18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Jeg skal taka það fram þegar, að enda þótt jeg standi upp nú, þá er jeg í raun og veru búinn að svara ræðu hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), en sökum þess, að forseti kvaddi mjer hljóðs, vil jeg eigi undan skorast, jafnvel þótt jeg hefði ekki ætlað að taka til máls.

Háttv. frsm. minni hl. (Jak. M.) jafnaði þessu gjaldi við lestagjald af skipum og sagði, að jeg hefði misskilið sig. En þetta er ekki rjett. Jeg sagði aðeins, að það mætti leggja á bílana meira en sem svaraði lestagjaldinu. því að þó að það gangi ekki til að bæta sjóleiðina, þá eru ýms önnur gjöld, sem skip verða að borga, svo sem vitagjald, hafnargjöld o. fl., sem beinlínis fara til þess að bæta leiðina fyrir þau.

Háttv. frsm. (Jak. M.) sagði einnig, að ef bílar yrðu skattaðir, þá bæri einnig að taka skatt af öðrum flutningatækjum, svo sem hestvögnum. En þetta þarf ekki að vera rjett, því að það er óvefengjanlegt, að bifreiðar skemma vegi meira en vagnar, því að afl vjelarinnar kemur þar til, auk akstursþungans, og rótar upp vegunum, einkum ef þeir eru vondir.

Háttv. frsm. (Jak. M.) sagðist ekki vera viss um það, á hverju jeg hefði bygt útreikning minn á því, hversu hátt gjald kæmi á hvern kílómeter, og dró í efa, að hann væri rjettur. En þessi útreikningur er auðveldur, því að viti maður hversu mörg hestöfl vjelin í bílnum hefir, hversu margar ferðir hann fer og hve löng hver leið er, þá er ekki annað en deila skattinum niður á þetta. Auk þess gerði jeg ekki ráð fyrir að bílarnir gengju eins oft eins og t. d. hæstv. fjrh. (M. G.) gerði ráð fyrir, og er það enn því til sönnunar, að skatturinn mundi ekki verða hærri en jeg sagði hann á hvern km.

Háttv. frsm. (Jak. M.) sagði einnig, að ef skatturinn yrði lagður á, þá mundi það leiða til þess, að bílar kæmust á fárra manna hendur og verða einokun. Færi nú svo, að þetta reyndist rjett, þá er hægt að ráða bót á því, með því að setja hámarksverð á akstur. Hann gerði einnig mikið úr því, að þetta væri framfarafyrirtæki. Má vel vera að svo sje, en það er ekki hægt fyrir alla að nota þau, og er því eigi nema sanngjarnt, að þeir greiði, sem gagnið hafa, en hinir losni við það. Annars eru nú þessi framfarafyrirtæki þjóðinni talsvert dýr, því að þau taka menn á besta aldri og vel vinnufæra til að stjórna sjer, sem mikil þörf væri á til annarar vinnu.

Það er ekki rjett hjá háttv. 4. þm.

Reykv. (M. J.), að við viljum stuðla að því með þessum skatti, að Reykvíkingar komist ekki í burtu úr bænum. Við viljum einmitt hjálpa þeim til þess, með því að gera vegina betri, svo að þeir geti komist hraðar yfir.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) sagði, að sjóferðir væru ekki ódýrari en landferðir, af því að farartæki á sjó væru svo dýr. En öðru máli er að gegna með bílferðir á landi. Þær krefjast góðra vega, sem ríkissjóður verður að halda við, og til þess á að nota skattinn.

Jeg held, að jeg þurfi svo ekki að svara háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) fleiru. Hann sagði ekki annað en frsm. minni hl. (Jak. M.) var búinn að segja.