23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

1. mál, fjárlög 1923

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg hefi altaf búist við því; að hann mundi blása úr því horninu, þar sem háttv. 3. þm. Reykv. (J.Þ.) situr, enda er nú að því komið en dálítið furðar mig á því, að tilefnið skyldi tekið í því máli, sem hjer er á ferðinni.

Aðallega fáraðist hann um, að stjórnin vildi ekki víkja tveim mönnum úr embætti fyrirvaralaust, eða reka þá út á klakann, eins og jeg hefi leyft mjer að komast að orði. Annar er prófessorinn í hagnýtri sálarfræði. Hefi jeg skýrt frá, að jeg sje á móti að víkja honum úr embættinu, enda er mjög vafasamt, hvort nokkur sparnaður yrði að því, vegna þess, að það er álitamál, hvort hann getur ekki hafið kröfu á hendur ríkinu og fengið dómsúrskurð sjer í vil. Jeg vil ekki, að háttv. Alþingi gangi svo langt í sparnaðaráttina, að dómstólarnir geri aðgerðir þess ómerkar.

Hinn maðurinn er grískukennarinn við háskólann. Þessum manni hefir háttv. sparnaðarnefnd sjálf lýst yfir, að hún vilji veita 3 þús. kr. biðlaun þegar í stað og sömu eftirlaun, og auðvitað dýrtíðaruppbót. Einn maður úr háttv. nefnd hefir að vísu lýst yfir, að hann sje á móti því, en hinir munu því fylgjandi. Sparnaðurinn að þessari ráðstöfun yrði mjög tvíbentur.

Jeg tek þetta eingöngu fram til að sýna, hversu ranglát ummæli hv. 3.þm. Reykv (J.Þ.) eru um ósparnað hjá mjer í þessu sambandi.

Stjórnin hefir lýst því yfir, að henni þyki útgjöld til embættismanna landsins of mikil og vilji ráða bót á því; en ekki með því að reka menn út á klakann, heldur með því að reyna að finna upp nýtt kerfi, sem sje ódýrara en hið núverandi. Vona jeg að öllum sje ljóst, hvor aðferðin muni vera affarasælli; enda er hjer aðallega veist að einum manni, pólitískum mótstöðumanni hv. 3. þm. Reykv. (J.Þ.), og skal jeg fúslega játa, að hann hefir gengið rösklega fram í að fá þennan pólitíska andstæðing sinn rekinn úr embætti.

Hvað snertir afstöðu mína til kenslumálanna. skal jeg játa, að hún getur talist ósparleg en þar erum við háttv. 3. þm. Reykv. (J.Þ.) sammála, svo hann vill tæplega lasta mig fyrir skoðun mína á því máli. Annars ætti öllum að vera ljóst af ummælum stjórnarinnar í fjárlagaumræðunum, að hún vill spara. Þegar um embætti eins og hjer er að ræða, sem hafa verið veitt mönnum, sem lagt hafa á sig margra ára undirbúning mjög kostnaðarsaman, þá er of langt farið að taka þau af þeim að ástæðulausu. Fyrverandi stjórn hefir gert samning við háttv. 3. þm, Reykv. um Flóaáveituna, og býst jeg við, að honum mundi þykja súrt í brotið, ef núverandi stjórn riftaði honum fyrirvaralaust.

Eins og jeg hefi tekið fram mun stjórnin gera alt, sem í hennar valdi stendur, til að gera embættakerfið ódýrara.