18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Hæstv. fjrh. (M. G.) gerði lítið úr því, hvað þessi skattur á bifreiðum væri hár, eins og hann væri ákveðinn, en það mun vera um einn tíundi hluti af veiði bifreiðanna, eins og það var fyrir stríðið. Bílarnir verða því að vinna upp tvöfalt verð sitt á jafnlöngum tíma og áður einfalt, og verða þeir að hækka flutningsgjöldin í hlutfalli við það.

Hæstv. fjrh. (M. G.) gat um það, að því hafi verið haldið fram á Alþingi 1919, að einstöku bifreiðar hafi keyrt sjer inn 16–20 þús. kr. Þótt hann haldi þessu fram, og því hafi ekki verið mótmælt, þá held jeg, að þetta sje bara út í loftið. Það kann að vera, að þess finnist dæmi, en að bílar keyri inn slíka upphæð, 20 þús. kr. á ári, að jafnaði, nær ekki nokkurri átt.

Í raun og veru hefir ekkert komið fram, sem geti rjettlætt þennan skatt. Hæstv. fjrh. (M. G.) og hv. frsm. meiri hlutans (Þorl. G.) hafa farið í kring um það eins og kettir kring um heitan grautarpott, hversvegna eigi að undanskilja bíla frá öðrum farartækjum. Þó það sje vegaskattur, er ekki rjettlátara að láta þá gjalda hann heldur en önnur farartæki. Það er ómótmælanlega ósanngjarnt að láta aðeins eina tegund farartækja greiða slíkan skatt. Mjer er ekki kunnugt um, að slíkur skattur sje á neinum öðrum. Hæstv. fjrh. (M. G.) talar um lausafjárskattinn, en sá skattur er af alt öðrum toga spunninn, og skyldi jeg ekki leggjast á móti álíka skatti á bifreiðar.

Háttv. frsm. meiri hl. (Þorl. G.) talar um, að skatturinn af bílum ætti að verða til þess, að gerðir væru vegir með sjerstöku tilliti til bíla. Jeg verð nú að segja það, að þá hefði átt að leggja skatt á alla vagna og kerrur, þegar byrjað var að leggja vegi fyrir þá, því að þá stóð eins á. Það hefir engum dottið í hug, að það yrði ókleift að ferðast með bíl, þótt skatturinn kæmist á, en jeg tel það ranglátt og ekki heldur styðjast við neina sanngirni.

Háttv. frsm. (Þorl. G.) talaði um, að setja mætti hámarksverð á flutningsgjöldin, og koma þannig í veg fyrir okur, þó að bifreiðaflutningar kæmust í fárra manna hendur. Við höfum nú dæmið, sællar minningar, og allir vita hvernig það hefir reynst. Og ef samkepnin minkaði, þá má geta nærri hvernig færi.

Að lokum vil jeg minnast á það, að hann sagði, að bílferðir væru dýrar af því, að það þyrfti menn með. En hvaða flutningatæki eru það, sem ekki þarf að hafa menn með?

Jeg býst heldur ekki við, að háttv. frsm. (Þorl. G.) vildi leggja til, að bílum væri slept við skatt, ef þeir gætu leikið lausum hala og farið út um alla vegi mannlausir. En hvað það snertir, að það sje ódýrara að nota hestvagna, þá þarf þó að hafa, ekki einungis mann með, heldur hest líka, og það miklu lengri tíma.

Að lokum sje jeg ekki betur en báðir formælendur skattsins, háttv. frsm. meiri hl. (Þorl. G.) og hæstv. fjrh. (M. G.), hljóti að ganga inn á þá braut, að skatta beri öll farartæki, til þess að afla fjár til vegabóta og vegagerðar í landinu.