11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

28. mál, bifreiðaskattur

Eiríkur Einarsson:

Þingið hefir gengið inn á þá braut að styrkja með fjárframlögum samgöngur á flóum og fjörðum og með ströndum fram. Nú er það vitanlegt, að sumar sveitir eru svo settar, að þær geta ekki orðið þessa styrktarfjár aðnjótandi, í því sambandi hljóta fyrst og fremst að koma til greina uppsveitirnar, sem liggja langt frá sjó. Býst jeg við, að fulltrúum Árnesinga sje báðum minnisstætt ástandið þar.

Í fyrra fóru bændur í upphreppum Suðurlandssveitanna að brjótast í því að fá sjer bifreiðar til flutninga til og frá kaupstöðunum, eins og jeg hefi getið um fyr við umræðu þessa máls hjer í deildinni. En vegir eru þar svo vondir, að það er með herkjum hægt að koma bifreiðum áfram eftir þeim. Vegna þess, hvað vinna er orðin dýr og fólki fáu á að skipa, þá er nær ógerningur fyrir bændur að flytja alt á hestum eða hestvögnum, slíkur tími sem í það fer þar í uppsveitunum. Það er því óhjákvæmilegt fyrir þá að reyna til að koma flutningum sínum fyrir á annan hagkvæmari hátt. Þá grípa þeir til þess að reyna bifreiðar, eins og jeg hefi áður sagt.

Þegar nú er á það litið, hvað dýrar bifreiðar eru, og annars vegar vegir þar austur frá svo vondir, að þeir slíta afarfljótt flutningatækjunum, þá virðist það skjóta nokkuð skökku við viðleitni þingsins í að styrkja samgöngur með ströndum fram, ef fara á að íþyngja uppsveitamönnum með því að skatta þau tæki, er þeir nota til erfiðra aðdrátta, þó á landi sje. Jeg hjelt að minsta kosti, að háttv. samþm. mínum (Þorl. G.) mundi renna blóðið til skyldunnar í þessu, og því ekki leggjast á móti brtt. minni. Hann spurði, hversvegna þessar bifreiðar ættu ekki að borga eins og aðrar, úr því þær slitu eins mikið vegunum. Þessu hefir hann sjálfur og meðnefndarmenn hans að mestu svarað, með því að rjettlæta skattinn, eigi síst með því að leggja hann sem „luxus“ -skatt á óþörfustu tækin. Samkvæmt því eiga þær bifreiðar, sem einungis eru hafðar til nauðsynjaaðdrátta sveitamanna, alls ekki að skattast. í samræmi við þetta er í frv. lagður fjórfaldur skattur á mannflutningabifreiðar á við þær, sem ætlaðar eru til vöruflutninga.

Samkvæmt þessu öllu saman hlýtur það að vera rjett að undanskilja algerlega skatti þær bifreiðar, sem hafa alveg samskonar hlutverk og bátar þeir, sem styrktir eru til ferða með ströndum fram. Jeg held, að það þurfi ekki að verða neinum sjerstökum vafa undirorpið, hvaða bifreiðar skuli undanþegnar skatti samkv. brtt. minni; það skal, eftir því sem þörf krefur, sannað fyrir lögreglustjóra, að þær sjeu aðallega notaðar til aðdrátta og flutningaþarfa sveitabænda. Hvergi í sýslufjelagi eru, að minsta kosti enn sem komið er, svo margar bifreiðar, að hjer geti orðið álitamál. Þarf því það atriði ekki að fæla neinn frá að samþykkja till. Mjer þótti rjett að miða undanþáguna við það, að bifreiðin væri aðallega notuð í þessu skyni. Má t. d. bóndi ekki gjalda þess, þótt hann ljeði bíl sinn í eina ferð á ári, er teldist til annara nota.

Að lokum vil jeg láta þess getið, að mjer finst þessi till. vera svo sanngjörn og sjálfsögð, að háttv. deildarmenn hljóti að gjalda henni jákvæði. En fari svo, að deildin felli hana, þá get jeg ekki greitt atkv. með frv., úr því sem komið er.