22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg hafði í raun og veru ekki hugsað mjer að taka oftar til máls í þessu máli, en það hafa nú komið fram nokkrar athugasemdir, sem gefa mjer tilefni til að segja nokkur orð.

Það er þá fyrst, að hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) gerði þá fyrirspurn til stjórnarinnar, hver framkvæmd þessa máls mundi verða, ef þetta frv. yrði samþykt. Jeg verð að játa, að jeg er ekki undir það búinn nú að svara þessari fyrirspurn, en vil aðeins leyfa mjer að benda hv. þm. á það, að í sjálfu frv. er nokkuð vikið að þessu, og vil því með leyfi hæstv. forseta lesa upp þessi ákvæði frv.

Í fyrstu gr. frv. stendur:

„Ennfremur má í sömu tilskipun ákveða, að með reglugerð skuli sett ákvæði til varnar misbrúkun við sölu og veitingar þessara vína. Þó mega ákvæði þessi ekki ganga svo langt, að þau geri að engu undanþágu vína þessara frá ákvæðum aðflutningsbannlaganna“.

Stjórnin mun nú reyna að framkvæma lögin í þessum anda, en það er svo afskaplegt vandamál, sem í þessu frv. felst, að jeg er ekki undir það búinn að skýra frá, hvernig stjórnin mundi haga sjer í smáatriðum í framkvæmd þess.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) þótti fara illa á forminu í frv., að þar stendur, að með konunglegri tilskipun megi gera ljett vín undanþegin bannlögunum. Hv. þm. játaði þó, að þetta væri formsatriði. Jeg man nú ekki betur en að sendinefndin á Spáni bæri málið fram í þessari mynd fyrir Spánverja, og var það fyrirkomulag athugað af mjög hæfum mönnum.

Jeg skal að sjálfsögðu lýsa því yfir fyrir hönd stjórnarinnar, að hún mun strax gefa út tilskipun þá, er rætt er um í frumvarpinu, ef það verður að lögum.

Loks vildi jeg leyfa mjer að minnast á eitt atriði, sem fram hefir komið í umræðum þessa máls í dag, og það er, að það hafi verið hreinn óþarfi að senda menn til Spánar. Jeg get nú engan veginn fallist á þessa skoðun. Þó að enginn beinn árangur sjáist af þessari sendiför, þá verður þó þess að gæta, hve þetta mál er ákaflega viðkvæmt. Þjóðin mundi því gera þær kröfur, að einskis hefði verið látið ófreistað, að þessi kaleikur mætti víkja frá henni. Jafnvel þeir menn ýmsir, sem áður hafa verið ákveðnir andstæðingar bannsins, hafa lýst því yfir við mig, að það hefði verið óverjandi gegn þjóðinni, ef þessi tilraun hefði ekki verið gerð. Þess vegna tel jeg það hafa verið rjett af þingi og stjórn að senda þessa menn til Spánar.

Þá hefi jeg ekki fleira að segja, enda lít jeg svo á, að í þessu máli, fremur en flestum öðrum, hafi fæst orð minsta ábyrgð.