11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

28. mál, bifreiðaskattur

Jón Þorláksson:

Eins og háttv. deildarmenn kannast við, hefir því altaf verið haldið fram, og enda tekið fram í athugasemdunum við frv. frá stjórninni, að 15 króna skattur á hestorku hverri væri lægri en tíðkaðist annarsstaðar. Jeg skal játa, að jeg hafði tekið þetta trúanlegt, og ekki gert neinar athugasemdir um þetta við 3. umr. málsins. En síðan hefi jeg kynt mjer þetta nokkuð og komist að raun um, að þetta er mjög fjarri því að vera rjett. Í Danmörku hefir til þessa tíma verið gildandi lög, að af bifreiðum einstakra manna hefir verið goldinn 10–18 kr. skattur af hverri hestorku, en af leigubifreiðum 2. kr. (Fjármálaráðherra: Frá hvaða tíma eru þau lög?). Þau eru frá 1918. Svo var þessi 2 króna skattur hækkaður með bráðabirgðalögum upp í eitthvað 4 kr. Og það síðasta, sem jeg veit í málinu, er það, að lagt hefir verið fram frv. um að hækka hann upp í 5 krónur. Nálega allar þær bifreiðar, sem hjer eru til, ættu að komast undir þetta ákvæði, því að hjer eru sárafáar „luksus“-bifreiðar til. Sama er að segja um Noreg. Þar er gjaldið miklu lægra en hjer er gert ráð fyrir, hæst 7 kr. Auk þess er amtsráðum, bæjarstjórnum og sveitarstjórnum heimilað að setja gjaldið lægra fyrir bifreiðar, sem annast flutninga innan tiltekinna hjeraða. Svo er annað höfuðatriði, en það er það, hvað við skattinn er gert annarsstaðar. Í Danmörku er því þannig varið, að 1/20 partur skattsins rennur í ríkissjóð, en hitt rennur til sveitarstjórnanna, sem hafa vegaviðhaldið á hendi. Sama máli gegnir með Noreg. Skattur bifreiða, sem eru í förum innan tiltekinna hjeraða, rennur í sjóði, sem svo eru notaðir til viðhalds vega í þeim hjeruðum. Ef bifreið er í förum um fleiri hjeruð, skiftist skatturinn milli hjeraðanna. Af þessu má sjá, að í nágrannalöndunum er skattinum eingöngu varið til viðhalds vegum. Mjer þykir það því undarlegt, að meiri hluti nefndarinnar skuli leggja til, að numið verði burt ákvæðið um, að skattinum skuli varið til vegaviðhalds, eftir að það hefir náð samþykki þessarar deildar og einnig háttv. Ed.

Hæstv. fjrh. (M. G.) hjelt því fram, að það væri formsatriði, hvort gjaldið rynni í sjerstakan sjóð eða ekki. Ríkissjóður kosti hvort sem er meiru til vegaviðhalds en þessum sjóð nemi. En þetta er þó ekki þýðingarlaust atriði. Fyrst og fremst er eftir ákvæðinu í frv. ekki heimilt að nota sjóðinn til vegabóta alment, heldur til að greiða aukakostnað, sem stafar af því að gera bifreiðarhæft slitlag á vegi, umfram það, sem venjulegt malarslitlag kostar. Svo er það og venjan, þegar þröng er í búi og tekjuhalli í fjárlögunum, að klípa fyrst úr fjárveitingum til vegabóta. Og þá er það ekki þýðingarlaust að eiga sjóð, sem hvorki er undirorpinn vilja fjvn. nje Alþingis. Þetta á að vera sjerstakur sjóður, sem safnað er í og tekið er úr til sjerstakra afnota.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Jeg hefi álitið nauðsynlegt að gefa upplýsingar um, hvernig skattinum er fyrirkomið í Danmörku og Noregi, því að hjer hafa verið gefnar villandi upplýsingar um það efni. Og jeg verð að játa, að það er hart fyrir mig, sem stuðningsmann stjórnarinnar, að geta ekki treyst upplýsingum, sem hún setur í aths. við frv. sín.