft, sem hann hefir veitt hingað inn í deildina, síðan hann tók að stýra störfum hennar.

Bið jeg svo háttv. deildarmenn að standa upp, í virðingarskyni við hæstv. forseta, og árnum honum allra heilla. (Allir þingdeildarmenn stóðu upp).