04.05.1921
Efri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Jeg hefi ekki hugsað mjer að fara í neinar kappræður um málið, en hæstv. fjrh. (M. G.) veit, að jeg hefi frá upphafi verið á móti þessum skatti.

Nefndin vill ekki gera bifreiðum hærra undir höfði en öðrum samgöngutækjum, en hún vill aftur á móti ekki íþyngja þeim framar öllum öðrum tækjum. Strandferðaskipin eru styrkt með stórfje, en gjalda hverfandi lítinn skatt. Ef rjett er að leggja skatt á bifreiðar og leggja fjeð í vegasjóð, þá er líka rjett að tolla farmiða með skipum og leggja í skipasjóð. Það er sjálfsögð afleiðing og samkvæmni við hitt.

Þótt Danir leggi þennan skatt á, þá er það, eins og tekið er fram í nál., af því að þeir höfðu áður komið upp almenningsflutningatækjum, góðum og ódýrum, en því er ekki til að dreifa hjer. Þar voru bifreiðar því fremur óþarfar.

Hann sagði (fjrh. M. G.) að aðallega væri not að bifreiðum í Reykjavík og grendinni, en jeg vil fullyrða, að notkun þeirra sje orðin miklu almennari. Ef sjómaður þarf að fara suður með sjó, þá fer hann í bifreið. Ef fátækur maður er fluttur á sveit sína, þá er það gert í bifreið, og ef læknir er sóttur og flýti þarf við að hafa, þá er það í bifreið. Alstaðar eru nú bifreiðarnar til meiri eða minni nota hjer, og alveg eins notaðar af fátæku fólki og þeim, sem efnaðir eru.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að bifreiðastjórarnir hefðu mikið upp úr þessari atvinnu sinni, og þyldu því vel þennan skatt. En jeg vil benda hæstv. ráðherra (M. G.) á það, að skatturinn kemur ekki til að hvíla á þeim, heldur þeim, sem nota bifreiðarnar, því þess er að vænta, að stjórnarráðið ákveði taxtana, og taki þá tillit til skattsins, sem hvílir á bifreiðunum.

Jeg verð fyrir hönd minni hlutans að taka það fram, að við álítum það ekki rjett að fara að taka þannig eitt flutningstæki út úr og leggja skatt á það. (Fjármálaráðh.: Skipin eru líka flutningstæki, og það er lagður skattur á þau). Sá skattur er svo lítill, að vart er hægt að segja að teljandi sje, enda njóta þau líka styrks, sem ekki má gleyma.

Samanburðurinn hjá hæstv. fjrh. (M. G.) við Danmörku segir alls ekki neitt. Hann sýnir aðeins þann reginmun á flutningum þar og hjer. Þar eru járnbrautarlestirnar aðalflutningatækin, en við höfum enn ekki náð lengra en fram til bifreiðanna.

Jeg skal svo ekki þreyta háttv. deild með lengri ræðu, en læt nú atkv. skera úr um þetta mál.