11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) upplýsti um bílaskattinn í Danmörku, skal jeg taka það fram, að jeg leit eins á það mál og háttv. 2. þm. Arn. (Þorl. G.) ; jeg tók stjórnina trúanlega. En jeg skal geta þess, að þetta hafði engin áhrif á afstöðu mína, því að jeg var mótfallinn skattinum yfirleitt, og fann því enga ástæðu til að afla mjer upplýsinga um það, hve vitleysislegur þessi skattur kynni að vera erlendis. En jeg get ímyndað mjer, að þessar upplýsingar hefðu ef til vill breytt afstöðu einhverra annara nefndarmanna, ef þær hefðu komið fyr. Þeir hafa bygt á samanburði við skattinn í Danmörku, og nú reynist svo, að það hafa verið rangar forsendur. En þó vil jeg ekki áfella stjórnina svo mjög fyrir þetta, því að eftir því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) upplýsti, hafði stjórnin fengið þessa skýrslu frá manni, sem hún hafði ástæðu til að taka trúanlegan. En í samanburði við skattinn í Danmörku er þessi skattur ranglátur. Það er eins og sá, sem upplýsingarnar hefir gefið hafi tekið meðaltal af skattinum þar, og lagt það meðaltal til grundvallar fyrir skattinum hjer, ef til vill þó með nokkurri hækkun. En bifreiðar hjer eru yfirleitt eins og þær bifreiðar í Danmörku, sem gjalda lægsta skatt, og get jeg ekki skilið, að hv. deildarmenn telji það sanngjarnt, að af þeim sje borgaður „luxus“-skattur. Jeg býst við, að nefndin hefði aldrei gengið að þessum skatti, ef henni hefðu verið kunnir allir málavextir.

Þá vildi jeg gjarnan fá upplýsingar um eitt atriði. Við hvað á að miða skattinn? Annarsstaðar er það venja að miða hann ekki við þá hestaflatölu, sem bifreiðar eiga að hafa, heldur er skatturinn reiknaður út eftir vissum „formúlum“, en í þessu frv. er ekkert í þá átt. Ef það er nú tilætlunin, að skatturinn miðist við þá hestaflatölu, sem upp er gefin af verksmiðjunni, þá mundi sú reyndin á verða, að skatturinn yrði margfalt hærri en annarsstaðar.

Þá verð jeg að telja vafasamt, að bifreiðar hjer geti borið þennan skatt. Þær eru yfirleitt lítið notaðar og gera varla betur en að bera sig, og þessi skattur gæti riðið baggamuninn.

Hæstv. frjh. (M. G.) spurði að því, viðvíkjandi Álafossferðinni, hvers vegna bifreiðareigandinn hefði látið fara þá ferð, úr því að á henni tapaðist. Þessu er því til að svara, að meðan vegir eru vondir, tapast á bifreiðaferðum, en bifreiðaeigendur geta ekki lagt ferðirnar niður, heldur verða þeir að vinna upp tapið þegar færðin batnar.

Þá hjelt háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.), að landssjóður hefði tapað meira á ferðinni en bifreiðaeigandinn, en jeg held að það sje ekki rjett. Jeg gat engan mun sjeð á veginum á heimleiðinni; hann var eins slæmur, en varla verri, en á leiðinni að Álafossi. Hann var satt að segja svo vondur fyrir, að hann gat ekki versnað.

Það er orðin þjóðtrú, að bifreiðar skemmi vegina meira en nokkurt annað flutningstæki, en þegar það hefir verið rannsakað, hefir annað komið í ljós. Fyrst þegar kom til mála hjer á Alþingi að leggja skatt á bifreiðar, fór nefndin, sem athugaði það mál í Ed., austur yfir fjall í bifreið. Og hún komst að þeirri niðurstöðu, að hestvagnar mundu valda meiri skemdum á vegum en bifreiðar. Þetta er ekki óeðlilegt, þegar þess er gætt, að bifreiðar fara miklu harðar yfir og renna á breiðari og mýkri hjólum.

Það er vitanlegt, að vegirnir slitna, ef þeir eru notaðir, og verður að sætta sig við það. En ef á að fara að skattleggja farartæki á landi, þó að samgöngur á sjó sjeu styrktar, þá er ekki sanngjarnt að taka bifreiðar út úr og leggja skatt á þær, því að þær eru ekki einu sökudólgarnir við vegaskemdir.