11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

28. mál, bifreiðaskattur

Eiríkur Einarsson:

Hæstv. fjrh. (M. G.) mótmælti till. minni og taldi ósamræmi í henni fólgið. Þetta get jeg ekki viðurkent. Till. fer fram á að hlynna að bændum, sem eiga erfitt með aðdrátt allan að heimilum sínum, og er ekki frekar ósamræmi í því að veita þeim hlunnindi þessi en að veita hjeruðum, sem samgönguerfitt eiga á sjó, styrk til bátaferða. Mosfellssveitardæmi fjrh. (M. G.) á ekki við; er á jöfnum rökum bygt og ef neita ætti t. d. Austfirðingum um styrk til flóabáta þar, af þeim ástæðum, að þeir, sem byggju næst lendingarstað, ættu með því altof hægt aðdrátta. (Fjrh.: Skopleg heimska).

Þá andæfði háttv. þm. Ísaf. (J. A J.) og till. minni og sagði, að hún mundi aðallega hlynna að bifreiðaeigendum. En þá hefir hann ekki aðgætt, að till. nær aðeins til þeirra flutninga, sem bændur annast, eða eru þeirra aðdrættir; væri undanþágan ekki síður nauðsynleg, þótt þeir yrðu t. d. að leigja bílinn eða kaupa aðdrættina. Og ef bændur eiga bifreiðar, ber ekki að líta á þær öðruvísi en sem aðdráttartæki til heimilis þeirra. Má að því leyti jafna þeim til vagna og hesta. Mjer þykir nokkuð langt gengið, ef tolla á vöruflutninga bænda, sem erfitt eiga, en styrkja aðra til samgangna; það hefi jeg áður tekið fram, og á að vera auðskilið.

Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) benti á það, að Árnes- og Rangárvallasýsla hefði fengið mikið fje úr landssjóði til vegabóta, og er það rjett. En þetta hefir orðið þeim alldýrt, því að viðhald veganna legst þungt á þessar sýslur. Þær standa því ekki betur að vígi en aðrar, því að fjarlægðir eru þar geysimiklar. En þess er ekki að vænta, að háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) skiljist þetta; hann á öðru að venjast, sjófuglinn sá.