18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Jeg vildi aðeins svara háttv. frsm. minni hl. (Jak. M.) nokkrum orðum. — Hann var að tala um, að þótt bílar ljeki lausum hala mannlausir, mundi þurfa að borga af þeim skatt. En þar sem jeg tók fram, að það þyrfti mann með bíl, meinti jeg það, að menn geta ekki farið í bíl nema að hafa mann til þess að aka honum; en það þarf ekki mann með hestinum, og hesturinn verður því ódýrari en bíll, því að flestir eru einfærir á dróginni. Jeg hugsa, að ef 4 Reykvíkingar færu í útreiðartúr, þá mundu þeir komast allir einfærir, að minsta kosti úr hlaði, en það gæti máske verið, að það þyrfti að reiða einn þeirra heim aftur. Það er óþarfi að gera svona mikið úr „luxus“-bílferðum austur um sveitir, og það er munur hvort það er hestur eða bíll, sem notað er. Hesturinn er framleiddur hjer, en bílar eru útlendir. Og það er fleira en bílarnir sjálfir, sem útheimtist til ferða þeirra, og þarf að sækja alt til útlanda. En hestarnir og alt, sem þeir þurfa, ef rjett er á haldið, er framleitt hjer og eflir atvinnu í landinu.

Það er fjarri því, að þótt jeg mæli með því, að þessi skattur nái fram að ganga, að skilja eigi orð mín svo, að jeg vilji leggja stein í götu þessara framfarafarartækja.

Jeg vil taka það fram, að jeg og mínir sýslubúar viljum ekki borga veg, sem aðeins er fyrir Reykvíkinga, nema þeir borgi hann líka.