23.04.1921
Efri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

28. mál, bifreiðaskattur

Fjármálaráðherra, (M. G.):

Það er misskilningur hjá háttv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.), að þessi skattur sje eftir frv. hærri hjer en hann er í öðrum löndum. Í Danmörku veit jeg til, að hann er fjórum sinnum hærri en tiltekið er í stjórnarfrv., og hefir hann þó verið færður niður í Nd. Mjer er einnig kunnugt um, að á Norðurlöndum yfirleitt er hann áþekkur því, sem er í Danmörku.

Háttv. þm. (G. Guðf.) taldi 5. gr. vera talsverða bót á frv., því að þá væri víst, að skatturinn færi til viðgerðar vegunum, sem væri bæði rjettlátt og nauðsynlegt. En hvernig færi nú, ef stjórnin tæki til sinna ráða og segði: „Þarna hafið þið fjeð til vegagerðanna; nú látum við ekki meira“. Skyldi þá ekki hætt við því, að þetta fje, sem í sjóðinn kæmi, hrykki skamt til viðhalds vegunum? Það er, eins og jeg tók fram áðan, aðeins til fyrirhafnar að vera að stofna þennan sjóð, sem svo ekki hrekkur til hvort sem er. Það er ekki nema sanngjarnt, að þeir, sem slíta mest vegunum, leggi dálítið af mörkum til viðgerðar þeim, og það eru vitanlega þeir, sem fluttir eru, en ekki þeir sem flytja, sem mundu greiða skattinn með hækkuðum flutningsgjöldum, og jeg skal bæta því við, að jeg álít, að flutningsgjald sje ekki svo hátt hjer enn, að ekki megi bæta við það, — að minsta kosti virðist notkun bifreiðanna ekki bera vitni um það.