11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Eins og háttv. deildarmenn sjá, hefi jeg komið fram með brtt. á þskj. 552. Fyrri till. er nú eingöngu orðabreyting. Mjer finst rangt að orða það svo í 1. gr., að skatturinn renni í ríkissjóð, þar sem stofna á sjerstakan sjóð af honum. En þetta skiftir þó ekki miklu máli, því að altaf hlýtur að fara svo um skattinn sem síðar er ákveðið í frv., sem sje í 5. gr.

Hin till. fer fram á lækkun skattsins úr 8 kr. ofan í 5 kr. af hestorku hverri. Þetta finst mjer sanngjörn lækkun og eðlileg, því að eftir því sem nú er upplýst í málinu, mun þetta vera sá hæsti skattur, sem tekinn er af mannflutningabifreiðum í öðrum löndum. Hjer eru sárafáar „luxus“-bifreiðar, ekki nema svo sem 2–3, svo ósanngjarnt er að miða við þær; eðlilegast að miða við bifreiðar þær, sem flestar eru hjer, en það eru mannflutningsleigubifreiðar. Átta króna skattur er altof hár, og það er fimm kr. skatturinn auðvitað líka. Það verður eitthvað á annað hundrað kr. á hverja bifreið, og er það allálitlegur baggi, ekki síst þegar tillit er tekið til þess, að bifreiðar þurfa hjer meira viðhald og pössunarsemi en annarsstaðar. Vegir eru hjer slæmir, eins og háttv. þm. hafa iðulega getað sannfærst um. í bifreiðaferðinni, sem þingmenn fóru út úr bænum núna fyrir skemstu, tjáði einn bifreiðarstjórinn mjer, að þessi ferð borgaði sig ekki fyrir þann taxta, seni ekið væri eftir, sem er 50 kr. fyrir þá vegalengd. Og hann sagði ennfremur, að þó þessi ferð væri farin fyrir 100 kr. svo oft, að inn væri komið verð bifreiðarinnar, þá myndi hún verða útslitin eftir þann akstur, og þá væri ekkert til fyrir bensíneyðslunni eða kaupi bifreiðarstjóra. Þetta sagði þessi bifreiðarstjóri, og jeg skal geta þess, að hann er ekki bifreiðareigandi, heldur ekur fyrir annan, og hafði því enga ástæðu til að vera hlutdrægur. En af þessu mega allir sjá, hversu ósanngjarnt það er að leggja svona háan skatt á þessi samgöngutæki. Jeg skal geta þess, að jeg felst á brtt. 1. þm. Árn. (E.E.). Mjer finst sjálfsagt að undanskilja slíkar bifreiðar, enda er það í raun og veru í samræmi við það, að jeg vil ekki láta leggja skattinn á yfirleitt.